Sementsverksmiðja ríkisins
Þriðjudaginn 04. desember 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson :
    Herra forseti. Ég lagði spurningu fyrir hæstv. iðnrh. hér áðan. Hún var á þá leið hvort honum þætti ekki eðlilegt að það væri tekið mið af því við afgreiðslu þessa frv. sem við nú ræðum að það hefði orðið breyting á frá því að við ræddum þetta mál á síðasta þingi. Breyting á þann veg að síðan hafa verið samþykkt ný lög um tekjustofna sveitarfélaga þar sem lögð er sérstök áhersla á það að bæta dreifbýlissveitarfélögum upp þann skaða sem þau hefðu annars getað orðið fyrir við nýja verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
    Ég lagði áherslu á að það færi ekki vel saman að ríkisstjórnin sem bar fram frv. um þetta efni á síðasta þingi og fékk samþykkt beri nú fram annað frv. sem rýrir gildi þess ákvæðis. Ég bað um svar. Ég fékk ekkert svar en ég ætlast ekkert endilega til þess að við lengjum umræður um þetta mál hér því ef hæstv. ráðherra svarar þessu ekki þá hef ég tilhneigingu til þess að líta á þögn sem samþykki. Það þýðir að ég vænti þess að við getum verið sammála um það að sú þingnefnd sem tekur málið til athugunar athugi þetta sérstaklega.