Sementsverksmiðja ríkisins
Þriðjudaginn 04. desember 1990


     Skúli Alexandersson :
    Herra forseti. Þó mér virtist það þegar ég var að flytja ræðu mína hér áðan að hv. 2. þm. Norðurl. e. þætti nóg komið af umræðu um þetta mál, þá hefur hann nú komið hér í ræðustól og fjallað um eitt sérstakt málefni, sem er að vísu mjög mikilsvert og góð ábending. Ég gat ekki á mér setið að lengja þessar umræður pínulítið fyrst hv. þm. nefndi þetta sérstaka atriði, þ.e. tilnefningu í stjórn eða aðferðina við það að velja stjórn væntanlegs hlutafélags. Mér fannst ekki ástæða í sjálfu sér til að fjalla um það núna við 1. umr. hvernig framkvæmd á því yrði, en fyrst vakin var athygli á því þá held ég að það sé rétt.
    Ég hef nefnilega tilfinningu fyrir því að stjórnarfarslega ætti hæstv. fjmrh. að velja stjórn þessa fyrirtækis ef þetta frv. verður samþykkt. Það sé í verkahring fjmrh. að kalla til fulltrúa ríkisins í stjórn fyrirtækja sem ríkið á og það þurfi alveg sérstaka samþykkt til þess að breyta þessu stjórnsýslulega ákvæði. Þannig að
það getur verið fleira sem við þurfum að líta til, sem hv. þm. hafa búist við að lægi alveg í augum uppi. Það væri nú hæstv. iðnrh. sem ætti að tilnefna menn í stjórn. Getur verið að við þurfum að líta á hvort það falli ekki undir önnur ráðuneyti og kannski það sem hv. 2. þm. Norðurl. e. hefur bent á? Er það kannski ekki í sjálfu sér óeðlilegt að einn ráðherra hafi vald til þess að skipa stjórn hlutafélags sem eingöngu er í eigu ríkisins? Ég efast ekki um og er ekki hræddur um, hvort sem það yrði hæstv. núv. fjmrh. eða núv. iðnrh., að sú stjórn mundi ekki vera skipuð á svipaðan máta og gert hefur verið, þ.e. að stjórnmálaflokkarnir fengju að velja þó að síðan ráðherra skipaði. Ég held að það hafi verið vakin athygli á ákveðnum hlut sem beri að skoða í nefndinni, þ.e. hvort það ætti ekki að velja stjórnina á Alþingi eins og gert hefur verið, og svo á hinn veginn, ef meiri hl. Alþingis fellst ekki á það hvort það sé ekki í verkahring hæstv. fjmrh. en ekki iðnrh. að velja stjórnarmenn í fyrirtæki eins og væntanlegt, ef af yrði, hlutafélag um Sementsverksmiðju ríkisins.