Stefán Valgeirsson :
    Virðulegi forseti. Mögulegt skipbrot þjóðarsáttarinnar á Alþingi hefur orðið mönnum tilefni til stóryrða og forsrh. til að boða til þingrofs og kosninga um miðjan janúar ef fram fer sem horfir. Nokkrir stuðningsmanna minna hafa komið að máli við mig og lagt áherslu á að ég styddi frv. ríkisstjórnarinnar til staðfestingar bráðabirgðalögunum um kjör félagsmanna BHMR. Það hefði ég viljað gera en allt hefur sín takmörk.
    Þjóðarsátt launþega og atvinnurekenda í byrjun þessa árs var fagnaðarefni sem lægði ólgu á vinnumarkaði og stuðlaði að ró í þjóðfélaginu sem gat orðið grundvöllur að bættum kjörum þeirra sem lakast eru settir. Kjör láglaunafólks, barna, elli - og örorkulífeyrisþega, svo og margra annarra, ekki síst á landsbyggðinni, hafa verið slík að þjóðarsátt með eitthvað annað að aðalmarkmiði gat ekki staðið undir nafni.
    Nú þegar margir vilja framlengja þjóðarsáttina er ástæða til að athuga hvernig hefur til tekist. Hafa kjör þeirra lakast settu batnað? Hefur aðstöðumunur í þjóðfélaginu minnkað? Svarið er nei. Fyrirheit um lækkun raunvaxta og niðurfellingu lánskjaravísitölunnar, jöfnun orkukostnaðar og fleira hefur ekki gengið eftir. Vaxtaokrið, allt frá 7,25% upp í yfir 10% raunvexti, er að eyðileggja allt, bæði fyrirtæki og heimili. Svo er dekrað við fjármagnseigendur að auki og fjármagnstekjur eru skattfrjálsar einar tekna.
    Er ekki ábyrgðarhluti fyrir forustumenn launþega að semja um óbreytt kjör láglaunafólks við þessar aðstæður? Það hlýtur að vera vafamál að festa misrétti í sessi nema því stærri áfangar til kjarabóta séu í augsýn. En því miður bendir ekkert til kjarabóta láglaunafólks. Launamunurinn hefur vaxið stöðugt. Aðstæður eru þær í þjóðfélaginu að ekki er raunhæft að gera ráð fyrir að þjóðarsátt, sem miðar að stöðugu verðlagi, standi lengi. Vaxtaokrið fer stórvaxandi hlutfallslega, það eru tekjur bankastofnana, halli á viðskiptum við útlönd, halli á ríkissjóði og miklir möguleikar fámennra hálaunamanna til að þrýsta upp kjörum sínum með verkföllum, auknum greiðslum fyrir ómælda yfirvinnu eða hliðstæðum aðgerðum. Allt þetta er líklegt til að eyðileggja árangur þjóðarsáttarinnar.
    En yfir tekur þó ef ráðist verður í yfir 100 milljarða framkvæmd við álver og það sem því fylgir að mestu fyrir erlent lánsfé. Þessi atriði munu ekki aðeins torvelda framkvæmd þjóðarsáttarinnar heldur útiloka hana.
    Hver er svo staða mín gagnvart staðfestingarfrumvarpi ríkisstjórnarinnar? Ég hef engar skyldur við ríkisstjórnina í þessu máli. Halldór Ásgrímsson sjútvrh., sem gegndi störfum forsætisráðherra á sl. sumri, ræddi þessi mál við mig. Ég benti honum á að allt þetta mál væri hreint klúður. Í þessu máli hafi ríkisstjórnin alltaf tekið versta kostinn. Þá lá fyrir að BHMR mundi fara í mál ef ríkisstjórnin gæfi út bráðabirgðalög til þess að ógilda launasamning þeirra. Mér var ljóst að það var mjög alvarlegt ef launagreiðslur yrðu framkvæmdar samkvæmt samningnum

eins og á stóð. Ég lagði því til við Halldór að bráðabirgðalögin fælu það eitt í sér að fresta greiðslum og reyna til þrautar að ná samningum við BHMR til þess að reyna að koma í veg fyrir þensluáhrif þegar til lengri tíma er litið. Ég taldi mikilsvert samt sem áður að leiðrétta kjör ýmissa lægri hópa innan BHMR, svo sem hjúkrunarfólks, kennara, presta og fleiri. En síðan kom Steingrímur Hermannsson forsrh. til starfa. Halldór sendi mér uppkast að bráðabirgðalögum í póstfaxi. Ég hafði samband við hann og innti hann eftir því hvort hann hefði skýrt Steingrími frá afstöðu minni. Síðan hef ég ekkert um málið heyrt.
