Stjórn fiskveiða
Mánudaginn 03. desember 1990


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu hér, en ég vænti þess að ég og hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson getum átt orðastað um þetta mál áfram, eins og við höfum nú reyndar átt gegnum tíðina, í vinsamlegum tón. Það er alveg rétt hjá honum að þetta eru ekki auðveld mál úrlausnar og það verður alltaf svo að um þau verða skiptar skoðanir.
    Ég vildi biðja hv. þm. Halldór Blöndal afsökunar á því að ég hafði ekki skilið hann svo að hann hafi borið fram sérstaka fyrirspurn að því er varðaði skarkolann. En það stendur þannig á með það mál að mjög lítil vinna hefur farið fram að því er það varðar og hún á eftir að eiga sér stað nú á næstu vikum og þarf að ljúka sem fyrst. En að sjálfsögðu verður reynt að miðla upplýsingum um það þegar það mál er lengra komið.
    Ég vildi taka fram, út af því sem hann sagði hér um smábátana, að það liggur alveg ljóst fyrir að það er hægt að gefa hv. þm. upplýsingar um það sem hann er að spyrja um ef hann óskar. En hann hefur gengið svo hart fram í því að mínu mati að hann leggur allt upp úr því að fá þennan langa lista með tvö þúsund og eitthvað bátum í sínar hendur og það sé aðalmálið. Ég get því miður ekki orðið við því. En við getum orðið við því að upplýsa hv. þm. um allt það sem skiptir máli, m.a. það sem hann sagði hér að hann vildi geta gert, þ.e. að fara ofan í einstök mál og athuga hvernig þessir útreikningar hafa átt sér stað. Þetta hefur hv. þm. verið boðið.
    Út af því sem hann spurði um um Verðjöfnunarsjóð þá er það rétt hjá honum að greiðsla í Verðjöfnunarsjóð er reiknað út frá meðalhækkun á botnfiskafurðum. Þessar hækkanir geta verið misjafnar og þannig kann það að koma út með þeim hætti sem hann skýrði hér frá. Ég hef ekki haft tækifæri til að kynna mér það sérstaklega en ég vænti þess að hægt sé að koma upplýsingum til hv. þm. um það, enda er nægilegt fyrir hann að snúa sér til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins og þess starfsmenn sem þar eru til að fá allar upplýsingar um það mál. Ef það nægir honum ekki skal ég reyna að koma því skriflega til hans.