Fjáraukalög 1990
Fimmtudaginn 29. nóvember 1990


     Halldór Blöndal (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Klukkan er korter yfir þrjú og manni var sagt það hér fyrr í dag að þessi fundur mundi taka skamman tíma en svo hefur nú ekki orðið af ástæðum sem forsetum þingsins eru kunnugar og skal ég ekki fjölyrða meira um þá hluti í þessari ræðu minni núna. En á hinn bóginn má vera að
tilefni gefist til þess áður en langt um líður á þessum fundi að gera starfshætti þingsins, fundarsköp og þingsköp enn einu sinni að umræðuefni til þess að við getum farið svo heim fyrir þessa helgi að bæði þingmenn og forsetar geri sér ljóst til hvers ætlast sé í venjulegum samskiptum einstakra þingmanna og forseta. Ég held að það sé alveg ljóst að við þingmenn eigum rétt á því að virðing sé borin fyrir okkar tíma þegar svo stendur á. Ég er síður en svo á móti því að langar ræður séu haldnar, en á hinn bóginn þykir mér undarlegt þegar maður fer fram á það að fá að gera stutta athugasemd í sambandi við fjáraukalög, að slíkt gefi tilefni til sérstaks forsetafundar, að maður einungis skuli biðja um orðið.
    Ég vil vekja athygli á því að í brtt. meiri hl. fjvn. eins og þær liggja fyrir er ekki sinnt jafnsjálfsögðum málum eins og þörfum Leikfélags Akureyrar eða Óperunnar hér í Reykjavík. Ég vil að það sé alveg ljóst að ég mun ekki una því að fjáraukalög verði afgreidd svo á mánudag að þingið ákveði það án atkvæðagreiðslu að Leikfélag Akureyrar verði lagt niður. Og ég geri ráð fyrir því að Óperan eigi líka þá vini hér, þar á meðal mig, sem munu skilja það að ekki gengur að þessi þröngsýna ríkisstjórn, sem nú situr og við höfum m.a. fengið smjörþefinn af hér í þingsölum í dag, skuli geta ákveðið að leggja slíkt menningarfyrirbæri niður sem íslensk ópera er.
    Bæjarstjórn Akureyrar hefur látið Byggðastofnun gera athugun á því hversu miklir fjármunir fari til menningarmála á Akureyri og hér á höfuðborgarsvæðinu. Það kemur engum þingdeildarmanni á óvart að framlögin eru mjög veruleg, skipta hundruðum milljóna. Ef allt er talið verðum við að fara í enn hærri tölu, verðum við að fara í níu stafa tölu, milljarð, og mæla í milljörðum þegar við ræðum um menningarmálin hér á höfuðborgarsvæðinu. Og það er til marks um rausnarskapinn að viðræður hafa verið í gangi um það nú milli menntmrh. og aðila sem standa í atvinnurekstri að festa kaup á dýrum byggingum til þess að þjóna þeim menningarhagsmunum sem eru hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég þarf ekki að vekja athygli á því hér í þinginu, það vita þingmenn, að Listasafn Íslands er hér á þessum stað með sínar byggingar, sín hús, sín málverk, en á hinn bóginn hefur ekki verið gengið fram í því að Listasafn Íslands og ríkissjóður taki þátt í sjálfsögðum kostnaði við það að úti á landi geti risið myndarlegir myndlistarsalir og að Listasafn Íslands sé aðili að slíkum sal.
    Ef við tölum um tónlistina kemur hið sama upp, að ríkisvaldið lætur sig litlu skipta hvernig þeirri starfsemi er háttað úti á landsbyggðinni. Síðast í dag fékk ég í hendur bréf frá fjmrn. þar sem amast er við því

og því synjað að standa við fimm ára gamalt loforð um niðurfellingu á sköttum vegna orgelkaupa í kirkju úti á landi. Þannig andar til strjálbýlisins, dreifbýlisins frá þeim sem stjórna. Mér er sagt að framlög t.d. til framhaldsskóla og fjárfestingar á því sviði séu mjög misjöfn. Ég veit að það er ekki efni fjáraukalaga að fjalla um fjárveitingar til framhaldsskóla á næsta ári, en ég vil svona rétt til að sýna fram á sinnuleysi þeirrar ríkisstjórnar sem nú er gagnvart menningarlegri uppbyggingu úti á landi vekja athygli á því að í fjárlagafrv. er einungis gert ráð fyrir litlum 15 millj. kr. til uppbyggingar Verkmenntaskólans á Akureyri, það fer ekki króna til Menntaskólans og með margvíslegum hætti öðrum er reynt að þrengja mjög kosti þeirra sem vilja halda uppi myndarlegri menningar - og menntunarstarfsemi og viðleitni úti á landsbygginni. Þess vegna vil ég að það komi alveg skýrt fram hér og nú úr þessum ræðustóli að ég mun ekki sætta mig við það að Leikfélag Akureyrar verði lagt niður án þess að Alþingi taki sérstaklega afstöðu til þess og ég veit að aðrir þingmenn Norðurl. e. eru mér sammála í því og ég vil vænta þess að brtt. þar að lútandi verði lögð fram við frv. til fjáraukalaga af fjvn. við 3. umr. Það er smekklegt. Það hefði auðvitað verið skemmtilegra að sú brtt. hefði komið strax við 2. umr., líka varðandi Óperuna. Það er svona smekklegra fyrir hæstv. fjmrh. og meiri hl. að þingmenn taki ekki sjálfir völdin af þeim og þess vegna legg ég upp úr því að þetta geti gerst.
