Sementsverksmiðja ríkisins
Þriðjudaginn 04. desember 1990


     Skúli Alexandersson :
    Herra forseti. Þegar frv. um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins var hér til umfjöllunar á síðasta þingi fjallaði ég lítillega um það og lýsti takmörkuðum áhuga á því. Skoðun mín er óbreytt gagnvart því frv. sem hér er til umræðu, enda rætt um sama frv. Ég tel að hér sé verið að leika sér að óþarfa hlutum, algjörlega ástæðulaust sé að breyta ríkisfyrirtækinu Sementsverksmiðju ríkisins í hlutafélag.
    Ef taka á mark á yfirlýsingum hæstv. iðnrh. og hv. 3. þm. Vesturl., stjórnarformanns Sementsverksmiðjunnar, við umræður á síðasta þingi um þetta frv., eða það frv. sem þá var lagt hér fram um að breyta Sementsverksmiðju ríkisins í hlutafélag, um að öll hlutabréf verksmiðjunnar skuli vera og verði eign ríkissjóðs er breytingin ekki önnur en sú gagnvart rekstri og stjórn fyrirtækisins að stjórnarmenn verksmiðjunnar munu tilnefndir af einum ráðherra í staðinn fyrir að stjórnarmenn verksmiðjunnar hafa verið kjörnir af Alþingi. Þeir verða kosnir árlega eftir frv. eins og í hlutafélögum yfirleitt, ekki á fjögurra ára fresti eins og þegar stjórn er kjörin af Alþingi, þannig að þessi þáttur gerir stjórnsýslu verksmiðjunnar greinilega erfiðari en áður var. Það gætu orðið meiri mannaskipti í stjórn fyrirtækisins en ella. Það er því spurt: Er það ómaksins vert að vera með allan þennan málatilbúnað bara til að breyta því hvernig stjórn er valin í fyrirtækinu? Sumir trúa því ekki að svo sé jafnvel þótt ráðherra hafi gaman af því að puða í tilgangslitlum verkum. Hér hljóti eitthvað fleira að liggja að baki. Að því mun ég koma síðar.
    Áður en lengra er haldið er kannski rétt að rifja upp sögu þessa málefnis um að breyta eignarformi Sementsverksmiðjunnar sem komið hefur til umfjöllunar sem frv. í fimm skipti hér á hv. Alþingi.
    Það frv. sem hér er verið að fjalla um er, eins og þegar hefur komið fram, númer tvö í röðinni sem flutt er af hæstv. iðnrh. Fyrra frv. var samþykkt hér í hv. Ed. á síðasta þingi en hlaut þau örlög að fá ekki fullnaðarafgreiðslu fyrir þinglok í vor frá Nd. Þannig fór um sjóferð þá, eins og hæstv. iðnrh. lýsti hér í ræðu sinni.
    Árið 1984, um haustið, flutti Sverrir Hermannsson, þáv. iðnrh. frv. til laga um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins og jafnframt að selja 20% af hlutabréfunum strax. Flestum kom þetta mjög á óvart því um vorið 1984 hafði Sverrir flutt frv. til breytingar á lögum verksmiðjunnar þar sem gert var ráð fyrir að hún yrði áfram ríkiseign.
    Haustfrv. fékk mjög eindregna andstöðu. Iðnn. Ed. sendi frv. til umsagnar hjá mörgum stofnunum. Allir sem umsagnir gáfu mótmæltu því, enginn gaf því meðmæli. Áköfust voru mótmælin frá stjórn Sementsverksmiðju ríkisins, Sambandi byggingarmanna og Starfsmannafélagi Sementsverksmiðjunnar.
    Stjórn Sementsverksmiðju ríkisins sendi mjög ítarlegt álit gegn frv. Það voru fjórir stjórnarmenn Sementsverksmiðjunnar sem stóðu að álitsgerð þar sem lagt var til að frv. yrði fellt, þeir Skúli Alexandersson, Daníel Ágústínusson, Sigurjón Hannesson og Friðjón Þórðarson, sá síðastnefndi með fyrirvara.
