Stjórn fiskveiða
Mánudaginn 03. desember 1990


     Skúli Alexandersson :
    Virðulegi forseti. Sú umræða sem hér er hafin má segja að hafi komið til af því að sl. fimmtudag var hér uppi umræða um þingsköp sem hv. þm. Halldór Blöndal hóf. Ég tel að þeirri umræðu hafi lokið þann dag í síðari hluta þeirrar umræðu þegar hæstv. forseti leyfði hér þingskapaumræðu um þetta tiltekna mál, þ.e. um það að þingmenn fengju í hendurnar plögg sem sjútvrn. var með og hafði upplýst sjávarútvegsnefndir þingsins um að til væri listi yfir alla smábáta og úthlutun kvóta til þeirra. Því hafði verið hafnað af ráðuneytinu og ráðherra hefur staðfest það hér í ræðustól að við fengjum ekki þessar upplýsingar í hendur. Okkur var boðið upp á það að skoða þessi gögn á fundi í sjútvn. og einnig að koma í ráðuneytið og líta á þessi gögn. Hv. þm. Halldór Blöndal felldi sig ekki við þá niðurstöðu og eins er með þann sem hér stendur. Mér fannst að þarna væri gengið heldur langt í sambandi við það að neita þingmönnum um upplýsingar þar sem það lá að vissu leyti fyrir að þessar upplýsingar voru í höndum fleiri aðila heldur en þröngs hóps inni í sjútvrn. Þær voru í vinnslu í nefnd í Fiskifélaginu og þó nokkuð stór hópur manna í sjútvrn. var að fjalla um þetta. Mér fannst og finnst enn að þessi gögn hefðu átt að vera afhent þingmönnum sem trúnaðarmál og ekki geri ég lítið úr þeim trúnaði, sem hægt er að sýna starfsmönnum ráðuneytisins um það að þeir sýni ekki nema þeim sem eiga að sjá svona gögn, að það sé ekki hægt að sýna þingmönnum í sjávarútvegsnefndum Alþingis hinn sama trúnað.
    Ég tek alveg undir það að það er ekki hægt að gera slík gögn sem þessi að opinberum gögnum og rökum sjútvrh. um það að það sé ekki hægt að ganga út frá því að þessum gögnum verði ekki breytt, þetta sé bráðabirgðaúthlutun. En einmitt á þessu stigi var, eins og hv. þm. Halldór Blöndal nefndi hér áðan, nauðsynlegt fyrir þingmenn að geta haft þessi gögn í höndunum einmitt til þess að geta upplýst kjósendur sína, hvort sem það voru kjósendur vestan af Hellissandi eða úr Grímsey, um það hvernig staða þeirra væri. En því miður, þessi gögn verða víst ekki í höndum okkar fyrr en ýmsir hlutir í kringum þetta mál eru gengnir fram.
    Það er ekki rétt að eyða fleiri orðum um þennan hlut málsins, en út frá þessari umræðu samþykkir síðan virðulegur forseti að hér í hv. þingi fari fram umræða utan dagskrár um stjórn fiskveiða. Hér er því verið að ræða um miklu stærra mál heldur en þetta einstaka mál sem var hér til umfjöllunar sl. fimmtudag. Það er verið að óska eftir því að þingmenn fjalli hér almennt um stöðu mála, hvað blasi við þegar hin nýju lög, sem samþykkt voru hér í byrjun maí sl., taka við og hvað hafi verið að gerast í sumar eftir að þessi lög voru samþykkt beinlínis vegna þeirra ákvæða sem í þeim lögum eru.
    Mér finnst í sannleika sagt það vera ansi kraftlaus stjórnarandstaða sem lætur það henda sig að henni sé fengið upp í hendurnar eða það sé allt að því óskað eftir því að hún fari að fjalla hér á hv. Alþingi utan

dagskrár um þetta stóra mál, það komi hálfpartinn óvart upp í hendurnar á hv. þm. Halldóri Blöndal að fiskveiðistefnan sé tekin hér til umfjöllunar á hv. Alþingi, að stjórnarandstaðan, Sjálfstfl., þessi ábyrgi stjórnarandstöðuflokkur skuli ekki hafa óskað eftir því á þeim tveim mánuðum tæpum sem þingið hefur setið að fjalla um þetta stóra mál hér á hv. Alþingi, spyrja ríkisstjórnina, hæstv. sjútvrh. hvernig mál standi og að hverju stefni. En Sjálfstfl. þurfti að standa frammi fyrir því eins og kannski --- ég segi því miður --- ansi oft að hlutirnir gerast á þann veg að atburðurinn dettur yfir þá. Og mér finnst að ræða hv. þm. Halldórs Blöndals hér áðan hafi einmitt verið ljós vottur þess. Hann fjallaði í mjög takmörkuðu máli og í takmörkuðum þáttum um þetta stóra mál --- fiskveiðistefnuna.