    Ég vil í annan stað vekja athygli á þeim orðaskiptum sem hafa orðið hér í þinginu í dag milli hæstv. fjmrh. og hv. 2. þm. Norðurl. v. Pálma Jónssonar vegna þeirra skuldbindinga sem ríkissjóður hefur tekið á sig vegna lántöku Verðjöfnunarsjóðs. Þessi umræða um eðli lántökunnar er ekki ný hér í þinginu. Við munum eftir því að hæstv. fjmrh. var að fegra afkomu ríkissjóðs á sínum tíma með því að segja að styrkveitingar til sjávarútvegsins úr Verðjöfnunarsjóði kæmu ríkissjóði ekki við, ykju ekki halla ríkissjóðs þar sem lánveitingarnar væru teknar af Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins. Hann kannaðist ekki við að ríkissjóður hefði tekið á sig þessar skuldbindingar. ( Gripið fram í: Hann sagði já.) Hann sagði það, við getum flett því upp í Ed. ef hæstv. ráðherra vill --- það er kannski hægt, úr því að okkur ber ekki saman, fundi hefur nú verið frestað af minna tilefni í dag, að fresta nú fundi og gefa mér svigrúm til þess að fletta upp í ræðum hv. þm. þegar frv. um Verðjöfnunarsjóð var til umræðu á sínum tíma og athuga hvort ég fari rétt með. Mér mundu duga 20 mínútur. Ég veit ekki hvort ég á að taka þögn sem samþykki.
    Auðvitað sagði hæstv. fjmrh. að þetta kæmi ríkissjóði ekki við. Þessar fjárhæðir eru hvergi í ríkisreikningi. Hins vegar var það samþykkt á þingi í vor að ríkissjóður með formlegum hætti tæki þessar skuldbindingar yfir. Það var samþykkt með lögum og ekki getur hæstv. fjmrh. búist við því að embættismennirnir sem færa ríkisreikninginn komist hjá því að skuldfæra lánið. Það eru lög um ríkisreikning. Og fjmrh. getur ekki með einhverri handauppréttingu um fjáraukalög breytt lögum um ríkisreikning. Þær skuldbindingnar sem ríkissjóður tekur á sig hljóta að koma inn í bókhaldið. Skuldir ríkissjóðs á hverjum tíma eru bókfærðar. Það liggja fyrir upplýsingar um það hverjar eru skuldir ríkissjóðs á hverjum tíma og þessar skuldir voru færðar yfir á skuldir ríkissjóðs á þessu ári og auðvitað koma þá útgjöld á móti. Þetta er einföld bókfærsla. Og auðvitað verður þetta að koma inn í fjáraukalög. Það er lagaskylda. En ráðherrarnir eru farnir að haga sér með ýmsum hætti.
    Það er ekki langt síðan hæstv. félmrh. lýsti því yfir hér í þessum ræðustól að félmrn. hefði af ásetningi gefið út sérprentun af lögum með röngum lagastaf. Og þetta er allt í lagi á Íslandi. Ég hef ekki séð að dagblöðin eða fjölmiðlarnir hafi veitt þessu neina athygli. Erlendis hefði framkoma af þessu tagi dugað til að viðkomandi ráðherra hefði orðið að segja af sér. Og meira að segja leit Alþingi svo alvarlegum augum á þetta á sínum tíma þegar refsilög voru samþykkt að það er sérstök klásúla í refsilögum sem lýtur einmitt að þessu athæfi ráðherrans. Þannig er nú það.
