Stjórn fiskveiða
Mánudaginn 03. desember 1990


     Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Ég vil fyrst beina orðum mínum til hv. 3. þm. Norðurl. v. Stefáns Guðmundssonar. Ég held að hann ætti allra síst að minnast á það sem gerðist hér sl. fimmtudag. Ég hafði heimild forseta þingsins til þess að ræða það að hæstv. sjútvrh. hafði synjað nefndarmönnum í sjútvn. um upplýsingar eins og ég skal víkja nánar að og undir venjulegum kringumstæðum hefði ég auðvitað fengið að halda mína ræðu um þetta efni án þess að til truflunar kæmi hér í þingsalnum.
    Það er rangt að ég hafi beðist afsökunar á því að halda því til streitu að ég hefði rétt til þess eins og aðrir þingmenn að ræða hér þingsköp og störf nefnda. Á hinn bóginn bað ég þann forseta sem þá sat í stólnum afsökunar ef hann hefði skilið orð mín svo að ég hafi óskað eftir nærveru forseta Sþ. til þess að stjórna fundi. Það var ekki. Forseti Sþ. gekk hér í salinn, settist hér til vinstri handar. Ég gerði ekki athugasemd við það, reyndi síðan í stuttu máli að gera grein fyrir því sem samkomulag hafði orðið um að ég mætti hér tala um. Auðvitað er það ókurteisi af forseta þings ef þingmaður óskar eftir að gera athugasemd við þingsköp vegna nefndarstarfa að hlaupast á brott skömmu áður. Þetta vita allir.
    Ég vil líka taka fram að þessu gefna tilefni að ég hef átt orðastað við forseta Sþ. vegna framkomu hans á þessum fundi. Við munum reyna að halda áfram umræðum um það hvar ég fór út af strikinu, hvar ég braut gegn fyrirmælum þingskapa í þeim örfáu orðum, sárafáu orðum sem ég hafði sagt áður en til þess kom að forseti sem þá sat í stólnum greip inn í. Ég þarf ekki að ræða framkomu hæstv. menntmrh. eða ýmissa annarra við þetta tilefni. Á hinn bóginn sjáum við það hér nú á þeim fjölda sem hér er á svölunum að fyrirspurn mín var ekki að ósekju. Það voru menn í þessu þjóðfélagi sem ætluðust til þess að þingmenn fengju upplýsingar um það sem verið er að gera í sjútvrn. í sambandi við smábátana. Það eru menn hér sem ætlast til þess. Það er hins vegar áreiðanlega hvergi í veröldinni til þjóðþing sem er þannig saman sett að formaður sjútvn. heldur hverja rolluna á fætur annarri hér í þingsalnum til þess að verja það að heimildum er haldið leyndum fyrir sjávarútvegsnefnd þingsins. Það er hvergi annars staðar trúi ég í lögjafarsamkundu að slíkt muni gerast. ( StG: Þetta eru bara rangfærslur.) Ég vil líka taka það fram að ég innti forseta þingsins eftir því um hádegið hvort eitthvað hefði komið út úr því að ég bað hann að skerast í leikinn, gá hvort forseti þingsins, sem ég treysti vel, gæti ekki svolítið mýkt hæstv. sjútvrh. En það hefur ekkert komið út úr því sýnilega.
    Nú vil ég segja sjútvrh. að það dugir ekki að koma alltaf hér upp í stólinn þegar verið er að tala um sjávarútvegsmál og segja: Það er ekki hægt að skipta því sem takmarkað er milli allra svo að allir séu ánægðir, og halda að maður beri enga ábyrgð á sínum verkum einungis með því að vitna til þessa. Auðvitað vitum við öll sem hér erum að löggjöfin um stjórn fiskveiða er vegna þess að afkastageta skipastólsins er of mikil. Þetta vitum við. Það var af þeim sökum sem Matthías Bjarnason tók þá ákvörðun þegar hann var sjútvrh. 1978 að banna innflutning á nýjum fiskiskipum til landsins nema önnur færu út úr landinu. Við munum nú hvernig það var brotið niður. Auðvitað er það rétt að best væri að geta komist af með sem minnstar reglur. En ríkisstjórnir eru misjafnar og ég man vel eftir því þegar Framsfl. stóð hér að ríkisstjórn fyrir eina tíð en Sjálfstfl. ekki eftir þetta, að einn þingmaður gerði það að stjórnarslitamáli að enn einn nýi togarinn mætti koma til landsins og var auðvitað greiðlega við því orðið.
