Ábyrgð gagnvart Norræna fjárfestingarbankanum
Þriðjudaginn 04. desember 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til umræðu fjallar um ábyrgð vegna norrænna fjárfestingarlána og var það flutt í Ed. og afgreitt þaðan samhljóða.
    Vegna aukinna umsvifa hefur ráðherranefnd Norðurlandaráðs samþykkt að hækka hámarksheimild Norræna fjárfestingarbankans vegna fjárfestingarlána til verkefna utan Norðurlanda og ábyrgð á slíkum lánum úr 700 millj. SDR í 1000 millj. SDR. Við þetta eykst ábyrgð Íslands vegna ofangreindrar verkefnastarfsemi úr 5 millj. 350 þús. SDR í 8 millj. 50 þús. SDR.
    Með frv. þessu er með sama hætti og áður leitað eftir lagaheimildum til að auka þessa ábyrgð. Á grundvelli slíkrar heimldar yrði síðan gerður nýr ábyrgðarsamningur milli Íslands og bankans.
    Í fskj. með frv. eru birtar breytingar á samþykktum fyrir bankann sem tengjast ofangreindri ábyrgðaraukningu eins og tvær aðrar breytingar.
    Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta frv. en óska eftir því að að lokinni 1. umr. verði því vísað til hv. fjh. - og viðskn.