Stjórn fiskveiða
Mánudaginn 03. desember 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson :
    Hæstv. forseti. Ég vildi aðeins víkja að því sem hæstv. ráðherra sagði í sinni ræðu áðan. Hann kom nefnilega inn á grundvallaratriði sem er það þýðingarmesta í þessari umræðu og alltaf þegar við ræðum um stjórn fiskveiðimála. Það er spurningin um það hvort við getum leyst kvótakerfið af hólmi með annarri aðferð, með sóknarstýringu.
    Hæstv. ráðherra fór nokkrum orðum um þetta atriði og vék að nokkrum atriðum varðandi framkvæmd á stefnunni um sóknarstýringu og taldi sig finna nokkra meinbugi á framkvæmd þeirrar stefnu. Þetta mál er þess eðlis að ég er í mikilli freistingu. Mig langar til að ræða mjög ítarlega um hvert einasta atriði sem hæstv. ráðherra kom inn á ( Gripið fram í: Blessaður gerðu það, það er nógur tími.) en ég ætla ekki að gera það núna. Ég ætla að leitast við að vera stuttorður en minnast þó á þessi atriði.
    Hæstv. ráðherra fór nokkrum orðum um það hvernig ætti að stjórna sóknarþunganum. Hann hafði greinilega nokkrar áhyggjur af því með hverjum hætti slíkt gæti gerst. Hann sagði: Halda menn að enga miðstýringu þurfi við sóknarstýringuna? --- Ég hygg að þetta hafi verið hans orð.
    Við getum kallað það miðstýringu sem þarf við sóknarstýringu en það er grundvallarmismunur á miðstýringu. Annars vegar er miðstýring sem við getum kallað almennar reglur sem kveða á með almennum fyrirmælum um ákveðna stjórnun, hins vegar er einstaklingsbundin miðstýring sem kveður á um það hvernig einstaklingar eiga að haga sér. Þessi mismunur á almennri stjórnun og einstaklingsbundinni stjórnun er mismunurinn á frjálsræði annars vegar og hins vegar ríkisafskiptum. Þó við séum ekki með ríkisafskipti í þeirri merkingu að við skipum hverjum og einum fyrir hvernig hann á að haga sér, eins og var aðall kommúnismans í framkvæmd, þó við höfnum því þá er það ekki þannig að við viljum enga stjórnun. Auðvitað viljum við stjórnun en við viljum hafa stjórnun með almennum reglum. Á þessu er grundvallarmismunur. Ég gæti útlistað þetta miklu meira en ég ætla að neita mér um það.
    Ráðherra hafði að því er virtist miklar áhyggjur af því hvernig færi með framkvæmdina á því sem sóknarstýringin gerir ráð fyrir, að beitt sé fyrirmælum varðandi útbúnað veiðarfæra, veiðisvæði, veiðitíma og meðferð afla. Hann taldi þetta allt upp og mér fannst að hæstv. ráðherra féllust hendur þegar hann var að fara orðum um þetta, það væri ómöguleiki að gera þetta, það þyrfti svo mikil umsvif til þess. En þetta er misskilningur líka. Til þess að stytta mál mitt þá minni ég bara ráðherra á ákvæði í 2. gr. laga um stjórn fiskveiða frá 1986 -- 1987, ég hef þau lög af tilviljun hérna í höndunum. Þar er þetta allt tekið fram sem ég hef lagt áherslu á að væri þungamiðjan í sóknarstýringunni. Í 2. gr. þessara laga segir að það megi setja skilyrði um útbúnað veiðarfæra, veiðisvæði, veiðitíma og meðferð afla. Og ég verð að gera þá játningu að þegar ég samdi mitt frv. um stjórn fiskveiða fyrir tveimur árum og notaði þetta orðalag tók ég það upp úr lögunum frá 1986, lögunum sem hæstv. ráðherra sjálfur stóð fyrir og lét lögfesta. Ég held því að áhyggjur hæstv. ráðherra um framkvæmdina í þessu efni séu á misskilningi byggðar.
    Þá fór ráðherra nokkrum orðum sem bentu til þess að hann væri eiginlega algjörlega ráðvilltur í því sem sóknarstýringin þýðir. Og hæstv. ráðherra sagði að hann gæti ekki skilið hvar ætti að vera upphafspunkturinn, hvernig ætti að hefja þennan leik, þessa framkvæmd á sóknarstýringunni. Um það gæti ég líka flutt langt mál. En til þess að gera langt mál stutt vísa ég aðeins til þeirrar sóknarstýringar sem var í framkvæmd á árunum 1976 -- 1983. Ég hygg að það væri ekki óskynsamlegt að hafa reynsluna af þessu tímabili sem upphafspunkt og ég bendi hæstv. ráðherra á þetta.