    Hæstv. ráðherra spyr mig um Morgunblaðið. Hversu margir skyldu þeir þingmenn Framsfl. vera sem hafa komið upp í ræðustól, krafist þess að keypt yrðu ný skip erlendis frá fyrir þetta og þetta byggðarlagið, sem hafa gengið um sveitir landsins og lofað nýjum togurum þannig að það munaði svo sem ekki um eitt skipið í viðbót. Þeir eru ekki fáir. Ég get nefnt dæmi og það veit hæstv. sjútvrh. Hann segir réttilega: Við þurfum að takmarka veiðarnar. Það höfum við sjálfstæðismenn sagt sem með honum höfum unnið að þessum málum, ég þegar ég vann undir leiðsögn ráðuneytisstjóra hans í þeirri nefnd sem hafði með endurskoðun á löggjöfinni um stjórn fiskveiða að gera.
    Bæði þá og eins þegar við störfum í sjávarútvegsnefndum bæði fyrr og síðar höfum við látið ráðuneytið gera margvíslegar tilraunir til að sjá hvernig einstök módel, ef svo má segja, komi út í sambandi við stjórn fiskveiða. Við höfum gert það. Við spurðum t.d. hæstv. ráðherra að því á sl. vetri hvernig aflaúthlutun yrði ef sóknarmark yrði afnumið og mismunandi skiptingar yrðu á þeim hlut sem þá kæmi til skipta. Þetta veit hæstv. ráðherra.
    Við fengum þessa lista í hendur, þessi tilraunaplögg, þessi innanhússplögg sjútvrn. þannig að það er rangt hjá ráðherra þegar hann segir að sjávarútvegsnefndir hafi ekki fengið slík plögg í hendur. Ráðherrann segir við okkur hér að ég hafi rangt fyrir mér og að ég segi það ósatt þegar ég held því fram að hann leyni upplýsingum fyrir sjútvn. Alþingis. Hvað sagði hann svo í næsta orði á eftir. Hann sagði: Sjávarútvegsnefndarmenn mega koma upp í ráðuneyti og spyrja um einstök dæmi, einstök skip, --- en við megum ekki sjá heildina. Hann, ég tala nú ekki um formann sjútvn., ég vil ekki segja það sem mér datt í hug, en það má kannski segja það sé það dýr sem er afskaplega duglegt við að hlaupa á eftir húsbónda sínum. (Gripið fram í.) Ég var að tala um dýrafræði.
    Ég var að segja að það er náttúrlega létt verk að vera að hrósa sér af því að menn úr ráðuneytinu komi með fullsmíðaða reglugerð um smábátana, fullsmíðaða reglugerð upp í ráðuneyti. Það var ekki svo mikið við haft að segja manni áður hvað stæði til. Ekki fékk ég þessa reglugerð í bréfi daginn áður heldur var komið með þetta okkur að óvörum. Okkur var sýnt þetta og það heitir ,,að hafa samráð við sjávarútvegsnefndir Alþingis``. Dettur einhverjum manni hér inni

í hug að við höfum getað á þessum eina eða tveim tímum komið svo nálægt þessari reglugerð og uppbyggingu hennar að það yrði að miklu gagni eftir þá yfirlýsingu hæstv. ráðherra að samning reglugerðarinnar hafi tekið lengri tíma en hann hafði viljað, verið seinna á ferðinni en hann hafði viljað vegna þess hversu flókið málið var og aðstæður misjafnar á mismunandi stöðum og hjá mismunandi mönnum? Auðvitað höfðum við ekki tök á því, þó það kæmi einhver hersing ofan úr ráðuneyti á fund sjávarútvegsnefnda, að setja okkur að marki inn í þetta. Tvær reglugerðir, ein um vigtunarmál og önnur um smábáta. Okkur er ekki einu sinni trúað fyrir því að fá skrána yfir úthlutunina, tilraunaskrána. Hvað þá heldur að við megum skoða aðrar heimildir á bak við slíkar skrár. Nei, hæstv. ráðherra. Málið er einfaldlega þannig að pólitískur vilji stendur ekki til þess að leyfa sjávarútvegsnefndum Alþingis að sjá þessi plögg. Ég veit ekki hvaða hvatir liggja þar á bak við.