    Fyrsti liður álitsgerðarinnar var á þessa leið, með leyfi forseta:
    ,,Við teljum að sú breyting á eignarformi verksmiðjunnar sem frv. gerir ráð fyrir þurfi annaðhvort að byggjast á einhverjum vandkvæðum sem komið hafa upp í rekstrinum á liðnum árum eða að skilmerkileg rök séu fyrir því að breyting verksmiðjunnar í hlutafélag gefi betri rekstrargrundvöll. Hvorugt hefur átt sér stað. Í grg. með frv. felast engin rök fyrir umræddri breytingu og saga verksmiðjunnar í tæp 30 ár talar öll gegn henni.``
    Og álitsgerðinni lauk með þessum orðum: ,,Umrætt frv. er að okkar dómi algjör tímaskekkja. Við mælum því gegn frv. og teljum það ekki aðeins þarflaust heldur andstætt hagsmunum verksmiðjunnar og framtíðarhagsmunum hennar.``
    Þessi rök eru jafngild í dag og 1985. Þau eru jafngild sem rök gegn frv. hæstv. iðnrh. Jóns Sigurðssonar sem hér er nú til umfjöllunar og frv. Sverris Hermannssonar haustið 1984 og veturinn 1985. Frv. Sverris Hermannssonar var fellt hér í hv. Ed. vorið 1985. Einn þingmaður Sjálfstfl. greiddi atkvæði gegn því og reið það baggamuninn.
    Í byrjun árs 1988 semur Friðrik Sophusson frv. um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins. Nú áttu öll hlutabréfin að vera eign ríkisins við stofnun hlutafélagsins.
    Friðrik Sophusson sendi stjórn Sementsverksmiðju ríkisins frv. með bréfi dags. 29. mars 1988. Frv. var rætt á nokkrum fundum. Samþykkt var af meiri hluta stjórnarinnar ítarleg greinargerð gegn frv. á fundi 11. júlí 1988. Í greinargerð stjórnarinnar kemur fram að engin rök hafi verið sett fram fyrir því að gera Sementsverksmiðju ríkisins að hlutafélagi. Hliðstætt frv. hafi verið fellt á Alþingi 1985. Frá þeim tíma hafi rekstur verksmiðjunnar síður en svo gefið tilefni til breytinga. Raunar hafi hann aldrei gengið betur og skilað mikilli og góðri framleiðslu. Í greinargerðinni segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Verksmiðjan hefur fyrir löngu skipað sér í fremstu röð sambærilegra fyrirtækja. Framleiðsla hennar nýtur hvarvetna mikils álits. Afköstin hafa aukist en rekstrarkostnaðurinn lækkað með árunum. Henni er vel stjórnað af áhugasömum og samhentum framkvæmdastjórum og hefur á að skipa þrautreyndu starfsliði með langan starfstíma. Við slíkar aðstæður er mikill ábyrgðarhluti að setja verksmiðjuna á verðbréfamarkað án minnsta rökstuðnings og gegn vilja allra þeirra sem best þekkja til reksturs hennar.``
    Þetta frv. Friðriks Sophussonar var ekki lagt fram hér á hv. Alþingi. Samstarfsflokkarnir, Alþfl. og Framsfl., voru þá ekki tilbúnir til að samþykkja það að búa til hlutafélag um Sementsverksmiðju ríkisins. Friðrik Sophusson bætti svo um betur 1988 og 1989 og flutti þá sem þingmaður frv. um að breyta Sementsverksmiðjunni í hlutafélag. Þau frv. döguðu uppi bæði tvö hér á hv. Alþingi.
