Sementsverksmiðja ríkisins
Þriðjudaginn 04. desember 1990


     Eiður Guðnason :
    Herra forseti. Aðeins örfá orð vegna þess sem hv. 8. þm. Reykv. sagði hér um almenningshlutafélög sem hann fór fögrum orðum um. Auðvitað vitum við það jafn vel, við báðir og allir sem hér eru inni, að raunveruleg almenningshlutafélög eru ekki til hér á Íslandi. Þótt almenningur hafi vissulega keypt hlutabréf í Eimskipafélagi Íslands á sínum tíma og í Flugleiðum, Loftleiðum og Flugfélagi Íslands á sínum tíma, þá vitum við hv. 8. þm. Reykv. það jafn vel að það eru örfáir og mjög stórir aðilar sem stjórna þessum fyrirtækjum. Og raunar á Eimskipafélag Íslands orðið mjög verulegan og kannski allt of stóran hluta í Flugleiðum. Þannig að ég held að við eigum að kalla hlutina réttum nöfnum. Almenningshlutafélög eru vissulega æskilegt fyrirbæri en það verða þá að vera raunveruleg almenningshlutafélög. Þessi ágætu fyrirtæki og um margt vel reknu og myndarlegu standa því miður ekki alveg undir því nafni. Um það hygg ég að við séum alveg sammála.
    Herra forseti. Varðandi það frv. sem hér er til umræðu hefur hv. 4. þm. Vesturl. Skúli Alexandersson flutt langa, ítarlega og yfirgripsmikla ræðu um málið, komið víða við og haft söguna að leiðarljósi. Það er áreiðanlega rétt sem hér hefur fram komið að það var skynsamleg ákvörðun og kannski óhjákvæmileg á sínum tíma að Sementsverksmiðjan væri ríkisfyrirtæki, það er áreiðanlega rétt. Það var líka á sínum tíma áreiðanlega rétt og skynsamlegt hjá útgerðarmönnum og fiskverkendum að reka sín fyrirtæki upp á eigin ábyrgð og ekki í neinu félagsformi frekar en þessi ríkisfyrirtæki okkar eru. Það var líka áreiðanlega rétt hjá útgerðarmönnum og fiskverkendum að breyta sínum fyrirtækjum, sínum verkunarstöðvum í hlutafélög, hvort sem þau heita Júpíter, Jökull, Grandi eða Samherji, þá var það áreiðanlega rétt ákvörðun og skynsamleg og í takt við tímann. Ég held sömuleiðis að það sé í takt við tímann og eðlileg og skynsamleg ákvörðun sem er meginefni þessa frv., þ.e. að breyta Sementsverksmiðju ríkisins í hlutafélag þar sem skýrt er fram tekið að öll hlutabréfin séu í eigu ríkisins og verði ekki boðin til sölu nema Alþingi samþykki það sérstaklega. Ég held að þetta sé tímabær og rétt ákvörðun nú vegna þess að staða þeirra ríkisfyrirtækja sem eru rekin með þessum hætti er óljós og hún er óviss með ýmsum hætti. Það eru t.d. ekki til nein lög um rekstur Sementsverksmiðju ríkisins. Það eru til lög um byggingu Sementsverksmiðju ríkisins. Þetta fyrirtæki á auðvitað að lúta sömu leikreglum og lögmálum og önnur fyrirtæki.
    Svo getum við líka haft það í huga, eins og hv. 8. þm. Reykv. nefndi, að öll þróun í veröldinni, ég tala nú ekki um í Evrópu allri, er í þá átt að breyta hreinræktuðum ríkisfyrirtækjum í hlutafélagaformið
og reka þau þannig eftir leikreglum markaðarins og þeirra fyrirtækja annarra sem þar eru. Mér finnst því hv. þingbróðir minn 4. þm. Vesturl. í rauninni vera nú kaþólskari en páfinn og rök hans öll ekki mjög þung á metunum.