    Gamall vinur minn var að hringja í mig núna rétt áðan. Mér hefði seint dottið í hug að spyrja hvernig hans bátur væri. Það er kannski rétt að hafa orð á þessu af því að hæstv. sjútvrh. var að spyrja að því hvort við héldum að menn sem lifðu af því að vera trillusjómenn mundu selja bátana sína og var að hneykslast á því að nokkrum hér inni skyldi þetta það í hug. Þessi maður sem ég nefndi veiddi á síðasta ári 47 tonn. Hvað fær hann núna? 23 tonn. Ætli það muni ekki um mismuninn? Og svo er um fleiri.
    Við óskum eftir því að fá að sjá þessi plögg. Við ætlumst til þess að forseti þingsins leggi okkur lið og taki ekki mark á formanni sjútvn. Ed. þegar um þetta er rætt. Ekki af því að við höfum einhverja sérstaka ánægju af því að finna að verkum hæstv. sjútvrh. heldur vegna þess að við teljum að hann sé ekki óskeikull. Tilraunaplagg, innanhússplagg, segir hæstv. ráðherra. Samkvæmt þessu tilraunaplaggi og innanhússplaggi hefur fjöldi trillusjómanna fengið sín bréf, fjöldinn allur af þeim. Okkur var sagt að ef þeir ekki svöruðu fyrir 15. des. mundi úrskurðurinn standa. Þá væri þetta lögbók sem á þessu tilraunaplaggi stendur. Það er því alveg ljóst að við erum ekki að tala um neitt tilraunaplagg. Við erum ekki að tala um neitt innanhússplagg. Við erum að tala um kvóta smábáta sem gerðir eru út frá Íslandi, svo að maður sé hátíðlegur, eins og ráðuneytið hugsar sér hann í dag. Og þeir einstöku menn sem vilja gera athugasemdir verða að hafa mikið fyrir því. Sumir eru kannski ekki alveg klárir á því hvernig þetta er reiknað út. Þeir eru kannski hræddir við útreikningana, átta sig ekki á því hvernig þeir eigi að leita réttar síns og þar fram eftir götunum.
    Í ræðu sinni hér fyrr í dag, ekki þeirri nú í kvöld heldur fyrr í dag, sagði ráðherra að mikill áhugi hefði verið fyrir því að fjölga ekki smábátum. Þingmaður þeirra í Keflavík talaði um það að Sjálfstfl. hefði verið hvergi þegar smábátunum hefði fjölgað og spurði: Hvar var Sjálfstfl. þá? Og í dag sagði hæstv. ráðherra að hann skyldi ekki saka stjórnarandstöðuna um það. Það er ekki við stjórnarandstöðuna að sakast, segir

ráðherra. Með þessum ummælum er verið að gefa eitthvað í skyn varðandi stjórnarandstöðuna. Við lögðum það til í milliþinganefndinni, eins og ráðherra sagði, að fjölgun smábáta yrði bönnuð frá síðustu áramótum. Við vissum ekki annað en hæstv. ráðherra mundi flytja frv. um það. Nú kemur í ljós hvar frv. strandaði, það strandaði hjá ríkisstjórninni. Það er ekki hægt að úthluta nýjum aðilum kvóta nema taka frá öðrum. Eftir því sem ráðherrann sagði er kvóti fyrir þessa nýju báta ekki aðeins tekinn af smábátunum heldur öllum bátum í landinu. Og það er auðvitað fyrir neðan allar hellur þegar sjútvrh. í sinni fyrri ræðu, ég tala ekki um þingmanninn frá Keflavík, er að gefa í skyn að stjórnarandstaðan komi einhvers staðar að þessu máli. Þetta er eitt með öðru sem hefur strandað hjá ríkisstjórninni og það er auðvitað rétt sem sjútvrh. sagði í dag þegar hann svaraði minni ræðu þegar ég talaði um að það væri eignaupptaka að þrengja svo kosti sóknarmarksskipanna eins og búið er að gera í einni svipan, og ég skal standa við það, það er nánast eignaupptaka --- þá er það alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að það er verið að taka af öðrum. Eða eigum við að segja að verið sé að afhenda aflamarksskipunum hluta af þeim afla sem sóknarmarksskipin höfðu áður. Og hvernig á svo að leysa þetta?