    Það eru rétt sex mánuðir, rétt hálft ár, frá því að Sjálfstfl. veitti núv. ríkisstjórn raunverulega traustsyfirlýsingu hér á hv. Alþingi með því að samþykkja með henni þau fiskveiðilög sem taka gildi 1. jan. (Gripið fram í.) Og það er sérstakt eftir öll þau stóru orð sem hafa fallið undanfarna daga í sambandi við þau bráðabirgðalög, sem eru hér til umfjöllunar í hv. þingi, að Sjálfstfl. skuli við afgreiðslu fiskveiðistefnunnar ekki hafa tekið betur á málum en raun bar vitni um. Hann taldi enga ástæðu til þess þá að breyta fiskveiðistefnunni eða gera neitt af því sem hv. þm. Halldór Blöndal var að nefna hér áðan heldur voru þær brtt. sem t.d. ég flutti í hv. Ed. um lagfæringar á fiskveiðistefnunni felldar einmitt með atkvæðum þessa hv. þm.
    Það er sem sagt dálítið sérstakt að um jafnmikilsvert mál eins og þetta, eins og fiskveiðistefnuna, eins og um fiskvinnslustefnu, sem hv. þm. nefndi nú að þyrfti að ræða líka, að Sjálfstfl. skuli ekki hafa notað tækifærið núna þegar styttist að kosningum til að fjalla um þetta mál hér á þingi fyrr en það kemur allt í einu óvart upp í hendurnar á þeim vegna þess að hæstv. sjútvrh. neitaði því að láta einn af flokksmönnum þeirra hafa ákveðin gögn, ekki mjög mikilsverð miðað við hvað málið allt er mikilsvert.
    Staðreyndin er nefnilega sú að Sjálfstfl. og þar af leiðandi líka hv. þm. Halldór Blöndal kaus það í vor að verða eitt stórt núll við afgreiðslu þessa máls hér á hv. Alþingi. ( Gripið fram í: Þetta er þvættingur.) ( Gripið fram í: Ekki allir.) Ekki allir, nei. Það er alveg rétt að undantekningar voru. Það er alveg rétt. En útkoman var sú að það var Sjálfstfl. sem kom þessu máli hér í gegn, fiskveiðistefnunni, og stóð að henni. Og getur það verið að þó að þeir neiti núna að fara eftir ráðum þeirra úr Garðastræti 6 þá hafi þeir þá farið eftir ráðum annarra manna úr öðru húsi, kannski úr Hafnarhvoli við Tryggvagötu? Gæti það verið? Gæti verið að LÍÚ sé ábyrgari stofnun fyrir Sjálfstfl. að mynda sína skoðun eftir heldur en að fylgja því eftir sem þeir vilja í Garðastrætinu, þ.e. í Vinnuveitendasambandi Íslands?
    Því miður náðist ekki málefnaleg samstaða í þinginu og í Ed., þar sem ég á sæti, um það að breyta frv., hvorki á þann veg sem hv. þm. Halldór Blöndal

var að nefna né eftir þeim tillögum sem ég lagði þar fram. Við náðum þó samkomulagi við fulltrúa Sjálfstfl. í deildinni um það að gera tilraun til að fresta þessu máli og ég ásamt hv. þm. Halldóri Blöndal og Guðmundi H. Garðarssyni ( KP: Og fleirum.) og fleirum, já --- það var líka hv. þm. Karvel Pálmason. (Gripið fram í.) Jú, jú, þetta er þannig að hv. þm. Karvel Pálmason eða þeir sem fluttu tillögu um rökstudda dagskrá voru hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, Karvel Pálmason, Skúli Alexandersson og Halldór Blöndal. Við gerðum tilraun til þess við lokaafgreiðslu að fá frv. frestað og að það yrði tekið fyrir á sérstöku þingi á sl. sumri. Þessi afgreiðsla fékk ekki náð fyrir augum meiri hl. deildarinnar og okkar rökstudda dagskrá var felld.
