Jöfnunargjald
Þriðjudaginn 04. desember 1990


     Flm. (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Það mál sem ég flyt hér framsöguræðu fyrir fjallar annars vegar um það að iðnfyrirtækjum verði greiddur aftur uppsafnaður söluskattur vegna reksturs á sl. ári og hins vegar um það að lögin um jöfnunargjald falli úr gildi hinn 31. des. 1990.
    Frá því að þessu frv. var dreift hefur það gerst að hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram frv. til breytinga á lögum nr. 78/1980, um jöfnunargjald, með áorðnum breytingum. Í því lagafrv. er gert ráð fyrir því að áfram verði innheimt jöfnunargjald. Það breytist um næstu áramót í 4% úr 5% og verði 4% til 1. júlí 1991, þá lækki það í 2% og hverfi síðan í lok næsta árs. Ástæðan er auðvitað sú að það er ekki heimilt fyrir Ísland að leggja á slíkt jöfnunargjald eftir að virðisaukaskattur var tekinn upp og samkeppnisstaða íslensku fyrirtækjanna hefur breyst.
    Munurinn á þessum tveimur frv. er sá að gert er ráð fyrir því í mínu frv. að lögin falli úr gildi strax um næstu áramót en samkvæmt stjfrv. um þarnæstu áramót.
    Þótt ekki sé til umræðu stjfrv. ber þó að geta þess, en það kom reyndar fram við umræður um fjáraukalög fyrr í dag, að nýr rökstuðningur kemur fram sem byggir á vinnuskjali frá Þjóðhagsstofnun þess efnis að óhagræði íslenskra fyrirtækja sé meira en áætlað var áður og þess vegna réttlætist að halda áfram að leggja gjald á innflutning til þess að jafna samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja gagnvart samkeppnisfyrirtækjum bæði í innflutningi og vegna útflutningsiðnaðarins.
    Það var athyglisvert fyrr í dag að hlusta á hæstv. utanrrh. viðurkenna það að hann teldi að jöfnunargjald í þeirri mynd sem það hefur verið heimt inn að undanförnu standist ekki þær skuldbindingar sem við höfum gengist undir í samskiptum okkar og samningum við aðrar þjóðir vegna viðskipta við þær, bæði EFTA-þjóðirnar og eins þjóðirnar í Evrópubandalaginu.
    Í grg. með þessu frv. er ítarlega rakin saga þessa máls og það er óþarfi að fara frekari orðum um hana en gert er þar enda var frv. flutt, að vísu í nokkuð öðrum búningi, á síðasta þingi. Þess ber þó að geta að málið hefur lítils háttar breyst vegna þess að þeir fjármunir, sem í húfi eru, eru meiri en álitið var á fyrri hluta ársins. Þá var gert ráð fyrir að það skorti um 170 millj. kr. til þess að standa undir endurgreiðslu uppsafnaðs söluskatts til iðnaðarins á sl. ári, en nú þegar endanlegar tölur liggja fyrir mun upphæðin vera nær 200 millj.
    Það er athygli vert, virðulegi forseti, að hæstv. viðskrh. sagði frá því á ársþingi iðnrekenda fyrr á þessu ári, nánar tiltekið 15. mars, að skuld ríkissjóðs væri 170 millj. kr. og hann sagði þá að hann mundi leggja til að þessir fjármunir yrðu endurgreiddir. En hann gat þess í umræðum um fjáraukalögin að hann hefði fallist á að ljúka málinu með því að greiða 160 millj. og þá standa út af tæpar 40 millj. miðað við nýjustu áætlanir. Þannig ætlar hæstv. ríkisstjórn ekki einungis að svíkja marggefin loforð um að hætta að innheimta jöfnunargjaldið um leið og virðisaukaskattur er tekinn upp heldur einnig loforð sem gefin voru iðnfyrirtækjunum á sínum tíma um það að hæstv. ríkisstjórn skyldi láta ákveðinn hluta gjaldsins renna til endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti.
    Í trausti þess, virðulegi forseti, að hv. fjh.- og viðskn., sem fær þetta mál til meðferðar ásamt stjfrv., skoði málið og kalli til sín viðkomandi aðila og sannfærist um að það sem lagt er til í þessu frv. sé betra en hitt sem kemur fram í stjfrv., sé ég ekki ástæðu til að hafa þessi orð öllu fleiri. Mér er kunnugt um það að hæstv. iðnrh. er ekki staddur í deildinni og geri engar kröfur til þess að tala við hann, ég hef talað alveg nóg við hann í dag og kæri mig ekkert um að fá hann í deildina til að ræða frekar við hann um þetta mál, til þess gefst tækifæri síðar. Ég á sæti í viðkomandi nefnd og get þess vegna fylgt þessu máli eftir á þeim vettvangi.
    Að svo mæltu legg ég til að þetta frv. verði sent til fjh.- og viðskn.