Fjáraukalög 1990
Fimmtudaginn 29. nóvember 1990


     Frsm. minni hl. fjvn. (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. flutti hér stutta ræðu og hófsamlega og svaraði örfáum atriðum sem hér hefur borið á góma í þessum umræðum. Ég sé eigi að síður ástæðu til þess að gera við hana örfáar athugasemdir. Hann spurði hvort Sjálfstfl. vilji lækka skatta um 13 milljarða króna og skera niður útgjöld sem því nemur. Því miður sjáum við ekki, miðað við þær horfur sem eru í fjármálum ríkisins í lok á stjórnartíð þessarar hæstv. ríkisstjórnar, að hægt sé að leggja af alla skattheimtu vinstri stjórnar, eða þessa 13 milljarða kr. Það væri gott ef svo væri og í samræmi við okkar stefnu en ástand fjármála ríkisins er með þeim hætti að þetta mun ekki verða mögulegt.
    Í fyrsta lagi vegna þess að núv. hæstv. ríkisstjórn skilur eftir sig halla í rekstri ríkissjóðs. Við vitum ekki enn þá hvað hann verður mikill á þessu ári. Við í stjórnarandstöðunni höfum spáð 6 -- 7 milljörðum en vafalaust er að raunverulegur halli verður meiri. En ef hallinn er dreginn saman á undangengnum árum, þ.e. á árunum 1988 --- og er kannski ósanngjarnt að kenna núv. hæstv. ríkisstjórn um allan halla sem varð á því ári --- 1989, 1990 og 1991 skv. fjárlagafrv., þá er þetta á núgildandi verðlagi hallarekstur upp á samtals 25 -- 30 milljarða kr. sem safnast hefur upp að meginhluta í tíð núv. hæstv. ríkisstjórnar. Og þó ég segi það sé ekki sanngjarnt að kenna núv. hæstv. ríkisstjórn um allan halla ársins 1988, því að þessi hæstv. ríkisstjórn var mynduð undir lok september, þá er það nú svo að fráfarandi fjmrh. þeirrar ríkisstjórnar, hæstv. núv. utanrrh., hélt því fram alveg þangað til í lok á því stjórnartímabili að halli ársins yrði ekki nema 693 millj. kr. Það var svo nákvæmt. En við stjórnarskiptin var eins og opnaðist flóðgátt á hirslum ríkissjóðs þar sem fé streymdi út. Niðurstaðan varð að útgjöld ársins fóru yfir 8 -- 9 milljarða fram úr fjárlögum og hallinn varð um 7 -- 8 milljarðar. Þetta er ein ástæðan.
    Önnur ástæða er sú að millifærslusjóðir hæstv. ríkisstjórnar sem komið var á í upphafi þessa stjórnartímabils, þar sem teknir voru 8 milljarðar kr. að láni erlendis til þess að borga skuldir, til þess að mæta skuldum í hallarekstri atvinnuveganna, munu skilja eftir sig vanda sem kemur til greiðslu á næstu árum, lítið á næsta ári, að vísu örlitlir vextir á þessu ári, en aðallega á árunum 1992 -- 1993. Ég hef ekki nákvæmt yfirlit yfir það hvað þetta muni verða mikið eða ekki nákvæma spá um það hversu mikið af þessu fé atvinnuvegirnir sjálfir munu geta greitt. En líkur benda til að þarna leggist vandi á herðar ríkissjóðs sem sé eigi minni en um 5 milljarðar kr.
    Í þriðja lagi er fjármálastjórnin með þeim hætti varðandi ýmsa samfélagslega sjóði, sem sækja styrk sinn til ríkissjóðs og eru byggðir upp að verulegu leyti og sumir að meginhluta með framlögum úr ríkissjóði, að þeir hafa verið sveltir í framlögum ríkissjóðs á undanförnum árum, bæði á þessu ári, síðasta ári og skv. fjárlagafrv. fyrir næsta ár á næsta ári, skv. stefnu hæstv. ríkisstjórnar. Þessir sjóðir stefna margir hverjir í gjaldþrot vegna þess að eigin fé þeirra er

smám saman að ganga til þurrðar. Allir þekkja hvernig komið er fyrir húsnæðiskerfinu, Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna. Lánasjóður ísl. námsmanna kom hér til umræðu áðan. Hér á hv. Alþingi kom í gær til umræðu Byggðasjóður og Byggðastofnun, hvernig hæstv. ríkisstjórn er að leika þann sjóð og svona má áfram telja. Það má telja Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna og fleira í þessum dúr. Þarna er um milljarða vanda að ræða sem kemur til kasta framtíðarinnar að leysa. Og hæstv. fjmrh. hefur sjálfur sagt að þessi vandi sé svo stór að hann geti reiknað með því að það taki 2 -- 3 kjörtímabil að ráða við hann. Ég hef sjálfur bætt því við þessi orð hæstv. fjmrh. að þannig sé hans viðskilnaður. Hann hefur ekki orðað það þannig sjálfur. Það eru mín orð. Hann lýsir því á þennan hátt hvernig hans viðskilnaður í fjármálum ríkisins er að þessu leyti þegar hann og hans hæstv. ríkisstjórn yfirgefur Stjórnarráðið væntanlega eigi síðar en á komandi vori.
