Ragnhildur Helgadóttir (um þingsköp) :
    Frú forseti. Af því að mér þykir nokkru varða hvort hér er um nýja aðferð að ræða eða ekki vil ég leyfa mér að biðja hæstv. forseta að tilgreina þessi fordæmi. Að því er ég man, og ég man auðvitað ekki öll þau tilvik sem vera kynnu til um þetta efni, en að því er ég best man hef ég ekki vitað af slíku nema í sambandi við yfirlýsingu um að ríkisstjórnin hafi misst meiri hluta sinn, þ.e. þegar ríkisstjórnin hefur haft mjög tæpan meiri hluta hafi þingmaður lýst því yfir að hann styddi ekki lengur þá ríkisstjórn og/eða jafnvel hefði gengið úr tilteknum stuðningsflokki ríkisstjórnar og styðji hana ekki lengur. Ég vil biðja hæstv. forseta að gera þingheimi þann heiður að tilgreina þessi fordæmi.