Sala á Þormóði ramma
Þriðjudaginn 04. desember 1990


     Forseti (Árni Gunnarsson) :
    Forseti vill fara fram á það við hv. þingdeildarmenn að þeir fari ekki langt á næstu mínútum vegna þess að hér þurfa að fara fram margar atkvæðagreiðslur og er mjög æskilegt að þær nái fram að ganga í dag því að forseti hefur ekki hug á því að halda fund hér í deildinni nk. föstudag og óskar því eftir góðu samstarfi við hv. þingdeildarmenn svo að þingmál megi ná fram að ganga í dag og á morgun.
    Vegna fjölmargra fyrirspurna vill forseti einnig geta þess að mál hafa þróast svo varðandi umræður og atkvæðagreiðslur um bráðabirgðalög að það er fyrirsjáanlegt að nál. meiri og minni hl. hv. fjh. - og viðskn. muni koma fram á morgun hér í hv. deild og á fimmtudag er fyrirhugað að loknum fundi í Sþ. að umræður um bráðabirgðalögin hefjist á þann veg að fulltrúar minni og meiri hl. mæli fyrir nál. en síðan verði þeirri umræðu frestað og atkvæðagreiðslu fram á þriðjudag. Ástæðan fyrir þessu er sú að hæstv. forsrh. getur ekki verið viðstaddur hér umræður á fimmtudag en hann mun geta það eftir helgi, væntanlega þá á þriðjudag og þá mun umræðunni verða fram haldið. Þetta er gert í samkomulagi við bæði stjórnarflokka og stjórnarandstöðuflokka.