    Það frv. sem hér er til umræðu er mjög í sama farvegi og frv. Friðriks og Sverris. Hæstv. iðnrh. Jón Sigurðsson hefur heldur ekki farið í neina launkofa með það að skoðanir hans og þeirra fyrirrennara hans í iðnrn., Sverris Hermannssonar og Friðriks Sophussonar, eru mjög svipaðar hvað varðar eignarhald fyrirtækja. Í Morgunblaðinu 10. apríl sl. birtist t.d. grein eftir hæstv. iðnrh. Jón Sigurðsson þar sem hann fjallar um hlutabréfamarkað og eiginfjármyndun í atvinnurekstri. Þar segir m.a., með leyfi virðulegs forseta, þar sem ráðherra hefur talið upp nokkra möguleika:
    ,,Í fjórða lagi þarf að fjölga almenningshlutafélögum sem geta tekið þátt í að mynda hlutabréfamarkað hér á landi. Hér getur ríkisvaldið gegnt mikilvægu hlutverki með því að breyta ríkisfyrirtækjum og stofnunum í hlutafélög þar sem aðstæður leyfa. Einkum væri hér um að ræða atvinnufyrirtæki sem starfa við skilyrði samkeppni á innlendum markaði eða búa við samkeppni frá innflutningi. Þess þarf auðvitað að gæta að afhenda ekki einokunaraðstöðu til einkaaðila nema tryggilega sé búið um eftirlit með starfseminni.
Þótt ríkissjóður hefði í fyrstu eignarhald á öllum hlutabréfum í slíkum hlutafélögum gæti hann smám saman selt hlutabréf sín eftir nánari heimildum frá Alþingi. Einnig má hugsa sér að eignarhlutur ríkisins verði minnkaður smátt og smátt eftir því sem ný hlutabréf eru gefin út og seld á hlutabréfamarkaði í því skyni að afla fyrirtækjunum aukins eignarfjár, m.a. til þess að standa undir arðbærum nýframkvæmdum. Af fyrirtækjum sem koma til greina í þessu sambandi má nefna`` --- hv. þm., takið þið nú eftir --- ,,ríkisbankana tvo, Landsbanka og Búnaðarbanka, Áburðarverksmiðju og Rafmagnsveitur ríkisins.``
    Svo mörg voru þau orð. Frá Friðriki Sophussyni heyrðist líka á síðum Morgunblaðsins. Hinn 22. des. 1987 var frétt af stofnfundi Fjárfestingarfélagsins Draupnis. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Friðrik Sophusson iðnrh. fagnaði því framtaki sem stofnun þessa félags væri fyrir atvinnulífið. Hann minnti á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar væri gert ráð fyrir því að vinna að sölu á ríkisfyrirtækjum. Hann kvað hins vegar ljóst að í ýmsum tilfellum yrði erfitt að koma slíkri sölu í kring nema með því að breyta viðkomandi fyrirtækjum í hlutafélög, jafnvel þótt sérstök löggjöf þyrfti að koma til þar sem allir hlutir í viðkomandi fyrirtæki yrðu í eigu ríkisins í byrjun. Á eftir mætti hins vegar selja hlut í þessum fyrirtækjum með eðlilegum hætti á hlutabréfamarkaði og kvaðst hann telja félag á borð við Fjárfestingarfélagið Draupni geta orðið mikilvægan þátt í þessari viðleitni ríkisstjórnarinnar.``
    Herra forseti. Þessar tilvitnanir í orð þessara tveggja áhugamanna um að breyta ýmsum ríkisfyrirtækjum í hlutafélög segja skýrt og skorinort að framtíðarsýnin sé sú að færa einkaaðilum t.d. Sementsverksmiðjuna til eignar. Þótt í fyrstu séu ákvæði um að öll hlutabréf skuli vera í eigu ríkisins, eins og í því frv. sem við fjöllum um hér um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins, þá er leiðin mörkuð í huga núverandi hæstv. iðnrh. Jóns Sigurðssonar með

orðum hans sjálfs: ,,Þótt ríkissjóður hefði í fyrstu eignarhald á öllum hlutabréfum`` --- hv. þm., takið eftir: eignarhald á öllum hlutabréfum, eins og lagt er til í þessu frv. --- ,,gæti hann smám saman selt hlutabréf sín eftir nánari heimildum frá Alþingi.`` Þetta segir hæstv. iðnrh.