    Ég vil í þriðja lagi vekja athygli á því, hæstv. forseti, að ríkisvaldið í gegnum Seðlabankann og bankaeftirlitið hefur gert bönkum, bæði ríkisbönkum sem öðrum, það að skyldu að gera upp reikninginn við lífeyrissjóði starfsmanna bankanna þannig að þar liggi ekki eftir einhverjar uppsafnaðar kvaðir, skyldur sem engin verðmæti standa á bak við. Hæstv. fjmrh. hefur talað um það, þegar hann talar um bankamál, að nauðsynlegt sé fyrir bankana að leggja til hliðar fjármuni einmitt til þess að mæta slíkum skuldbindingum síðar. Hvað gerir hæstv. fjmrh. í sambandi við skuldbindingar ríkissjóðs, í sambandi við Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna? Hefur hann sett sér svipuð markmið eins og hann ætlast til og ríkisstjórnin ætlast til að bankarnir geri, t.d. að fylla upp í gatið á fimm árum? Það hefur hann ekki gert. Og það sem meira er, hann hefur algjörlega hundsað kröfur, og ég vil segja mjög sterkar kröfur, opinberra starfsmanna um að a.m.k. verði haldið í sama horfi og áður hafði verið.
    Ég vil svo að síðustu, hæstv. forseti, aðeins skýra frá því að fram kom á fundi um langtímaáætlun í vegamálum að hæstv. fjmrh. hefði beint þeim tilmælum til einstakra ríkisstofnana að gjaldskrár einstakra stofnana yrðu ekki hækkaðar á næsta ári umfram þá verðbólgu sem búast megi við að þá verði. Það kom fram á fundi okkar í langtímanefnd með aðilum vinnumarkaðarins og ráðuneytisstjóra fjmrn. að þetta mundi þýða verulega erfiða rekstrarstöðu hjá ýmsum opinberum stofnunum. Það kom líka fram á þessum fundi að ríkið hefur stillt svo til að hækkanir á sköttum og gjaldskrám opinberra aðila eigi að falla hinn 1. jan. nk. Og af hverju 1. jan.? Vegna þess að með því að velja þá dagsetningu fá launþegar verðbólguhækkunina ekki uppi borna með hækkuðu kaupgjaldi fyrr en 1. júní á næsta ári. Ef á hinn bóginn hefði verið valin dagsetning eins og 30. apríl eða 30. nóv. hefði ríkissjóður og atvinnurekendur orðið að taka við þessari byrði 1. jan. eftir mánuð, eða 1. júní eftir mánuð.

Efnahagsstjórn ríkisins er með öðrum orðum miðuð við það að níðast eftir mætti á þeim litla kaupmætti sem eftir er í landinu, fara í kringum þá samninga sem gerðir voru með þjóðarsáttinni og reyna að kreista kaupmáttinn niður eftir getu án þess að það brjóti beinlínis í bága við þau samningsákvæði sem sett voru. Þetta er auðvitað siðlaust.
    Ég tel rétt að það komi fram að ég hef óskað eftir upplýsingum um það, sem ég vænti að fá á miðvikudag, hvaða hækkanir það eru sem ríkisstjórnin hefur áformað 1. jan. nk. og verður fróðlegt að fara yfir þann lista.
    Að síðustu vil ég aðeins segja þetta: Við þingmenn megum búast við því það sem eftir lifir til jóla að töluvert verði að gera. Þá er auðvitað mjög þýðingarmikið að ekki aðeins forsetar þingsins heldur einnig formenn þingnefnda standi þannig að verki að sé í samræmi við þingsköp, þingvenjur og góða siði hér á hinu háa Alþingi og ekki sé verið á síðustu stundu að fara á snið við þær reglur sem við viljum setja okkur og reyna þannig að brjóta niður bæði móral og heiðarleg vinnubrögð í þessu húsi. Þetta held ég að sé mjög mikilsvert. Mér er það kunnugt að þessi mál hafa verið rædd á fundi með forsetum og formönnum þingflokka. Það gefur auðvitað auga leið að þessi mál verður að ræða sérstaklega í þeim nefndum og á þeim stöðum þar sem á hefur skort að fyllstu þingskapa sé gætt, reglna sem eru um starfsemi nefnda og jafnframt óska ég eftir því --- og nú skal ég ekki krefjast þess að forseti þingsins komi hér inn --- að upplýsingar um slíka fundi verði látnar í té ef einstakir nefndarmenn eða þingmenn óska þess.