    Vegna þessara alvarlegu horfa í fjármálum ríkisins, sem má greina sundur í þessa þrjá liði, þá eru ekki líkur til þess, því miður, að þó að við sjálfstæðismenn tökum við stjórn á fjármálum ríkisins og stjórn landsins þá verði hægt að leggja af þessa 13 milljarða skatta. En við ætlum okkur að koma í veg fyrir það að skattarnir haldi áfram að hækka því að með sama framhaldi hækka þeir stórum á komandi árum og er alveg í samræmi við það sem hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórn boðar, meira að segja hæstv. forsrh., að skattar hér á landi séu svo lágir að það sé ekkert tiltökumál þó að þeir verði hækkaðir stórum á komandi árum. Og það mun ábyggilega verða gert ef þessi hæstv. ríkisstjórn fær áfram umboð til þess að stjórna landinu. Það er ábyggilegt. Og það er ábyggilegt að þó að nú sé fyrir frumkvæði aðila vinnumarkaðarins gert samkomulag sem væntanlega
þýðir það, ég segi væntanlega, að lagðar verða til hliðar nokkrar hugmyndir hæstv. ríkisstjórnar um það að leggja nýja skatta á atvinnulífið á næsta ári. Þá er víst að verði þessi hæstv. ríkisstjórn við völd á næsta kjörtímabili þá veit þjóðin hvað verður gert í sambandi við ríkisfjármálin, í sambandi við skattamálin og í sambandi við útgjöld ríkissjóðs. Þetta liggur allt saman fyrir.
    Það er markmið okkar sjálfstæðismanna að taka þessi mál nýjum tökum. Það verður að gerast með þeim hætti að útþensla í ríkiskerfinu, í rekstrarumsvifum ríkissjóðs verði stöðvuð, í stað þess að halda áfram að vaxa svo ár frá ári sem gert hefur verið. Og það verður markmið okkar sjálfstæðismanna að láta linna þessum gífurlegu skattahækkunum sem núv. hæstv. ríkisstjórn hefur staðið fyrir ár eftir ár og stefnir að að halda áfram fái hún til þess völd.
    Þessi þáttur mála, þ.e. ríkisfjármálin, eru að mínum dómi einn af þremur meginþáttum í þeim viðfangsefnum sem bíða næstu ríkisstjórnar. Hin atriðin tvö eru að tryggja það að grundvallaratvinnuvegir þjóðarinnar geti starfað þannig að þeir verði færir um að borga mannsæmandi laun, að þeir verði færir um að leggja til með öðrum þáttum þjóðarbúsins, en ekki

eins og verið hefur að undanförnu að hinir þættir þjóðarbúsins verði að borga með þeim. Þetta er algert grundvallaratriði.
    Þriðja atriðið er það að við verðum að halda þeirri ró og þeim stöðugleika sem vissulega hefur náðst í kjaramálum og verðlagsmálum eftir að þjóðarsáttin komst á, sem gerðist með þeim hætti, eins og ég lýsti hér í minni fyrri ræðu, að aðilar vinnumarkaðarins tóku ráðin af hæstv. ríkisstjórn, neituðu þeim efnahagsgrundvelli sem hún hafði lagt upp, höfnuðu þeirri stefnu sem hæstv. ríkisstjórn hafði boðað með framlagningu fjárlagafrv., með framlagningu þjóðhagsáætlunar fyrir þetta ár og í öllum sínum boðskap, og mynduðu nýjan efnahagsgrundvöll sem færði bæði hæstv. ríkisstjórn og þjóðinni meiri stöðugleika í verðlagsmálum og launamálum en verið hefur um langt skeið. Þessu er nauðsynlegt að halda áfram og þetta er eitt af þeim þremur grundvallarmarkmiðum sem ég tel að Sjálfstfl. muni hafa að leiðarljósi fái hann til þess völd á næsta kjörtímabili.
    Ég tel mig þá hafa svarað því sem hæstv. fjmrh. vék að hér í sinni ræðu áðan, sem var út af fyrir sig hófsamleg ræða, sem hann beindi hér til Sjálfstfl. Að vísu var ég nokkuð á hlaupum vegna annarra funda og heyrði kannski ekki allt sem hæstv. ráðherra sagði en þetta eru meginatriðin.