    Og hv. þm. Friðrik Sophusson, fyrrv. iðnrh., segir næstum alveg það sama. Það er þetta, með leyfi forseta: ,,... jafnvel þótt sérstök löggjöf þyrfti að koma til þar sem allir hlutir í viðkomandi fyrirtæki yrðu í eigu ríkisins í byrjun. Á eftir mætti hins vegar selja hlut í þessum fyrirtækjum með eðlilegum hætti á hlutabréfamarkaði.`` Það er greinilegt að hverju á að stefna. Markmiðið er að einkaaðilar eignist Sementsverksmiðjuna þótt á því verði einhver bið vegna andstöðu almennings gegn slíkri eignatilfærslu. Ef litið er til þess tíma þegar verið var að berjast fyrir því að stofnsett yrði sementsverksmiðja hér á landi tel ég að aldrei hafi komið í umræðuna að annar eigandi yrði að þeirri verksmiðju en ríkið. Það var jafnmikill einstaklingshyggjumaður og fyrrv. þm. Pétur Ottesen sem stóð fremstur þar í flokki að byggja upp ríkisfyrirtækið Sementsverksmiðju ríkisins. Það er nokkurn veginn víst, og það mun Pétur Ottesen hafa vitað, að verksmiðja sú sem nú er og hefur verið á Akranesi hefði aldrei verið byggð ef hún hefði ekki verið ríkisfyrirtæki og undirbyggð á þann máta sem Pétur Ottesen og fleiri lögðu til.
    Það er einnig svo að ef þetta hefði ekki verið ríkisfyrirtæki, ef þeir möguleikar hefðu verið fyrir hendi að einstaklingar hefðu getað byggt fyrirtæki eins og Sementsverksmiðju ríkisins á þessum árum, þá eru engar líkur fyrir því að sú verksmiðja hefði verið byggð á Akranesi. Hún hefði að öllum líkindum verið í Reykjavík. Verksmiðjan var byggð sem ríkisverksmiðja og menn töldu það sjálfsagt vegna þess að þetta var og er einokunarfyrirtæki, fyrirtæki sem átti og á að sinna næstum öllum þörfum okkar fyrir sement og hefur gert það síðan það hóf rekstur og gert það með miklum sóma. Þegar hefur átt að halda verðlagi í skefjum, andæfa gegn því að verðlag hækkaði í landinu, hefur því verið beitt að láta Sementsverksmiðju ríkisins halda niðri verði á sementi og það komu fyrir á stundum ákveðin tímabil að þessi tilhneiging ríkisvaldsins varð til þess að verksmiðjan var rekin með nokkrum halla og var í erfiðleikum með rekstur sinn. Þrátt fyrir að þetta hafi gerst oftar en skyldi stendur Sementsverksmiðja ríkisins mjög vel nú og hefur á undanförnum árum, að undanteknu árinu 1989, og trúlega verður svipað í ár, verið rekin með góðum tekjuafgangi, styrkt eiginfjárstöðu sína eða höfuðstól ár frá ári. Á sama tíma hefur þessi verksmiðja verið að endurbyggja sig og í dag má segja að Sementsverksmiðja ríkisins sé að meginhluta til nýtt fyrirtæki að flestum tækjum og búnaði.
    Sementsverksmiðja ríkisins hefur starfað í 32 ár og verið í eigu ríkisins frá upphafi, enda eðlilegt miðað við stærð hennar og þjónustuhlutverk. Þrátt fyrir ýmis vandamál á fyrri árum hefur verksmiðjan sl. 10 -- 15 ár komist á lygnan sjó og sannað ágæti sitt svo að ekki

verður um deilt. Svo vel hefur henni tekist að bæta framleiðslu sína að hún stenst samanburð við sement frá flestum löndum í Evrópu. Verðið er einnig svo hagstætt að enginn hefur séð sér hag í því að hefja innflutning á sementi. Það er þó öllum frjálst.
