Stjórn fiskveiða
Mánudaginn 03. desember 1990


     Kristinn Pétursson :
    Hæstv. forseti. Það má kannski byrja á því að segja að það lífgi aðeins upp á tilveruna í þessu húsi að fólk skuli finna hjá sér þörf fyrir að klappa fyrir því sem hér var sagt áðan því að það er alveg ástæða til þess.
    Í fyrsta lagi vil ég aðeins koma að því: Hvað er kvótakerfi? Hvað er það sem við erum að smíða? Við erum að takmarka atvinnufrelsi borgaranna. Það er sú umfjöllun sem hefur vantað í sambandi við þetta mál. Það hefur vantað faglega umfjöllun um það hvernig er heimilt að takmarka atvinnufrelsi borgaranna og hvaða reglur löggjafarvaldið þarf að uppfylla til þess að geta takmarkað atvinnufrelsi borgara íslenska lýðveldisins. Ég ætla að minna á 69. gr. stjórnarskrár lýðveldisins sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Engin bönd má leggja á atvinnufrelsi manna nema almenningsheill krefji, enda þarf lagaboð til.``
    Það er sem sagt skýrt ákvæði um það í íslensku stjórnarskránni að það sé bannað að takmarka atvinnufrelsi manna nema í þágu almannaheilla. Og þá kemur spurningin: Er það kvótakerfi sem nú er búið að smíða hér, og búið að vera meira og minna við lýði í sjö ár, í þágu almannaheilla? Ég spyr. Er það í þágu þjóðarhagsmuna? Er það í þágu hinna einstöku byggðarlaga, þetta kerfi? Er það sniðið fyrir borgara landsins eða er það sniðið fyrir kerfið sjálft? Ég er ekki í neinum vafa um svörin. Þetta er fyrst og fremst sniðið til þess að geta stjórnað og stjórnað og stjórnað og aftur stjórnað, ofstjórnað. Þannig er þetta kerfi smíðað. Forsendurnar eru, að sagt er, of litlir fiskstofnar og of stór floti. Ég leyfi mér að draga í efa að þessar forsendur séu réttar. Ég get náttúrlega ekki sannað það, en það er mín persónulega skoðun að allir útreikningar um sóknarþunga á Íslandsmiðum séu helbert kjaftæði.
    Fyrir 20 árum voru 500 togarar að veiðum á Íslandsmiðum með 90 mm möskva. Menn segja að það sé miklu meiri sóknarþungi í dag þegar kannski 100 togarar með 155 mm möskva eru að veiðum. Er það meiri sóknarþungi? 155 mm möskvi hefur þrisvar sinnum stærra, 300% meira flatarmál en 90 mm möskvi. Sóknarþunginn svokallaði er ekki fundinn út frá svona forsendum. Hann er reiknaður út. Það eru sem sagt engin gögn til í landinu um sóknarþunga af neinu viti. Samt er búið að takmarka atvinnufrelsi borgaranna með jafnafdrifaríkum hætti og er að koma í ljós einmitt þessa dagana. Það eru engar sannanir fyrir því að þessi sókn sé miklu, miklu meiri en hún var fyrir löngu síðan. Það eru enn þá til síðutogarar í landinu sem veiddu 10 þús. tonn af þorski á ári og lönduðu sumir mestu af því erlendis. Svo eru menn svo voðalega hreyknir í dag ef þeir hafa 4 þús. tonna þorskkvóta. Þeir eru ekki einu sinni hálfdrættingar á við þessi gömlu skip, þrátt fyrir alla tæknina.
    Þessi grundvallaratriði, hæstv. forseti, eru algerlega í molum. Mér finnst slæmt að hér í hv. Alþingi, hvort sem við ræðum kvótakerfið í sjávarútvegi eða landbúnaði, þá vantar hvernig takmarka má atvinnufrelsi

borgaranna, hvernig leikreglur Alþingi má setja. Alþingi Íslendinga, löggjafarsamkoma þjóðarinnar, er til þess að setja framkvæmdarvaldinu leikreglur, t.d. varðandi takmörkun á veiðum smábáta. Stafar íslensku þjóðinni eða stafar fiskstofnunum hætta af þessum smábátum þó veiðar þeirra hefðu verið með óbreyttum hætti miðað við gamla kerfið án þess að setja þetta ofstjórnarskipulag á? Stafar fiskstofnunum hætta af þessum bátum? Ég vil að hver og einn geri það upp við sig hér í þessu húsi hvort fiskstofnunum stafi hætta af þessum bátum. Ég geri ráð fyrir því að heilbrigð skynsemi segi mönnum að fiskstofnunum stafi sennilega ekki hætta af þessum bátum. Og hvað er þá komið í ljós? Ef það er niðurstaða okkar að fiskstofnunum stafi ekki hætta af smábátum, þá er ekki leyfilegt að takmarka veiðar þeirra nema með almennum reglum eins og var, samkvæmt mínum skilningi á stjórnskipunarrétti.