    Ég gerði þá tilraun til þess að breyta frv. lítillega, sá reyndar að það var komið þar að lokastund og gerði tilraun til þess að fá breytt einu mjög mikilsverðu atriði sem tengist einmitt þeirri umræðu sem hefur verið í þjóðfélaginu hvað mest í sambandi við fiskveiðarnar nú síðustu daga, þ.e. um stöðu smábátanna. Ég lagði þar til að inn í frv. yrði sett ákvæði um það
að heimila ekki flutning á aflaheimildum frá minni skipum til stærri skipa. Það mætti flytja aflaheimildir frá stærri skipum til minni.
    Ég tel að ef þessi tillaga hefði verið samþykkt þá hefði orðið mikil breyting á þeim lögum sem við förum nú bráðum að vinna eftir. Það hefði verið lokað fyrir þá þróun sem hefur átt sér stað í allt sumar að það sé verið að selja kvóta minni skipanna og þó sérstaklega smábátanna, undir tíu tonnum, yfir til stóru skipanna og breyta þar með aflamunstrinu, sóknarmunstrinu, á þann veg að það sé verið að minnka smáskipaflotann yfir í það að vera að efla stórtogaraútgerðina í landinu.
    Samkvæmt heimildum sem Fiskifréttir flytja í síðasta blaði munu um 200 trillukvótar hafa verið seldir frá því að þessi lög voru samþykkt og meginhlutinn af þessum 200 trillukvótum hefur verið seldur til frystitogara eða stórra togara eða stórútgerða. Ég held að þetta sé mjög óheppileg þróun og jafnvel þó það sé alveg rétt sem hæstv. sjútvrh. sagði hér áðan, að á undanförnum árum hefði aflahlutdeild smábátanna aukist mjög mikið eða frá því að vera 13.000 -- 14.000 tonn upp í rúm 40.000 tonn, þá er þessi þróun samt mjög hættuleg. Ef á að stefna að því t.d. að koma aflahlutdeild smábátanna núna niður í það sama og var 1984 þá mundi það hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar í mörgum byggðarlögum í landinu. Það er ekki hægt að hverfa til þess tíma, þess upphafs þegar kvótakerfið tók gildi vegna þess að einmitt undir þessu kvótakerfi var heimilt að fjölga smábátum og það var ekki gerð nein tilraun til þess af sjútvrn. að koma í veg fyrir það fyrr en á síðustu stundu, þ.e. um áramótin síðustu, líkast til í desember eða í kringum áramótin 1989 -- 1990. Allan hinn tímann gerist það að smábátaflotinn er að stækka og það er verið að byggja upp atvinnugreinar í kringum smábátaflotann.
    Ég hef alltaf haft ákveðna tilfinningu fyrir því að það hafi ekki verið mikill vilji hjá sjútvrn. og þeim

sem oftast nær hafa verið bandamenn þess í þessum málefnum, þ.e. LÍÚ, að hamla gegn stækkun smábátaflotans. Það hafi ekki verið mikill vilji, enda bar lítið á baráttu forustumanna LÍÚ á síðustu árum fyrir því að stöðva stækkun smábátaflotans. Það voru fyrst og fremst samtök smábátamanna sjálf sem voru að reyna að hamla gegn því og fara fram á það að ekki yrði haldið áfram þessari sífelldu uppbyggingu smábátanna. Einmitt vegna þess sem er að koma í ljós núna, að það eru stóru togararnir sem eru að gleypa smábátaflotann, þá hef ég haft trú á því og talið það liggja raunverulega í augum uppi að þeir hjá LÍÚ, sem hafa sérstaka samúð með stóru frystitogurunum og stóru togurunum, hafi haft áhuga fyrir því að það gerðist á ákveðnu áratímabili að smábátaflotinn stækkaði til þess að það væri auðvelt fyrir þá að gleypa þá á eftir. Það er sem sagt komið í ljós að þessi fjölgun smábátanna hefur gert LÍÚ - mönnum, eigendum frystitogara og stórtogara, auðvelt um vik, að núna á aðeins sex mánaða tímabili eru þeir búnir að sölsa undir sig 3000 -- 4000 tonn af aflakvóta smábátanna. Gæti það verið að þeir hefðu haft svolitla framsýni þegar þeir létu ekkert verða af því að stöðva þessa stórkostlegu uppbyggingu?