    Fjárhagslega stendur verksmiðjan nú vel að vígi. Hefur hún hin síðustu ár getað lækkað skuldir sínar verulega, aukið höfuðstólinn og bætt rekstrarfjárstöðuna. Á tímum hárra vaxta hefur þetta skipt sköpum fyrir afkomuna. Jafnframt hafa miklar tæknilegar endurbætur verið gerðar á verksmiðjunni sem létta störfin og auka hagkvæmni í rekstrinum. Þar ber hæst er kolabrennsla var tekin upp í stað olíu sem skipt hefur sköpum fyrir afkomu verksmiðjunnar. Þá hefur verið lagt í nokkurn kostnað vegna vöruþróunar sem ætlar að gefa góða raun. Það skiptir miklu máli að verksmiðjan sé rekin með hagsmuni allrar þjóðarinnar fyrir augum en ekki samkvæmt sjónarmiðum fjármagnseigenda. Það verður ekki betur tryggt en með eign og umráðum ríkisins. Margir iðnrekendur hafa á undanförnum árum lagt niður hluta af fyrirtækjum sínum og sumir hætt öllum rekstri. Ýmsir hafa svo aftur á móti hafið innflutning á því sem þeir framleiddu áður og hagnast vel. Sementsverksmiðja ríkisins gæti auðveldlega hafið þennan leik með góðum árangri. Það mundi hún hins vegar aldrei gera meðan Alþingi kýs stjórn hennar sem ber skylda til að taka hagsmuni þjóðarinnar fram yfir einkagróða. Fyrir starfsmenn verksmiðjunnar skiptir stöðugleiki og atvinnuöryggi ákaflega miklu máli. Það eru því engar sérstakar ástæður sem liggja fyrir því að fara að breyta þessu fyrirtæki í hlutafélag. Það er engin þörf á að leita að nýju fjármagni til þessa fyrirtækis frá einhverjum einkaaðilum. Allir hlutir í kringum þetta fyrirtæki núna eru á þann veg að þar er flest --- ég vil segja allt, í góðu gengi. Hugmyndir um að fara að breyta þar stjórnarfyrirkomulagi eða einhverju rekstrarfyrirkomulagi eru því algerlega ástæðulausar.
    Í tengslum við þessa breytingu á eignarforræði þessarar verksmiðju ríkisins hafa verið umræður um það og út frá því gengið að verksmiðjan hætti að greiða landsútsvar, svo sem kom fram í ræðu hæstv. iðnrh. hér. Í staðinn fyrir að verksmiðjan greiði landsútsvar og gjöld samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga er nú talið að með þessari breytingu fari verksmiðjan að greiða aðstöðugjald til Akraneskaupstaðar.
    Ég tel að hér sé um mjög vafasama aðgerð að ræða. Á undanförnum árum hefur sú umræða verið alláleitin og ég held að ég geti svo gott sem fullyrt það að flestir landsbyggðarmenn hafi talið það nauðsynlegt og kom reyndar fram í ræðu hæstv. iðnrh. að um það væri rætt að sem flest stórfyrirtæki sem þjóna öllu landinu greiddu landsútsvar til Jöfnunarsjóðs eða í einhvern sameiginlegan sjóð landsmanna. Við höfum reyndar heyrt þá umræðu að ýmis ríkisfyrirtæki sem eru undanþegin aðstöðugjaldsskyldu t.d. til Reykjavíkur, þar vil ég nefna Ríkisútvarpið, sjónvarpið, að borgarsjóður Reykjavíkur hafi mikinn áhuga fyrir því að fá aðstöðugjald af þessum fyrirtækjum. Þessi fyrirtæki hafa ekki greitt landsútsvar. Það eru önnur

fyrirtæki, Áburðarverksmiðja ríkisins, olíufélög og fleiri stórfyrirtæki sem greiða landsútsvar.
    Ef horfið verður frá því að telja æskilegt að einokunarfyrirtæki og fyrirtæki sem sinna að meginhluta til eða að öllu leyti þjónustu við landið allt greiði landsútsvar skerðast tekjumöguleikar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna. Þá er verið að hverfa frá grundvallaratriði sem tekjustofnalögin sem við samþykktum á síðasta ári voru byggð á.