    Hæstv. sjútvrh. talaði mikið áðan um tilraunaúthlutun. Hverjir eru þá tilraunadýrin? Það er ekki skemmtilegt að vera þolandinn í þessari tilraunastarfsemi og hafa ekki hugmynd um það hvað menn fá að hafa í kaup á næsta ári. Hvenær máttu veiða, hvað máttu veiða mikið? Það er alveg gersamlega vonlaust að svona fyrirkomulag geti nokkru sinni gengið upp, fyrirmæli öll ofan úr ráðuneyti um það hvernig menn eiga að haga sér. Það er nógu erfitt að glíma við náttúruna á Íslandi, veður og vinda og hafís, stundum fyrir norðan land og austan stundum, þó menn hafi ekki alla þessa ofstjórn líka.
    Ég ætla að minna á það, eins og ég gerði hér í síðustu viku, hvernig málsmeðferðin var hér í Alþingi sl. vor. Sjávarútvegsnefndir Alþingis mættu á nokkra sameiginlega fundi. Og þar sem ég er í Nd., þá fengum við náðarsamlegast að hlusta á efrideildarmenn í sjávarútvegsnefnd. Á fund hjá þessum hv. nefndum komu sömu aðilarnir og höfðu átt þátt í því að búa til upphafleg drög að frv. eins og það lá fyrir til að gefa umsögn. En voru þessir aðilar ekki búnir að gefa umsögn? Þá komu þeir aftur til þess að gefa sitt álit og það var náttúrlega svona upp og ofan. Nd. Alþingis fékk nákvæmlega 24 klukkustundir til að fjalla formlega um þetta mál, 42 þingmenn fengu 24 klukkustundir til þess að afgreiða þetta stóra mál ásamt 14 öðrum málum. Öllu rutt hér út úr Nd. Alþingis með hrossakaupum. Svona vinnubrögð eru náttúrlega ekki til þess fallin að útkoman geti orðið góð.
    Síðan voru sjávarútvegsnefndarmenn boðaðir á fund sl. mánudag. Það kom leigubíll keyrandi hingað á laugardagskvöld með sentimetraþykkan bunka af reglugerðum og við áttum að mæta á fundi kl. 8 eða 9 á mánudagsmorgni. Og hvernig var þá fyrirkomulagið? Þá voru mættir fimm aðilar frá framkvæmdarvaldinu og hæstv. sjútvrh. í broddi fylkingar til að taka sjávarútvegsnefndarmenn Alþingis í kennslustund í reglunum sem þeir áttu auðvitað sjálfir að búa til síðasta vor. Það eru alger endaskipti á leikreglum framkvæmdarvalds og löggjafarvalds þegar starfsmenn framkvæmdarvaldsins eru farnir að segja okkur til hvernig þessar reglur séu, sýna okkur þær. Sumt megum við

ekki sjá, annað megum við náðarsamlegast fá að sjá, um leikreglur sem við áttum raunverulega að búa til og erum kosnir af Alþingi til þess að setja framkvæmdarvaldinu leikreglur.