    Um þessa stöðu, þ.e. um sölu veiðileyfanna, mætti hafa ýmis fleiri orð en þó eru það tvö atriði sem ég vil vekja sérstaklega athygli á til viðbótar. Þau eru kannski ekki beinlínis í tengslum við lagasetninguna um stjórn fiskveiða heldur afleiðing annarra laga. Það er þá í fyrsta lagi spurningin: Hverjir eru að kaupa aflakvóta og hafa verið að kaupa aflakvóta á undanförnum mánuðum? Það skyldu þó aldrei vera þeir aðilar sem höfðu það erfiðan rekstur haustið 1988 að talið var nauðsynlegt að stofna mjög öflugan sjóð sem heitir Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina. Talið var nauðsynlegt að byggja upp þannig lagað lánakerfi, sem var alveg nýtt í sögunni, að hægt væri að lána þessum fyrirtækjum með ríkisábyrgð, ekki með venjulegum skuldaskilum gegnum viðskiptabanka eða stofnlánasjóði eins og Fiskveiðasjóð, heldur beinlínis með lánum sem ríkissjóður ábyrgðist? Sem sagt að ef viðkomandi fyrirtæki gæti ekki staðið í skilum þá mundi hann ríkissjóður okkar, landskassinn okkar, borga þessi lán. Því miður mun það nú víst vera þannig að það sem er fallið í gjalddaga af þessum lánum núna í lok ársins 1990, sem eru fyrst og fremst vextir og víst eingöngu vextir, það mun vera á ýmsan veg um skil á því. Þannig að t.d. í lánsfjárlögum er ætlast til þess að það séu útvegaðir peningar, a.m.k. hálfur milljarður eða svo, til að standa undir stöðu Atvinnutryggingarsjóðsins vegna þess að það renna ekki miklir peningar inn í sjóðinn til að standa undir þeim lánum sem sjóðurinn hefur tekið til þess að lána þetta.
    Skyldu það nú ekki vera þessir aðilar fyrst og fremst sem eru að kaupa upp smábátakvótann núna og kvóta ýmissa annarra aðila? Getur það verið að ríkisstjórnin hafi raunverulega verið að koma þessu lánaskipulagi á til þess að ákveðnir aðilar yrðu sterkari í þjóðfélaginu, til þess að færa þarna á milli, hefðu aðstöðu til þess að kaupa kvóta úr Grímsey, vestan af

Hellissandi eða annars staðar, skilja þar eftir ákveðin svæði kvótalaus en flytja kvótann til þessara fyrirtækja sem við úr hinum sameiginlegu sjóðum höfðum styrkt til þess að geta lifað áfram? Þetta er samt staðreyndin. Þetta er staðreyndin í málum eins og þau blasa við í dag, að það eru einmitt þessi fyrirtæki sem eru fyrst og fremst að sölsa undir sig kvóta vítt og breitt um landið, og kannski fyrst og fremst frá þeim stöðum sem leituðu ekki eftir neinum sérstökum styrk eða fyrirgreiðslu úr Atvinnutryggingarsjóði. Ekki nóg með það. Ég frétti af því að það hefði verið haldinn góður fundur í Keflavík í gær og þar verið rætt um stöðu þessara mála og m.a. að það væri nú ekki nóg með það að kvóti smábátanna væri á hálfgerðu uppboði og það væru margir um boðið en það væri segin saga þegar búið væri að ganga frá kaupum við einhvern um það hvernig frá skyldi gengið --- ég heyrði nefnt þarna að það hefði ákveðinn aðili verið tilbúinn að kaupa bát á 10 millj. og borga út í hönd, ekki hef ég fullkomnar upplýsingar um það hvað kvótinn var mikill en hann hefur verið dálítill, þá bara kom allt í einu tilboð frá einu af þessum fyrirtækjum. Ég ætla ekkert að leyna því hvaða fyrirtæki þetta var, það ku heita Fiskiðjan á Sauðárkróki --- um það að hún gæti keypt þetta á 12 millj. kr. Fyrirtæki sem einmitt var eitt af þeim fyrirtækjum sem fékk fyrirgreiðslu á þann máta sem ég var að lýsa hér áðan.