    Þessi þáttur tel ég að sé mjög alvarlegur og að menn geri sér ekki grein fyrir því hvað þeir eru að gera þegar lagt er til að með samþykkt þessara laga verði breyting á. Til viðbótar við það sem kom fram í ræðu hæstv. iðnrh. áðan að nú væri rætt um það að leggja jafnvel aðstöðugjald niður sem tekjustofn sveitarfélaga og ef það bætist ofan á það sem er verið að benda á, þá er hér um mjög vafasama breytingu að ræða, ekki aðeins fyrir Akranesbæ heldur fyrir landið allt og tekjumöguleika Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
    Í umræðum á Akranesi hefur mjög verið haldið á lofti þeirri tekjuaukningu sem Akranesbær fengi með því að fá aðstöðugjald af verksmiðjunni. Eftir því sem ég kemst næst er þetta upphæð sem fer varla mikið yfir 4 millj. kr. Það er mismunur þess sem bærinn fær nú þegar beint af landsútsvarinu og í gegnum Jöfnunarsjóð og þess aðstöðugjalds sem verksmiðjan kemur til með að greiða ef þessi breyting yrði á. Jafnvel yrði þetta ekki svo há upphæð sem ég nefndi eftir þeim upplýsingum sem hæstv. iðnrh. gaf áðan, að það mundu verða um 7 millj. kr. sem Akranesbær fengi í tekjur af aðstöðugjaldi en hluti Akranesbæjar af landsútsvari var 3,5 millj. kr. Svo fær Akranesbær vitaskuld óbeint hluta af landsútsvarinu í gegnum Jöfnunarsjóð eftir einhverjum öðrum leiðum.
    Nú er rætt um að afnema aðstöðugjald sem tekjustofn sveitarfélaga og allt virðist stefna í þá átt að svo verði innan tíðar. Fyrir Akraneskaupstað yrði það tvöfaldur skaði eftir að búið væri að breyta skattskyldu Sementsverksmiðjunnar svo sem um er talað í frv., bæjarsjóður fengi ekkert aðstöðugjald og hefði tapað sínum hluta af landsútsvari verksmiðjunnar. Flestöll bæjarfélög óska eftir þessu og þykir mjög varið í að fá fyrirtæki eins og Sementsverksmiðju ríkisins til þess að starfa innan sinna marka. Vitaskuld var það sem Pétur Ottesen barðist fyrir, þegar hann kom því til leiðar ásamt fleiri góðum mönnum að Sementsverksmiðja ríkisins yrði byggð á Akranesi, að hún yrði styrk stoð undir byggð á Akranesi. Hún hefur verið það og er það.
    Við stofnun Sementsverksmiðjunnar voru strax gerðir sérstakir samningar við Akranesbæ, við vatnsveitu bæjarins, þar sem verksmiðjan tók að sér ákveðinn hluta af rekstri vatnsveitunnar vegna þess að þegar verksmiðjan var byggð þurfti að styrkja vatnsveituna til þess að afla þess vatnsmagns sem verksmiðjan þarfnaðist. Í öðru lagi var verksmiðjan toppstöð fyrir Rafveitu Akraness. Í hvert skipti sem rafmagnseyðslan hjá Rafveitu Akraness nálgaðist það hámark sem samið hefur verið um við Landsvirkjun og að því stefnir að farið verði yfir þann topp, þá slær Sementsverksmiðja ríkisins út vélum eða tækjum þannig að það er komist hjá því að kaupa á sérstökum álagstímum háan topp af Landsvirkjun fyrir Rafveitu Akraness. Þarna er um ómældar fjárhæðir að ræða sem Rafveita Akraness hefur sparað vegna þessara viðskipta við Sementsverksmiðju ríkisins. Það segir enginn að svona verði samið áfram ef verksmiðjan verður gerð að hlutafélagi. En á meðan fyrirtækið verður allt í höndum ríkisins óttast ég ekki að þar verði á nokkrar breytingar.