    Hæstv. iðrnrh. hefur gert ítarlega grein fyrir efni þessa máls. Það hefur áður verið rætt og samþykkt hér í deildinni og sé ég því raunar ekki ástæðu til að fjalla ítarlega um efnisatriði málsins hvert fyrir sig en ítreka að það er tímabært að breyta ríkisfyrirtækjum í hlutafélagaform þannig að þau starfi á sama hátt og önnur fyrirtæki, hafi sama rétt og séu háð sömu takmörkunum. Ríkisprentsmiðjunni Gutenberg hefur þegar verið breytt í hlutafélag. Ég veit ekki annað en að það hafi orðið til góðs í þeim rekstri. Það má nefna fyrirtæki eins og Síldarverksmiðjur ríkisins. Það kann að hafa verið rétt og réttmætt að ríkið stæði í þeim rekstri á sínum tíma. Ég er ekki viss um að það sé ástæða til þess lengur.
    Ég held að það sé misskilningur hjá hv. 4. þm. Vesturl. að stjórnsýsla fyrirtækis verði eitthvað verri og þunglamalegri þó það starfi eftir reglum hlutafélaga. Ég held þvert á móti að starf stjórnarinnar yrði kannski með æskilegri hætti að ýmsu leyti. Við vitum það báðir, hv. þm., að stjórn Sementsverksmiðjunnar eins og nú háttar þarf um margt að hafa ekki bara samráð heldur njóta velvilja og skilnings hjá iðnrh. og iðnrn. vegna þess hvernig reglurnar um stjórn fyrirtækisins eru. Nú hefur þetta sem betur fer ævinlega verið í góðu lagi og ekki síst um þessar mundir. En það er ekkert sem segir að svo verði ævinlega.
    Mér fannst nokkurrar mótsagnar gæta hjá hv. þm. þegar hann sagði að Sementsverksmiðjan, orðrétt, með leyfi forseta, ,,var og er einokunarfyrirtæki``. En nefndi síðan vissulega að öllum er frjálst að flytja inn sement. Það er auðvitað alveg rétt og hefur verið í 15 ár eins og hann réttilega nefndi. En staðreyndin er sú að það borgar sig ekki. Þrátt fyrir það að á sement hér er lagt jöfnunargjald, sem gerir það að verkum að það er selt við sama verði um allt land, þá er hagkvæmni framleiðslunnar í það góðu horfi og verðlagningin með þeim hætti að sementsinnflutningur hefur ekki verið á dagskrá og er ekki að því er ég best veit vegna þess að verð innlendu vörunnar er lægra og gæði hennar eru óumdeild nú síðustu ár. Innflutningur á sementi á sér því ekki lengur stað nema í algerum undantekningartilvikum þar sem um er að ræða sérþarfasement, eins og vegna sérþarfa borgarstjórans í Reykjavík og ráðhússins. Þá var flutt inn svolítið magn af sementi sem var svo lítið að það borgaði sig ekki fyrir Sementsverksmiðju ríkisins að standa í þeirri framleiðslu. Allt virkjanasement er nú íslenskt og ekki annað vitað en að það hafi gefið góða raun og staðist fyllilega samkeppni við það sem áður var innflutt og væntanlega er það fram undan að sement verður í stórauknum mæli notað hér við virkjanagerð, í stíflugarða, með nýrri tækni þannig að enn mun þar aukast markaður fyrir þessa framleiðslu.
    Ég vík aftur að því, herra forseti, að í þessu frv. eru alveg skýr ákvæði um það að hlutabréfin eru í eigu ríkisins og verða ekki seld nema með leyfi Alþingis.     Það gætir mjög hræðslu, m.a. í þeirri ræðu sem hv. þm. Skúli Alexandersson flutti hér áðan, að steypustöðvar muni kaupa þessi hlutabréf verði þau til sölu boðin. Ég sé þetta fyrir mér alveg eins á annan

veg. Verði Sementsverksmiðjan hlutafélag þá er auðvitað ekkert því til fyrirstöðu að stjórn þess hlutafélags geti ákveðið að kaupa og reka steypustöðvar þyki það hagkvæmt. Og jafnvel byggingarfyrirtæki, vegagerðarfyrirtæki til útlagningar á steyptum vegum og því um líkt. Því skyldi það ekki geta gerst? Það er alveg jafnlíklegt og hitt. Raunar stendur hagur byggingariðnaðarins um þessar mundir ekki í þeim blóma að hann sé til stórræðanna líklegur í þessum efnum, því miður. Þar er flest á brauðfótum þessa daga en stendur vonandi til bóta.
    Allt er það rétt sem sagt hefur verið hér um tæknilegar endurbætur, umbætur og góðan rekstur á Sementsverksmiðjunni fram til þessa. Þar hefur verið staðið vel að málum og reksturinn gengið mjög vel. Sementsverksmiðjan, eins og önnur opinber fyrirtæki, er á þessu ári þjóðarsáttar háð takmörkunum á verðlagningu sem miðaðar voru við það að reksturinn stæði í járnum og aðeins rúmlega það. Nú hefur það hins vegar gerst á þessu ári vegna breytinga og þróunar í byggingariðnaði að sementssala hefur orðið minni en áætlanir stóðu til. Að vísu hefur nokkuð ræst úr núna þessar síðustu vikur vegna tíðarfars og hlýinda en samt er sala nokkuð undir áætlun enn sem komið er og breytist kannski ekki mikið úr þessu, en þó ekki eins mikið og horfði um tíma. Og vonir standa til að rekstur fyrirtækisins verði nokkurn veginn í járnum á þessu ári.
    Ég held að það sé rangt að ætla að það liggi eitthvað annað að baki flutningi þessa frv. en það sem sagt er. Ég held að það sé alrangt og vísa því á bug. Það er rétt að Akranesbær hefur notið góðs af þessu fyrirtæki á mjög margan veg. Margt af því hefur verið nefnt hér, eins og varðandi vatnsveitu og álagstoppa í raforkunýtingu sem hefur leitt til þess að orkuverð á Akranesi hefur verið mjög hagstætt.
    Ég ætla ekki að ræða sérstaklega þá breytingu sem hér er gert ráð fyrir varðandi aðstöðugjald og landsútsvar. Læt mér nægja að vísa til þess sem ráðherra sagði um það mál. Við það er í rauninni litlu að bæta. Auðvitað er það sjálfsagt að ný bæjarstjórn á Akranesi fái þetta frv. til athugunar og umfjöllunar. Það eru bara eðlileg vinnubrögð. En um þetta mál var býsna góð samstaða í þessari hv. deild í fyrra þegar það fór hér í gegn með einni smávægilegri og skynsamlegri breytingu. Og ég vona svo sannarlega að málið fái fljóta og greiða ferð í gegnum þessa hv. deild og þá nefnd sem um málið mun fjalla og þetta verði afgreitt vegna þess að ég held að þetta sé eðlileg breyting í takt við tímann og breyting sem kannski hefði átt að vera búið að gera fyrir löngu. Og það er eðlilegt að stíga þetta skref með þeim hætti sem nú er gert.
    Það getur vel verið að að því komi síðar að Alþingi telji rétt að selja einhvern hluta þessara hlutabréfa í verksmiðjunni eða öll. Það getur vel verið að sá tími komi. Ég ætla ekkert að neita því. Sá tími er ekki núna og ég er ekki tilbúinn til að styðja slíka ráðstöfun, enda felst það ekki í þessu frv. Ég lýsi stuðningi við málið og vona að það fái greiða afgreiðslu.