    Hvernig þjóðfélag erum við að byggja upp ef hægt er að gera hluti eins og þessa og hægt er að storka byggðunum í landinu með því að einhverjir og einhverjir geti raunverulega gengið í ríkiskassann, sótt peninga í ríkiskassann og keypt lífsbjörgina frá öðrum byggðum? Hvers lags þjóðfélag er verið að byggja upp? Þetta þjóðfélag sem við erum að byggja upp á þessum grunni er byggt upp á þeirri fiskveiðistefnu sem við búum við. Hún ber í sér þessa hluti. Hún ber í sér þessa hluti vegna þess að það er verið að setja lífsbjörgina okkar, fiskveiðimöguleikana, á uppboð. Þeir sem hafa mesta möguleika til að sölsa undir sig peninga eða hafa peninga milli handanna, það eru þeir aðilar sem geta komið hvort sem það er til Grímseyjar eða á Hellissand og sagt: Ég er með peningana. Látið mig hafa fiskveiðikvótann ykkar. Ég skal borga ykkur vel fyrir.
    Og þessir sömu aðilar hafa síðan ríkisábyrgð fyrir því að þeir peningar sem þeir voru að nota til þessara hluta verða greiddir. Þeir þurfa ekki að vera ábyrgir fyrir því að greiða þá. Öll fiskveiðistefnan frá því að kvótalögin voru sett 1983 byggir á þessari stöðu.
    Ekki vantar að það sé bent á ráð til þess að laga hlutina til þegar búið verður að kaupa upp kvótann af Grímseyingum. Hæstv. sjútvrh. kom í útvarpið --- mér fannst hann nú vera að flytja framsöguræðu fyrir þessari umræðu sem hér á sér stað, í fréttatíma útvarpsins í morgun, vera raunverulega að svara hv. þm. Halldóri Blöndal frá því hér á fimmtudag --- það væri nú ekki mikill vandi að leysa málin þegar að því kæmi að væri búið að kaupa upp fiskveiðikvóta Grímseyinga eða hverra annarra. Mig minnir að hæstv. ráðherra hafi nefnt Bakkafjörð og Borgarfjörð eystra,

hann kannski hugsar fyrst og fremst til þeirra staða sem eiga hvað erfiðast í hans eigin kjördæmi en fleiri geta verið tilnefndir. En þá var lausnin einföld. Við verðum að beita Hagræðingarsjóði til þess að bjarga Grímseyingum ef þannig fer að búið er að nota peningana, hvort sem þeir hafa nú verið fengnir með ríkisábyrgð eða á einhvern annan veg, til þess að kaupa lífsbjörgina frá hinum ýmsu byggðum. Þá á sem sagt að fara að koma á félagsmálastofnuninni Hagræðingarsjóði og fara að hjálpa þessum byggðum til þess allra náðarsamlegast, af sjútvrn. og Hagræðingarsjóði, til þess að lifa áfram með því að fá fyrirgreiðslu hjá þessum sjóði til að kaupa sér aflakvóta frá einhverri annarri byggð. Aldrei er það hægt á annan máta. Frá einhverri annarri byggð. Kannski gæti það verið að þegar búið er að kaupa allan kvótann upp frá Grímseyingum þá kæmi hæstv. sjútvrh. með aura úr sínum Hagræðingarsjóði og segði: Ja, það er nú dálítill kvóti þarna vestur á Snæfellsnesi, ég skal láta ykkur hafa peninga, farið þangað og kaupið hann.