    Það fer náttúrlega ekki hjá því að maður spyrji hæstv. sjútvrh. hvar fiskvinnslustefnan sé því auðvitað snertir fiskvinnslan þessa kvótastefnu, stjórnun fiskveiða. Hvar er sú fiskvinnslustefna sem er kveðið á um í stjórnarsáttmálanum? Er það nýjasta skýrsla Þjóðhagsstofnunar þar sem kom fram að auka mætti þjóðartekjur um 10 milljarða til viðbótar með því að senda allan afla úr landi? Er það fiskvinnslustefna ríkisstjórnarinnar? Þjóðhagsstofnun heyrir beint undir forsrn. svo maður gæti ímyndað sér að þetta væri vísirinn að henni. Ríkisstjórnin hefur ekki gert neina athugasemd við þessa útreikninga. Og ég spyr því hæstv. sjútvrh. að því hvort hann hafi eitthvað um þetta að segja. Ég verð að segja það að mér finnst það kaldar kveðjur til sjávarútvegs á Íslandi að fá svona skýrslu frá opinberri stofnun eins og Þjóðhagsstofnun. Að það sé hægt að auka þjóðartekjur stórlega með því að hætta að nýta auðlindina hér innan lands. Hvert erum við komin í umræðunni?
    Ef við víkjum t.d. að rækjuveiði þá skiptir ekki máli hvort við veiðum 26 þús. eða 28 þús. tonn á ári. Fiskifræðingar hafa upplýst að þorskurinn éti upp 52 þús. tonn á mánuði. Rækjuveiðar hafa aðallega farið fram á afmörkuðum svæðum. Samt er búið að takmarka þetta í kvóta. Ég segi: Var ekki allt í lagi að leyfa frjálsa veiði á þeim svæðum þar sem ekkert álag er og engin rækjuveiði hefur farið fram? Mátti ekki leyfa mönnum að spreyta sig þar? Af hverju ekki? Hvar er svarið við því? Það eru til vannýtt rækjusvæði hér við land. Þó svo að verð á rækju sé ekki hagstætt í augnablikinu þá skiptir það ekki máli. Af hverju stóð til að setja steinbít í reglugerð? Er verið að ofveiða hann? Af hverju er verið að setja kola í reglugerð? Ef ég man rétt eru níu línur í skýrslu Hafrannsóknastofnunar um kolaveiðar, um ástand kolastofnsins, það eru níu línur. Eru þessar níu línur forsenda fyrir takmörkun atvinnufrelsis?
    Auðvitað ætti að leyfa því að vera frjálst sem átti að vera frjálst. Það verður að lagfæra þessa fiskveiðistjórnun og leyfa meira frjálsræði. Smábátum á að stjórna eftir almennum reglum svipað og var. Minni dekkbátar mega kannski vera frjálsir í steinbít og kola, stærri bátar geta verið það einnig, og t.d. má gefa frjálsræði í auknum rækjuveiðum. Togarar geta fengið ákveðið frjálsræði í rækjuveiðum og úthafskarfa sem við erum allt of slappir við að auka nýtingu á. Það er fullt af möguleikum. Það er ekki bara þessi ofstjórn. Það eru ekki nema fjögur ár, hæstv. forseti, síðan við byrjuðum úthafsrækjuveiðar, það eru fjögur ár síðan. Kvótakerfið hefur verið við lýði í sjö ár.
    Ég vil sérstaklega koma inn á þátt hafrannsókna. Það hefur allt of litlu fjármagni verið varið til hafrannsókna undanfarin ár. Rannsóknir hafa ekki verið nógu markvissar vegna ómarkvissrar stjórnunar hæstv. sjútvrh. því að hann er yfirmaður þessara mála. Æðsti yfirmaður hafrannsókna á Íslandi er hæstv. sjútvrh.

Það er allt of lítil umfjöllun um það að fæðukerfið í sjónum er órannsakað. Það þyrftu auðvitað að fara fram stöðugar rannsóknir á fæðukerfinu og fæðuástandi nytjastofna. Það má helst ekki tala um það að sjö ára gamall hrygningarfiskur fyrir norðan og austan land veiddist í verulegum mæli í vor sem leið sem vigtaði ekki nema tvö kg með hrognum og svilum, með innyflum og öllu saman. Það má helst ekki ræða um það. Það á að vera eitthvert leyndarmál. Ég spyr bara: Erum við á sömu leið og í Noregi? Þar vigtaði sex ára gamall fiskur í vetur sem leið 900 grömm að meðaltali í Norður - Noregi vegna þess að fæðukerfið hrundi þar allt í rúst.
    Forstjóri Hafrannsóknastofnunar sagði á aðalfundi LÍÚ að beitilönd loðnu hefðu verið sem eyðimörk undanfarin ár. En hvað með beitilönd annarra nytjafiska? Er ekki nauðsynlegt að við fáum að vita það í sambandi við fiskveiðistjórnunina? Afrakstur fiskstofna hlýtur að byggjast að verulegu leyti á því hvað þeir fá mikið að borða, maður skyldi halda það.