    Hæstv. ráðherra sagði svo að ég hefði lagt til að það yrði kvóti á loðnu og humri, ef ég skildi hann rétt, ég hygg að hann hafi átt við að ég hafi gert það í frv. sem ég flutti fyrir tveimur árum um stjórn fiskveiða. ( Sjútvrh.: Rækju.) Hér er enn um misskilning að ræða hjá hæstv. ráðherra. Þetta frv. gerir ráð fyrir að kvóti falli niður á allar veiðar. Hins vegar er ákvæði í 6. gr. þessa frv. sem heimilar undanþágu frá þessu hvað varðar aðrar fisktegundir en botnfisk. Ég þykist vita að það er þetta ákvæði sem hæstv. ráðherra er að vitna til því þar stendur: ,,Heimilt er ráðherra að ákveða að enginn megi stunda veiðar á öðrum tegundum en botnfiski, svo sem rækju, humar, skelfiski, síld og loðnu, nema að fengnum sérstökum leyfum.`` Þetta eru ekki fyrirmæli, þetta er heimild og það var með tilliti til þess að ég taldi að ekki væri rétt að setja fortakslaus ákvæði um að
aflétta kvótanum á þessum fisktegundum þegar í stað. Stjórnvöldum yrði að gefast umþóttunartími til þessarar framkvæmdar og þess vegna var þetta sett í heimildarformi. Þannig að þessi ummæli hæstv. ráðherra bera raunar vott um það að hann hefur kynnt sér mjög vel þetta frv. sem ég lagði fram fyrir tveim árum og auðvitað er það lofsvert þó að hann áttaði sig ekki á því að það væri um heimild að ræða í sambandi við undanþágu frá því að leysa af kvótann varðandi þessar tilteknu fisktegundir. Tel ég að ég sé þá búinn að leiðrétta einnig þennan misskilning.
    Þá hafði hæstv. ráðherra áhyggjur af því hvernig ætti að fækka skipum með sóknarstýringu. Það er mjög gott að það skyldi verða komið inn á þetta atriði og mig langaði nú til þess að ræða það mjög ítarlega. Ég minni á það sem ég sagði í minni fyrri ræðu að á fimm árum eftir að kvótinn kom til hefði skipaflotinn aukist helmingi meira en á næstu fimm árum á undan. Þetta segir sína sögu. En komum nánar inn á það hvernig á að fækka skipum með sóknarstýringu. Þessi spurning hjá hæstv. ráðherra er grundvallarspurning þegar við erum að velta því fyrir okkur, leggja það niður fyrir okkur, hvað við eigum að gera til að ná sem mestri arðsemi í fiskveiðum. Það er auðvitað að minnka fiskiskipastólinn.
    Nú er það, og ég mun hafa komið inn á það í

minni fyrri ræðu hér í þessum umræðum, að það er einmitt aðalsmerki sóknarstýringarinnar að samkeppnin sem hún gerir mögulega í veiðunum leiðir til þess að skipum fækkar vegna þess að þau skip sem eru úrelt og óhagkvæm heltast úr lestinni smám saman því að þau þola ekki samkeppnina. Þetta er alveg gagnstætt því sem er í kvótakerfinu því að kvótakerfið hefur innbyggðan hvata til þess að vera dragbítur á minnkun fiskiskipastólsins vegna þess að kvótakerfið ýtir undir að hverri fleytu sé haldið á floti af því að hún fær kvóta úthlutaðan. Þannig að það er nú ekki erfitt, sýnist mér, að svara og benda ráðherra á að hann þarf ekki að hafa áhyggjur af sóknarstýringunni í þessu sambandi.
    En eitt sagði hæstv. ráðherra, sem var að sjálfsögðu alveg rétt athugað, að þessi þróun, sem ég var að segja að leitt gæti af sóknarstýringunni, gagnstætt því sem er um kvótakerfið, kemur ekki strax fram. Það tekur tíma að aðlaga sóknargetuna, stærð fiskiskipastólsins við þarfirnar til þess að nýta fiskstofnana. Og það þarf í sóknarstýringunni að gera sérstakar ráðstafanir til þess að flýta þessari þróun. Hverjar eru þessar ráðstafanir? Ég hef alltaf í umræðunni bent á það. Það er að hafa öflugan úreldingarsjóð til þess að flýta fyrir þessari þróun. Þetta er líka það sama og er stefna hæstv. ráðherra. Hann vill öflugan úreldingarsjóð. En það er bara það sem gerir gæfumuninn að úreldingarsjóður, eins og ég hugsa hann, undir sóknarstýringu er raunhæfur, en hann getur aldrei orðið raunhæfur undir kvótakerfinu vegna þess að hinn innbyggði hvati, sem ég nefndi áðan sem kvótakerfið hefur til að halda hverri fleytu á floti, vinnur á móti tilgangi úreldingarsjóðsins. Og kvótakerfinu, úreldingarsjóði undir kvótakerfinu og gagnsemi hans, mætti kannski líkja við að ausa vatni í botnlausa tunnu.
    Nú hef ég komið inn á helstu atriðin sem hæstv. ráðherra kom inn á og ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir það að hafa einmitt komið í þessari umræðu inn á þessi grundvallaratriði. Ég held að þessir meinbugir sem hæstv. ráðherra óttaðist og kom fram í hans orðum varðandi framkvæmd á sóknarstýringu séu á misskilningi byggðir og ég tel að ég hafi bent á það hér. Og ég vil nú leyfa mér að vona að svo glöggur maður sem hæstv. ráðherra athugi þetta mál betur en hann hefur kannski gert, þó kann að vera að hann hafi athugað það vel, athugi samt áfram hvort sóknarstýring er ekki eins og málum er komið eina raunhæfa leiðin út úr öllum þessum vandamálum sem við erum að glíma við og alltaf eru að aukast, hvort það er ekki eina leiðin að hverfa frá kvótafyrirkomulaginu og taka upp sóknarstýringu. Ég treysti hæstv. ráðherra vel til þess að athuga þetta, ef ég mætti segja, í nýju ljósi eða betur eða áfram því að mér kemur ekki annað til hugar en svo ábyrgur maður hugsi þetta mál frá öllum hliðum, enda kom hann inn á þetta grundvallaratriði í sinni ræðu.