    Um þessa hluti mætti hafa mörg fleiri orð en mig langar aðeins til þess að minna á að það eru ýmsir hlutir að gerast í þjóðfélaginu sem benda til þess að menn séu kannski pínulítið að átta sig á því að það er ekki endilega nauðsynlegt að fara eftir því sem þeir segja fyrir um í Hafnarhvoli. Það var frétt í Morgunblaðinu í síðustu viku, þar sem Friðrik Pálsson, forstjóri Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, var að fjalla um þessa stöðu og reyndar á fleiri sviðum heldur en beinlínis um fiskveiðikvótann. En hann lét hafa það eftir sér að sú staða, sem núna blasir við í sambandi við fiskveiðistefnuna, væri að þróa atvinnugreinina inn í það að gera öll atvinnufyrirtæki að bæjarútgerðum. Getur verið að við getum talað um það sem bæjarútgerðir þegar farið verður að bjarga hlutunum á þann máta eins og ég var að lýsa áðan, að sækja kvótann fyrir Grímseyinga vestur á Rif, að sú útgerð, sem yrði sett í gang í Grímsey, yrði á vegum einhverra opinberra aðila? Það liggur svo sem alveg beint fyrir að hugsa sem svo. Ég segi nú bara eins og er að þegar þetta er allt að hrynja þarna fyrir austan tjald, ef við hér ágætir uppi á Íslandi, sem höfum nú alltaf viljað vera svolítið sjálfstæðir, hver fyrir sig, ef við ætlum að fara að byggja upp það kerfi, sem hefur ekki reynst sérstaklega vel þar eystra, þá líst mér nú ekki á blikuna. Ég segi það alveg hreint út hér uppi í ræðustól á hinu hv. Alþingi. En vitaskuld er það ekkert annað sem blasir við. Þetta verður allt á opinberu framfæri ef fram heldur sem horfir. Ef fram heldur sem horfir að ákveðin fyrirtæki í landinu hafa möguleika á því að sölsa undir sig meginhluta aflakvótans á þann veg sem hefur verið að gerast núna síðustu mánuði, þá getur ekki annað skeð en að hið opinbera, ríkið, verði að fara inn í til þess að bjarga hlutunum. Það getur ekkert annað skeð, hversu mikla vitringa og hámenntaða höfðingja, jafnvel frá háskólum á Norðurlöndum og víðar, sem sjútvrn. fær til þess að útlista það hvernig þessi fiskveiðikvóti okkar á að ganga vel upp og jafna stöðu byggða.
    Ég gæti að vísu sagt margt fleira um þessa hluti en

fleiri vilja komast hér að til að fjalla um fiskveiðistefnuna og ég held að ég fari að láta þetta gott heita að sinni. En ég tel þó að við verðum að gera okkur grein fyrir því að það sem er að gerast og er að brenna á okkur núna í sambandi við smábátana og smábátaeigendur finna fyrir sérstaklega í dag vegna þess að það er verið að úthluta þeim framtíðarkvótum þeirra, það á eftir að ganga yfir allar byggðir landsins og menn eiga eftir að finna fyrir því í auknum mæli hvað þetta kerfi er fáránlegt þar sem mönnum er boðið upp á það, þeim sem hafa aðstöðu til þess að koma inn í lánastofnanir og sölsa undir sig peninga einhvers staðar í þjóðfélaginu, að þeir hafa möguleika til þess að kaupa lífsbjörgina af öðrum. Þetta er sá hlutur sem getur ekki gengið í okkar litla þjóðfélagi,
að þeir sem hafi aðstöðu til þess að fara inn í banka eða fá peninga í gegnum sjóðinn okkar hérna, það dettur nú úr mér nafnið sem ég var að nefna áðan. ( HBl: Hann heitir Hagræðingarsjóður.) Hagræðingarsjóður --- Atvinnutryggingarsjóður (Gripið fram í.), útflutningsgreina já, ( HBl: Heimilissjóður Stefáns Valgeirssonar.) --- að þeir hafi einhverja sérstaka forgangsaðstöðu, þeir sem fá ríkisábyrgðina í tugum milljóna, þeir fái sérstaka aðstöðu til þess að sölsa undir sig veiðiréttinn, lífsréttinn úr byggðinni í Grímsey, Bakkafirði eða vestur á Hellissandi eða Rifi. Það er náttúrlega alveg fráleitt. Og það er svo fráleitt að slík stefna geti aðlagast uppbyggingu atvinnuvega á Íslandi. Frá þeirri stefnu þurfum við að hverfa. Það má segja það að með þeim lögum sem samþykkt voru á síðasta þingi um að hafa kvótalögin ótímasett og ótímabundin gefur það okkur að vissu leyti von um að við getum risið upp og hrint þessu oki af okkur.