    Formaður sjútvn. Ed., fulltrúi Framsfl. í sjútvn. Ed., Stefán Guðmundsson, hafði ekki áhuga á því að vita með hvaða hætti við sjálfstæðismenn vildum koma til móts við sóknarmarksskipin. Svarið var einfalt. Alveg sama hvað þið leggið til, það verður fellt. Smá leiðrétting, stór leiðrétting, skiptir ekki máli, hún verður felld. Það er búið að ákveða þetta uppi í ráðherrabústað. Það voru lokin á vinnunni. Og svo er verið að tala um samráð. Svo er verið að gefa í skyn að við sjálfstæðismenn hefðum getað haggað einhverju sem máli skiptir í sambandi við reglugerðir smábátanna þegar við fengum að sjá þetta rétt andartak daginn áður en reglugerðin var sett í prentun. Eða eigum við að segja daginn eftir, því að þetta var auðvitað prentað. Það var bara eftir að blessa það. Auðvitað fengum við engu að ráða um þetta. Auðvitað veit ráðherrann það.
    Ég get alveg tekið undir það með ráðherra að sumir smábátanna eiga þann kost að fara á krókaveiðar. Ég get vel sagt að ég deili áhyggjum með honum um það að vera megi að þær þröngu skorður sem þessum veiðum eru settar reynist of þröngar þannig að það verði að ganga að hverjum einum. En við skulum líka muna eftir því að krókaveiðarnar eru misgóð lausn eftir því hvar við erum stödd á landinu. Það er ekki það sama að vera á krókaveiðum í Eyjafirði eða eigum við að segja í Bakkafirði, Vestmannaeyjum, Höfn í Hornafirði. Þetta er ekki það sama og auðvitað alveg ljóst eins og banndagarnir eru ákveðnir að það er mjög hæpið eftir aflabrögðum að eyfirskur smábátasjómaður geti dregið fram lífið með slíkum veiðiskap öðruvísi en að dveljast langdvölum fjarri heimili sínu. Þessi lausn á því ekki við alls staðar en má vera að hún reynist vel sums staðar. Þannig er nú það.

    Ég hafði beint fyrirspurn til hæstv. ráðherra og var hér í salnum þegar hann talaði öðru sinni sem hann sá ekki ástæðu til að svara. Ég spurði hæstv. ráðherra að því, af því að hann hafði gumað af samráðinu við sjávarútvegsnefndir, hvort það væri kannski vegur að sjávarútvegsnefndir mættu fá að vita hvar sú vinna er stödd að ákveða kolakvótann og hvort við gætum fengið þau plögg í hendur sem þar eru lögð til grundvallar. Ég hafði áhyggjur af því, eftir vinnubrögðum sjútvrn. þegar undirbúið var að setja kvótann á úthafsrækjuna, að niðurstaðan yrði ekki að öllu sanngjörn. Og þess vegna spyr ég aftur: Er vegur að sjávarútvegsnefndir Alþingis, jafnvel þótt fulltrúar Framsfl. í nefndunum hafi ekki áhuga á málinu, megi fylgjast með þessari vinnu, hvar hún er á vegi stödd og hvað sé lagt til grundvallar í sambandi við þá ákvörðun? Þetta skiptir miklu, ekki síst vegna þess að þetta er fordæmisskapandi, m.a. varðandi steinbítinn og líka vegna þess að menn sem hafa verið á kolaveiðum nærri heimkynnum sínum á litlum bátum og hafa skipt um báta, standa nú uppi án slíkra veiðiheimilda.
    Ég spurði líka hæstv. ráðherra að því hvernig það mætti vera að enn er verið að taka verðjöfnunargjald af skreið sem framleidd var í fyrra. Hvernig skyldi standa á því? Ætli það fáist ekki, ef maður tekur tillit til fjármagnskostnaðar, a.m.k. 15% minna fyrir skreiðina í ár? Ætli það sé mikill hagnaður af þessari skreið?
    Mér er sagt að fiskur á ferskfiskmörkuðum í Bretlandi hafi hækkað um 30% milli ára, lítil 30%. Samt hefur þjóðfélagið ekki efni á því að bæta lífskjörin. Þriðjungur þess verkafólks sem er í Alþýðusambandinu hefur innan við 75 þús. kr. á mánuði, ekki er það mikið. Auðvitað eru engin tök á að bæta neitt hag þessa fólks. Það er nú ekki. En ætli skreiðin hafi jafngóða afkomu og þeir sem selja á ferskfiskmörkuðunum í Englandi? Og hvernig er það, úr því að ráðherra vill fara svona vítt og breitt yfir sviðið, hvaða sérstöku áherslu vill hann leggja á það sem kallað hefur verið fiskverkunarstefna? Vill hann leggja mikla áherslu á það að fiskurinn sé unninn hér á landi? Tekur hæstv. ráðherra undir þá kröfu sjómanna að það eigi að klippa algerlega á tengsl veiða og vinnslu og að allur afli sem veiðist hér við landið skuli seljast á opinberum mörkuðum?