    Ég vil svo aðeins víkja að því enn sem hæstv. ráðherra sagði um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Hann sagði hvað eftir annað að almenningur í landinu væri ekki sérstaklega vel að sér um bókhaldskúnstir og ríkisreikningsskil o.s.frv. Þetta er vafalaust rétt og í ljósi þess sýnist hæstv. ráðherra ætla að beita óeðlilegum og óformlegum aðferðum við færslu á yfirtöku lausaskuldar í Seðlabankanum, sem nálgast það að allar venjur um bókhald ríkisins, þ.e. reikningsskilavenjur, séu beittar bolabrögðum. Hvers vegna? Til þess að koma í veg fyrir að fólk í landinu fái að sjá rétta niðurstöðu. Þegar hann var að kasta því til mín að ég væri með þetta tal um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins og færslu á þessari yfirdráttarskuld til ríkissjóðs vegna þess að ég vildi sjá aðra niðurstöðu í ríkisútgjöldum og meiri halla þá er nú hægt að snúa því á ýmsa lund. Ég vil bara að þetta sé rétt fært og það eru fleiri en ég sem vilja að það sé rétt fært. Það hefur komið greinargerð um þetta mál frá Ríkisendurskoðun og áður hafði Ríkisendurskoðun látið það í ljós í skýrslu sinni um framkvæmd fjárlaga á miðju ári að þarna væri liður sem ekki væri enn færður til gjalda hjá ríkissjóði sem nauðsynlegt væri og óhjákvæmilegt að kæmi yfir á greiðsluyfirlit ríkissjóðs á þessu ári.
    Ég tel að það eigi að fara að réttum reglum í þessum efnum og ekki treysta á það að almenningur í landinu sé svo illa að sér í bókhaldsskilavenjum og um færslu á gjöldum ríkissjóðs að það sé óhætt að beita bolabrögðum í þessum efnum. Það væri sannarlega illa komið ef það væri gert.
    Ég hef nú fulla trú á því að þó að hæstv. fjmrh. reyni með vafningum að telja fólki trú um það að hægt sé að komast hjá því að færa þessa skuld til

gjalda þá muni hv. meiri hl. á Alþingi og meiri hl. fjvn. ekki láta bjóða sér slíkt. Ég hef fulla trú á að svo fari.
    Ég skal enn vekja athygli á mismun á því þegar ríkissjóður yfirtekur skuldabréf, sem stundum hefur verið gert, þ.e. fast skuldabréf sem er í skilum og hefur stundum verið yfirtekið af ríkissjóði með þeim hætti að það kemur ekki á greiðsluyfirlit þessa árs nema það sem greitt er af því. Þetta hefur verið gert. En hér er ekki um neitt skuldabréf að ræða. Hér er ekki um nein lánsskjöl að tefla. Hér er aðeins um að ræða yfirdráttarskuld, lausaskuld, án nokkurra lánsskjala og engir pappírar standa á bak við, nema eitt bréf sem birtir yfirlýsingu hæstv. fjmrh. og formanns Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, Árna Kolbeinssonar. Ekki eitt einasta lánsskjal og þar ofan í kaupið áður en yfirtaka ríkissjóðs fór fram hinn 1. júní sl., þá var skuldin öll gjaldfallin. Þetta var ekki þinglýst skuldabréf sem var í skilum. Nei, það er enginn lánspappír, aðeins lausaskuld sem öll er gjaldfallin og yfirtekin af ríkissjóði 1. júní. En samt ætlar hæstv. ráðherra að reyna að telja fólki trú um að það eigi ekki að færa hana til gjalda.
    Skrifstofustjóri fjmrn. hefur lýst yfir á fundum fjvn. að eigi verði komist hjá að þessi yfirtekna lausaskuld komi fram í ríkisreikningi. Og forustumenn meiri hl. í fjvn. hafa lýst yfir að það muni einnig ráða um þeirra afstöðu hvort ekki sé þá um leið nauðsynlegt að það sé fært inn á greiðsluyfirlit í fjáraukalögum. Ég held því að við ættum að hætta að tala um þetta og ég held að hæstv. fjmrh. ætti að hætta að tala um þetta á þann hátt að reyna að villa um fyrir fólki. Hann ætti að taka upp þau vinnubrögð að fara að viðurkenndum reikningsskilavenjum og taka tillit til þess sem óháð stofnun sem heyrir undir Alþingi og sett er á laggirnar af Alþingi, Ríkisendurskoðun, segir í sínum greinargerðum og yfirlýsingum.
    Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þær ógreinilegu upplýsingar sem fram komu um þá samninga sem ég spurði um við Reykjavíkurborg og hin stærri sveitarfélög. Þar kom fram að engin króna hefur verið greidd á þessu ári, skv. þeirri heimild sem er í fjárlögum þessa árs, og að samningar séu í gangi en væntanlega þá ekki fullgerðir. Og þar kom fram hjá hæstv. ráðherra að Reykjavíkurborg til að mynda hafi ekki látið fram koma neinar kvartanir. Ef svo er þá er þetta mál allt í lagi og var kannski engin þörf á því að gera neitt samkomulag um að setja þetta inn á 6. gr. ef ekki átti neitt að fara að því samkomulagi og allir aðilar eru ánægðir með. En við höfum ekkert heyrt um það sérstaklega hér á þessum fundi frá fulltrúum Reykjavíkurborgar eða öðrum fulltrúum hinna stærri sveitarfélaga sem hér eiga hlut að máli.
    Ég sé ekki ástæðu til, virðulegur forseti, að minnast á fleiri atriði. Ég geri ráð fyrir því að það sem hæstv. ráðherra sagði um jöfnunargjaldið og ég ræddi hér í fyrri ræðu minni og síðan hv. 1. þm. Reykv. einnig, að hv. 1. þm. Reykv., muni ræða það frekar ef honum þykir ástæða til.