    En því miður, bak við þessa breytingu liggur sú tilætlun, eins og ég hef bent á, að aðrir aðilar en ríkið komi til með að verða eigendur að þessu fyrirtæki. Jafnvel þótt hv. 3. þm. Vesturl. Eiður Guðnason hafi lýst því yfir á síðasta þingi að það sé stefna hans eða stefna Alþfl. að hlutabréf í Sementsverksmiðju ríkisins verði aldrei seld einkaaðilum. Þetta er góð yfirlýsing og styrkir vitaskuld þá stefnu að halda verksmiðjunni sem lengst í eigu ríkisins. En með því að breyta í þetta eignarform sem hér er lagt til er verið að gefa undir fótinn með eignarhlut annarra. Segjum að Steypustöðin hf., BM Vallá, Hagvirki, ég vil nú ekki nefna það fyrirtæki sem við viljum ekki tala um að hafi verið í hópi steypustöðva hér í umhverfinu --- eignuðust hlut í verksmiðju ríkisins, kannski Sementsverksmiðjunni hf., jafnvel meiri hluta. Eru þá líkur fyrir öðru en að fljótlega mundi yfirstjórn verksmiðjunnar --- ég vona reyndar að það verði ekki í tíð þeirra ágætu forstjóra sem nú eru hjá verksmiðjunni, Gylfa Þórðarsonar og Guðmundar Guðmundssonar --- verða flutt yfir Hvalfjörðinn til Reykjavíkur? Það er mjög auðvelt að gera það og gefur auga leið að um leið og einhverjir hagsmunaaðilar, fjármagnseigendur, gerast eigendur að verksmiðjunni muni þeir seilast til meiri áhrifa. Þetta er einfaldasti og augljósasti þátturinn sem mundi
gerast. Herra forseti. Ég mun ekki nú gera grein fyrir líklegri þróun mála í rekstri Sementsverksmiðjunnar ef svo færi að einkaaðilar eignuðust hana. Ég mun ekki heldur fjalla sérstaklega um greinar þess frv. sem við erum að fjalla um hér, ég læt það bíða 2. umr. um málið. Eitt skal þó nefnt. Samstarf verksmiðjunnar og Akranesbæjar og íbúa Akraness mun breytast. Afstaða ríkisins verður alltaf önnur til félagslegs samstarfs en einkaaðila.
    Þessu frv. verður að lokinni þessari umræðu vísað til hv. iðnn. Ýmsar forsendur hafa breyst frá því að um þetta mál var fjallað á sl. vori. M.a. eru nú komnir aðrir fulltrúar í bæjarstjórn Akraness eftir sveitarstjórnarkosningarnar í vor. Það er því nauðsynlegt að frv. verði á ný sent til umsagnar. Ég treysti því að svo verði gert.
    Og í lokin þetta: Meðstjórnarmaður minn í stjórn Sementsverksmiðju ríkisins, Daníel Ágústínusson, sendi mér tíu atriði á blaði og nefnir þau Nokkur minnisatriði um Sementsverksmiðju ríkisins í tilefni af frv. Jóns Sigurðssonar iðnrh. Staðreyndir um reksturinn í 32 ár, kallar hann hana. Ég tek undir öll þessi tíu atriði Daníels og vil gera orð hans að mínum. Þessi tíu atriði eru svohljóðandi, með leyfi forseta.

( Gripið fram í: Þú verður að gefa framsóknarmönnum afrit af þessu.) Ég mun gefa bæði framsóknarmönnum og Framsfl. og Sjálfstfl. afrit af þessu ef þeir óska, enda munu sjálfsagt flestir þingmenn geta fengið ef þeir óska afrit af ræðu minni allri. Það mundi ég nú mælast til að sem flestir gerðu.
    1. Sementsverksmiðja ríkisins hefur verið einn traustasti hlekkurinn í atvinnulífi Akraneskaupstaðar frá stofnun hennar 1958. Þar hafa að jafnaði starfað um 130 menn og tekjur þeirra verið með þeim hærri í bænum.
    2. Í árslok 1989 var eigið fé verksmiðjunnar 670 millj. kr. og langtímaskuldir 208 millj. kr. Verksmiðjan er byggð fyrir lán sem hún hefur sjálf staðið undir.
    3. Á starfstíma sínum hefur verksmiðjan skapað ríkissjóði dýrmæta eign sem nam um sl. áramót um 462 millj. kr. nettó. Hún hefur aldrei á starfstíma sínum verið baggi á ríkissjóði sem frá upphafi hefur aðeins lagt henni til 122 þús. kr.