(Gripið fram í.) Þetta er krafa sjómanna. Ég hefði gjarnan viljað vita hvað hæstv. ráðherra hugsar um þetta. Hitt er auðvitað rétt hjá honum að Morgunblaðið hefur haft þá skoðun að það eigi að taka upp auðlindaskatt eða veiðileyfi í einhverju formi þó þingflokkur Sjálfstfl. og landsfundir sé annarrar skoðunar. En ég hygg á hinn bóginn að samstarfsmenn hans í ríkisstjórninni vilji veiðileiguna, kvótaleiguna, Alþfl., Alþb., um blessaðan Borgfl. skal ég nú ekki segja, hann getur verið alls staðar og hvergi mín vegna --- þar eru miklir áhugamenn um kvótaleigu og auðvitað er það rétt sem sumir segja að svo vitlaus getur fiskveiðistjórn verið að við endum á þeim punkti ef menn missa traust á þeim sem hafa framkvæmdina með höndum. Það er alveg deginum ljósara.

    Ég verð að lokum að segja aðeins það að ég get ekki talað um úthlutun á kvóta fyrir trillur með jafnmiklu öryggi og hæstv. ráðherra, ég hef ekki fengið að sjá plöggin, ég fæ ekki upplýsingarnar. Eftir því sem mér er sagt verða smábátarnir að þola svona 6 -- 7% skerðingu umfram það sem aðrir verða að þola að meðaltali. Meðaltal segir ekkert í þessu efni. Það sem er forvitnilegt að sjá er hvernig þeir menn sem raunverulega hafa atvinnu af því að vera trillukarlar fara út úr þessu. Hvað veiddu þeir í fyrra? Hvað veiddu þeir í hittiðfyrra? Og hvernig koma þessar reglur við þá nú? Ég óttast að sú mikla óvissa sem hefur verið í þessum málum hafi leitt til þess að ýmsir hafi í fljótræði selt smábáta sína og séu þess vegna á köldum klaka. Ég óttast líka eins og ég sagði í dag að margur hafi lagt í fjárfestingu í sambandi við gamla trillu sem honum er nú bannað að nota. Ég veit dæmi um þetta. Það er því margt að athuga og verður auðvitað ekki leyst hér. Hagræðing er gott orð, hagræðing í flotanum, það er gott að vera með kvóta og vilja nota hann sem stýringu. En hitt er bágt þegar þær reglur sem farið er eftir standa á móti hagræðingunni, t.d. þegar um það er að ræða að skip sem er á síldveiðum á kost á þrem síldarkvótum, hefur veitt tvo en er bannað að veiða þann þriðja nema annað skip komi til sögunnar sem þýðir meiri kostnað. Þannig er margvíslegt óhagræði í fiskveiðistjórninni eins og hún er núna. Það var mjög alvarlegt skref sem stigið var sl. vor með því að gera enga tilraun til þess að koma til móts við þá sem hafa verið á sóknarmarki, skella skollaeyrum við þeirra hagsmunum og þeirra byggðarlaga þar sem þetta fólk hefur búið.
    Ég vil svo ítreka það að Hagræðingarsjóðurinn, sem stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar kalla ,,aumingjasjóðinn``, kemur ekki til hjálpar nema skip sé selt úr byggðarlagi og það hafi veruleg áhrif á atvinnulífið á þeim stöðum, sem sýnir auðvitað að aldrei var ætlunin með þeim lögum að reyna að liðka eða lagfæra til hjá þeim sem mestu tapa í sambandi við sóknarmarkið. Það er nú svo einfalt.
    Auðvitað blasir það við að mörg byggðarlög standa nú höllum fæti. Hv. 4. þm. Reykn. orðar það svo að það sé maðkur í mysunni, það er dómur hans um sjútvrh. Og hann segir að það sé ekki hagkvæmt að haga fiskveiðum þannig að allir þurfi að lepja dauðann úr skel. Þetta er dómur þeirra sem standa á bak við sjútvrh., dómur þeirra sem hann ráðfærir sig við í því stjórnarsamstarfi þar sem hann er núna. Ég geri ráð fyrir því að hann eigi auðvelt með að skilja að hann geti ekki vænst þess að sjálfstæðismenn séu allir einróma um að honum farist allt vel úr hendi sem lýtur að stjórn fiskveiða.