    Ef ég vík aðeins að starfsemi aflamiðlunar, þá er eftir langa valdabaráttu sjútvrn. og utanrrn. komið á fót hér aflamiðlun sem ákveður eftir geðþótta hverjir fá að flytja fiskinn úr landi. Ég tel að svona fyrirkomulag standist ekki stjórnskipun landsins. Það er útilokað að það sé hægt að framselja einhverri nefnd geðþóttavald til að ákveða hverjir megi fá hærra verð fyrir fiskinn en allir hinir fá. Það stenst ekki, það er útilokað. Þó að það séu höft á gjaldeyri hér á Íslandi, þá er það ekki svo slæmt að ákveðinn fjöldi heildsala geti fengið gjaldeyri á 20 kr. og það sé einhver gjaldeyrisnefnd sem ákveður hverjir eigi að fá dollarann á 20 kr. þegar allir hinir verða að kaupa hann á 50 eða 54 kr. Það er alveg sambærilegt. Hvaða leið er þá fær? Sumir hafa nefnt 15% á skip. Þá er búið að banna Íslendingum að kaupa þessi 15% svo það gengur ekki heldur. Þá er ekki nema ein leið eftir og það er að selja allan aflann innan lands og leyfa þá einhverjum sem vilja koma hingað til að kaupa fiskinn á íslenskum fiskmörkuðum, koma og kaupa hann með ákveðnum skilyrðum, þannig að íslensk fiskvinnsla standi erlendri fiskvinnslu jafnfætis gagnvart hráefninu. Erlend fiskvinnsla nýtur bæði ríkisstyrkja og tollaverndar og þá verða menn að taka það inn í myndina. Þá erum við komin að tollamálum sem ég ætla ekki að fara út í hér.
    En ég vil minna á að allt stefnir í það að alltaf fari meiri og meiri óunninn fiskur úr landi. Árið 1984 voru flutt 7% af óunnum fiski úr landi en á fyrri helmingi þessa árs, fimm árum seinna, var þetta hlutfall komið upp í 21%. Hlutfallsleg aukning á þessu tímabili er 200% eða að meðaltali 25% ár ári. Ef þróunin verður sú sama og verið hefur sl. fimm ár verður allur fiskur fluttur út óunninn árið 1997. Frystingin hefur dregist það hratt saman hér á landi að árið 1995 verða einungis 20% fryst af því sem er í ár ef sama þróun verður áfram innan lands. Þetta skiptir íslenska þjóð miklu máli. Hvert er þetta kerfi allt saman að leiða okkur? Á hvaða leið erum við eiginlega? Íslenskt velferðarþjóðfélag er velferðarþjóðfélag vegna

þess að margfeldisáhrif sjávarútvegs eru svo mikil að þau skila bættum hag í gegnum þjónustu, iðnað og verslun. Uppruni fjármagns er í gegnum íslenskan sjávarútveg. Íslensk sveitarfélög fá ekki útsvarstekjur af vinnu sem er unnin í Bretlandi. Íslenskur iðnaður fær ekki að þjóna fyrirtækjum í Bretlandi eða Þýskalandi. Það er þessi virðisauki sem er talað um á fínu máli. Íslenskt þjóðfélag
þarf á þessum virðisauka að halda. Íslenskt þjóðfélag þarf á þessu að halda. Við höldum ekki uppi lífskjörum í landinu nema halda áfram að vinna fiskinn hér innan lands. Af hverju skyldi íslenskt verkafólk ekki vera jafnfært um að vinna verkin eins og eitthvert erlent verkafólk á erlendum vettvangi?
    Ég verð að segja það hér að lokum, hæstv. forseti, að ég óska þess að sjútvn. Alþingis taki þessi mál upp til bráðabirgðalagfæringar undir eins. Það er hægt að lagfæra sumt af þessu og það er skylda okkar alþm., það er okkar hlutverk að setja framkvæmdarvaldinu leikreglur, eins og ég sagði hér í upphafi. Það er hlutverk alþingismanna og ég verð að krefjast þess að við fáum að sinna okkar hlutverki hér á hæstv. Alþingi.