    Ég hef skyldur við þjóðina og vil vinna að jöfnuði manna og réttlæti. Að sjálfsögðu vil ég vinna með forustumönnum launþega og atvinnurekenda að málum. Hins vegar liggur fyrir yfirlýst af ábyrgum mönnum, bæði á Alþingi og utan þess, að þeir telja frv. ríkisstjórnarinnar brot á stjórnarskránni. Ég hef reynt að frá traust sérfræðilegt álit þar um en stór hluti þingmanna, með forseta Alþingis í forustu, virðast ekki vilja sérfræðilegt álit um mögulegt stjórnarskrárbrot Alþingis og hefur vísað þáltill. minni frá. Hana mátti ekki einu sinni skoða í nefnd.
    Þegar skýr og rökstudd svör um að frv. brjóti ekki gegn stjórnarskránni liggja fyrir mun ég ekki hindra samþykkt þess, eins og ég tók fram í umræðum á Alþingi um þetta mál um daginn. Skoðanir lögfræðinga eru skiptar um hvort bráðabirgðalögin standist sum ákvæði stjórnarskrárinnar. Því vil ég fá undanbragðalaust lögfræðilega álitsgerð sem ríkisstjórnin hlýtur að hafa fengið í hendur um þetta mál áður en frv. kemur til 2. umr. í Nd.
    Viðbrögð flestra formanna stjórnarflokkanna á Alþingi út af þessu máli eru lærdómsrík og benda til þess að kosningaskjálftinn sé dómgreindinni yfirsterkari. Ég bið um lögfræðilega álitsgerð, sem stjórnarflokkarnir hljóta að hafa fengið, og legg til að umboðsmaður Alþingis láti í té álit sitt um málið eða annar hlutlaus aðili sé til þess fenginn. Þessi tillaga virðist svo eitruð að þeirra dómi að hún megi ekki fara til nefndar, hvað þá meira.
    Stjórnarandstaðan sá sér leik á borði og krefst þess að ríkisstjórnin segi af sér. Stjórnarflokkarnir telja þessa beiðni mína svo alvarlega að þeir ræða um að rjúfa þing og efna til kosninga og það um miðjan janúar. Stjórnarandstaðan tekur undir það að kosningar verði í janúarmánuði. Er hægt að sýna með augljósari hætti meira tillitsleysi við fólkið á landsbyggðinni en í þessu felst? (Forseti hringir.) Að efna til kosninga um miðjan vetur þegar allra veðra er von og heyja kosningabaráttu um hátíðarnar.
Það er nauðsynlegt að allur almenningur geri sér grein fyrir því hvað á bak við liggur. Það er eitthvað annað en beiðni mín um álitsgerð. (Forseti hringir.) Ég á mjög stutt eftir ef ég má ljúka þessu, virðulegur forseti, en ég get líka hætt hér. ( Forseti: Forseti vill aðeins benda á að hv. þm. fékk leyfi til að flytja þinginu tilkynningu. Ég vænti þess að þetta sé aðdragandi að henni.) Sú tilkynning hefur þegar komið fram, virðulegur forseti. Ég er að biðja um álitsgerð.

    Ég vil að lokum nefna að samtryggingarkerfi gömlu fjórflokkanna í samstarfi við samtök launþega og atvinnurekenda hefur ekki náð því að jafna kjör fólks í landinu. Misrétti hefur stóraukist á þessum áratug sem senn er liðinn. Það er óviðunandi. Samfélagið verður að skipa svo málum að fólk geti unnið fyrir sér. Kjörin verður að jafna. Ég hef á þessu þingi og fyrri þingum lagt fram tillögur um að kanna lágmarksframfærslukostnað í landinu og á þessu þingi liggur frammi frv. um lífvænleg lágmarkslaun. Sú leið hlýtur að verða athuguð ef þjóðarsáttin reynist gagnslaus vegna þess að valdhafarnir hafa ekki farið eftir þeim samningi sem gerður var í upphafi valdaferils þeirra.