    4. Á sl. tíu árum hefur markvisst verið unnið að umfangsmiklum endurbótum á verksmiðjunni, eins og mengunarvörnum, tölvustýringu og annarri sjálfvirkni, kolakynding tekin upp í stað olíu, nýjum byggingum og margt fleira. ( Viðskrh.: Það er erfitt að hlýða boðorðunum ef maður getur ekki lesið þau.) Það getur nú líka farið að því, hæstv. ráðherra, að maður fari í það að læra þetta utan að og þú þurfir bara ekkert að lesa þetta því að það er nú best með boðorðin. Og ég mundi nú mælast til þess að
að þingmenn tækju sig til og lærðu þessa punkta Daníels Ágústínussonar og mundu hafa gott af. --- Reksturinn hefur almennt verið færður í mjög nýtískulegt horf og er verksmiðjan þægilegri og vistlegri vinnustaður en áður. Þetta hefur kostað hundruð milljóna sem verksmiðjan hefur sjálft lagt fram af tekjuafgangi sínum og með lántökum án minnstu aðstoðar ríkisins. Framkvæmdir þessar hafa þegar skilað umtalsverðum árangri og eiga eftir að gera það á næstu árum í mun betri rekstursaðstöðu.
    5. Framleiðsla verksmiðjunnar hefur alltaf verið háð opinberum verðlagsákvæðum og oft skammtað naumt þegar baráttan við verðbólguna var annars vegar. Sl. 15 ár hefur innflutningur á sementi verið frjáls en enginn farið út í þá samkeppni við verksmiðjuna þótt viljann hafi ekki skort hjá ýmsum. Verksmiðjan hefur þannig staðist samkeppni við erlenda framleiðslu.
    6. Um 1980 var hafin blöndun úrgangsefna frá Grundartanga í sementið sem útiloka alkalívirkni í steypunni. Um ágæti framleiðslunnar þarf því ekki að efast lengur.
    7. Verksmiðjan hefur frá upphafi verið rekin af ríkinu með stjórn sem kjörin er til fjögurra ára af Alþingi. Þar hafa allir helstu flokkar þingsins átt fulltrúa. Reynslan af þessu rekstrarformi er góð, þar hefur verið gagnkvæmt eftirlit.
    8. Verksmiðjan hefur verið þátttakandi í öðrum félögum sem henni eru skyld. Skal þar sérstaklega bent á Sérsteypuna sf. sem er þróunar- og tilraunafélag sem vinnur vörur úr framleiðslu verksmiðjunnar.

    9. Rekstrarhorfur verksmiðjunnar nú eru góðar svo framarlega að markaðurinn verði með svipuðum hætti og sl. áratug og verðlagning framleiðslunnar gerð með eðlilegum hætti.
    10. Árin 1986 -- 1988 var hreinn hagnaður verksmiðjunnar 128 millj. kr. Hagur hennar batnaði því mjög þessi þrjú ár. Hins vegar var nokkur halli sl. ár sem m.a. stafaði af því að salan féll niður um rúm 14 þús. tonn. Slíkt ætti ekki að vera varanlegt komist efnahagsmálin í eðlilegt horf.
    Framangreind tíu atriði ættu að varpa ljósi á þá staðreynd að Sementsverksmiðja ríkisins hefur í 32 ár gegnt mikilvægu hlutverki í þjóðfélaginu og rekstrarform hennar hefur gefist vel. Staða verksmiðjunnar hefur aldrei verið betri en nú.
    Herra forseti. Ég vil ekki við 1. umr. þessa máls leggja til að frv. verði fellt. Sjálfsagt er að skoða það í nefnd og senda það til umsagnar. Ég vænti þess hins vegar að þingmenn átti sig á því að þetta frv. er án merkjanlegs tilgangs ef aðeins er verið að breyta aðferð við stjórnarkosningar í fyrirtækinu með því að samþykkja það. Ef samþykkt frv. á aftur á móti að leiða til þess að hugmyndir þeirra hæstv. iðnrh. og hv. þm. Friðriks Sophussonar, sem ég nefndi hér fyrr í ræðu minni, um að breytingin í hlutafélag væri aðeins nauðsynlegur áfangi á þeirri leið að koma Sementsverksmiðju ríkisins í hendur einkaaðila, og því miður óttast ég að sú sé meiningin með þessu frv., þá er nauðsynlegt að stöðva það með einhverjum ráðum, láta það daga uppi í nefnd eða fella það hér í hv. deild við síðari umræðu.