    Nú stendur svo á að við ætlum að fara að afgreiða fjárlög innan skamms. Ekki er gert ráð fyrir því að ríkissjóður leggi eina einustu krónu til hafnagerðar. Á hinn bóginn á að skattleggja útgerðina um 400 millj. kr. í nýjum sköttum. Ég verð að segja að aumara upplit hef ég ekki vitað á neinum sjútvrh. en þetta. Á sama tíma og framlög til hafna á Íslandi eru þannig algjörlega skorin niður við trog sjáum við það

í þeim löndum sem eru að ná í nýja fiskinn okkar, taka vinnuna frá okkur hér á Íslandi, eru að verja milljörðum í uppbyggingu á höfnum í Hull, Grimsby, Zeebrugge, Bremerhaven --- ég átti þess kost að heimsækja alla þessa staði um daginn --- á öllum þessum stöðum standa yfir miklar hafnarframkvæmdir. Á sumum þeirra er kostnaðurinn við þær margföld fjárlögin íslensku. Og þetta kemur allt saman frá ríkinu, sumt af því frá Evrópubandalaginu. En hér á að skattleggja fiskvinnslufólkið og útgerðina fyrir hafnaframkvæmdunum. Þetta lítilræði sem eftir var er einnig tekið af þessu fólki.
    Hvað kostar einn togari? Hvað eru menn að borga fyrir bátana núna? Hvernig eru vátryggingariðgjöldin af fiskiskipunum? Skyldu þau vera óeðlilega há? Hvað ætli það komi oft fyrir að skip verði fyrir tjóni í höfn vegna þess að hún er illa frágengin? Man ég það rétt að það er búið að banna umferð um rúmlega 200 m langan bryggjukant í Ísafirði, sem er að vísu kominn til ára sinna, ætli hann sé ekki orðinn hálfrar aldar gamall eða svo. Skyldi það geta verið að eyfirsku skipin hafi flúið inn til Akureyrar í vonda veðrinu um daginn en þar hafi þeir ekki einu sinni verið búnir að ljúka við fiskihöfnina sem þar er verið að gera? Jú, það gæti nú verið að ástandið væri þannig, einmitt þannig.
    Ég veit ekki, hæstv. forseti, hvort ástæða sé til að tala meira. Ef ráðherra er í stuði væri gaman að vita hvort við fáum meira að heyra. Hitt þykir mér þó þýðingarmeira að hann skilji nauðsyn þess, ekki aðeins fyrir okkur þingmenn, heldur líka fyrir þá menn sem eru í sjávarútvegi, að við fáum lágmarksupplýsingar til að geta fylgst með. Ég hef aldrei misnotað upplýsingar til að hefja árásir af neinu tagi á hæstv. sjútvrh., honum er það kunnugt, hvort sem ég hef verið samherji hans í ríkisstjórn eða andstæðingur. Ég tek það ekki gott og gilt að ég mundi misnota slíka pappíra og að ég sé að reyna að fá þá undir fölsku yfirskini. Svo er ekki. Það eina sem ég er að biðja um er að ég fái að sjá hvernig smábátadæmið lítur út í heild sinni. Ég vil fá að vita hvað þar er að gerast og ég vil fá að geta borið þessa kvóta saman við þau aflabrögð sem verið hafa hjá smábátunum á undanförnum árum. Það er út af fyrir sig rétt að afli smábáta í heild hefur vaxið ár frá ári af því að smábátaflotinn hefur stækkað meira en góðu hófi gegnir. Það er hins vegar ekki á ábyrgð þeirra manna sem hafa verið við þessa útgerð í áratugi, stækkun smábátaflotans er á ábyrgð þess sem fer með æðstu stjórn þessara mála í umboði Alþingis, sem er sjútvrh. Ef þingið hefur ekki viljað hlíta hans ráðum var honum auðvitað rétt að segja af sér sem sjútvrh. en láta ekki það ganga fram sem hann vissi að gat ekki gengið, ef hann var þá þeirrar skoðunar sem guð má vita hvort hann hefur verið. En hitt er öldungis ljóst að það að halda slíkum upplýsingum leyndum vekur tortryggni, það sýnir að ráðherrann er búinn að sitja of lengi í stólnum og þarf að fá frí eins og raunar Framsfl. allur. Ég hygg að flestir séu þeirrar skoðunar að sú muni verða niðurstaða næstu kosninga að þeir sem fylgi hljóta

telji að ekki sé þörf fyrir þennan flokk í Stjórnarráðinu lengur.