Fjáraukalög 1990
Þriðjudaginn 04. desember 1990


     Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. á þskj. 218 við það frv. sem hér er til umræðu. Þessar brtt. voru fluttar, lagðar fram og fyrir þeim mælt við 2. umr. málsins en áður en til atkvæðagreiðslunnar kom kaus ég að kalla þær aftur. En nú legg ég þær fram á nýjan leik við 3. umr. málsins vegna þess að ég taldi ástæðu til þess að hæstv. utanrrh. og hæstv. iðnrh. fengju tækifæri til þess að leggja hér orð í belg og segja sinn hug í þessu máli.
    Í mjög stuttu máli skal ég rifja nokkur aðalatriðin upp. Í fyrsta lagi ber að rifja það upp að hinn 1. maí 1989 gaf hæstv. ríkisstjórn, með bréfi hæstv. forsrh. til Vinnumálasambands samvinnufélaganna og Vinnuveitendasambands Íslands, út það loforð að hætta skyldi innheimtu á jöfnunargjaldi frá þeim tíma sem virðisaukaskatturinn yrði tekinn upp. Það yrði að vísu hækkað um 60% til þess tíma, eða úr 3% í 5%, en síðan yrði það fellt niður. Þegar virðisaukaskattur var lagður á var gert ráð fyrir tekjutapinu í virðisaukaskattsprósentunni. Tekjutapið vegna jöfnunargjaldsins gerði ríkissjóði ekkert til því það var samþykkt hér á hinu háa Alþingi að tillögu hæstv. ríkisstjórnar að hafa prósentuna á virðisaukaskattinum með þeim hætti að ríkissjóður tapaði ekki tekjum vegna niðurfellingar jöfnunargjaldsins.
    Ég tek það síðan fram að allt frá upphafi, a.m.k. í einn áratug, hefur stór hluti gjaldsins farið í að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt iðnfyrirtækja samkvæmt reikningum fyrirtækjanna. Ég undirstrika --- samkvæmt reikningum fyrirtækjanna, vegna þess að það er allt annað kerfi sem er í gangi þegar um sjávarútveginn er að ræða. Má segja að endurgreiðsla á uppsöfnuðum söluskatti í sjávarútvegi sé af allt öðrum toga og ekki sambærileg ákvörðun á sínum tíma.
    Þessi ráðstöfun, sem hófst seint á áttunda áratugnum, átti sér rætur í þeim sannindum að Íslendingar höfðu þá ekki tekið upp sams konar söluskattskerfi og var við lýði víðast hvar í Evrópu og það gerði það að verkum að samkeppnishæfni íslensku fyrirtækjanna sem voru í útflutningi eða samkeppni við erlendar greinar var mjög slæm. Þess vegna leiðst okkur það, þrátt fyrir samninga, bæði við Evrópubandalagið og auðvitað þann samning sem við höfðum undirritað og tekið þátt í á grundvelli EFTA-samkomulagsins, að leggja á jöfnunargjaldið.
    Nú víkur að því að samþykkt var frv. til fjárlaga fyrir tæpu ári síðan. Í því frv. var, þrátt fyrir fyrri loforð hæstv. ríkisstjórnar um að fella niður jöfnunargjaldið, gert ráð fyrir tekjum upp á 500 millj. kr. Það var síðan skýrt út að ástæðan fyrir því að þessi tala var sett inn í fjárlögin var sú að áætlað var að heimta inn þetta gjald í hálft ár. Kom það m.a. fram í ræðu hæstv. iðnrh. Með öðrum orðum, hæstv. ríkisstjórn ákvað að svíkja það loforð sem hún hafði gefið hálfu ári áður og lagði á jöfnunargjald um tímabundið skeið. Nú leið og beið fram á árið og ekki bólaði á því frv. sem Alþingi beið eftir, þ.e. frv. sem breytti lögunum um jöfnunargjald á þann veg að óheimilt

væri að heimta inn gjaldið. Sú ákvörðun, og ég segi og legg áherslu á það, að það var sjálfstæð ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar að halda áfram innheimtu gjaldsins. Þetta var til umræðu í hæstv. ríkisstjórn og það var niðurstaða hæstv. ríkisstjórnar að halda áfram að heimta inn gjaldið. Þetta hefur leitt til þess að sjálfsögðu að það innheimtist helmingi meira gjald í ríkissjóð en fjárlögin gerðu ráð fyrir. Það er þess vegna, virðulegi forseti, sem samkvæmt öllum almennum reglum hlýtur að vera rétt að flytja fyrri hluta brtt. en hún er á þá leið að breyta tekjuáætlun fjárlaga með þeim hætti að í stað 500 millj. kr. sem eru á fjárlögum yfirstandandi árs komi talan 960 millj. kr. en sú tala er það sem fjmrn. gefur upp að innheimtast muni á yfirstandandi ári þar sem hæstv. ríkisstjórn hafi ákveðið að heimta gjaldið allt árið. Og það er ekki nægilegt, virðulegi forseti, og krefst kannski úrskurðar af hálfu forseta, ég skal ekki um það fjalla, að segja að þetta felist inni í áætlunartölunni sem birt er í tekjuáætlun fjáraukalagafrv., einfaldlega vegna þess að það er munur á áætlunum, sem síðan reynast vera rangar vegna þess að verðlagsbreytingar eða einhverjar aðrar almennar breytingar hafa átt sér stað, og hinu að það er sjálfstæð ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar að breyta tekjuáætlun en fylgja ekki sínum fyrri samþykktum. Á þetta legg ég áherslu. Og að þessu lýtur fyrri hluti tillögu minnar.
    Þá kem ég að síðari hlutanum en hann fjallar um endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti vegna rekstrar á sl. ári. Ég vil fyrst rifja það upp að hæstv. ríkisstjórn lofaði í viðtölum við fulltrúa iðnaðarins að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt. Þetta var gert haustið 1989, fyrir rúmu ári síðan. Það loforð hugðist hæstv. ríkisstjórn efna með því að setja inn ákveðna tölu í fjáraukalög sem voru til umræðu og afgreiðslu á hinu háa Alþingi fyrir u.þ.b. ári síðan. Það voru settar inn, ef ég man rétt, 390 millj. kr., ég verð þá leiðréttur ef ég fer ekki rétt með. Hluti af þeirri upphæð fór til iðnaðarins, ef ég man rétt 100 millj. kr., til þess að standa undir endurgreiðslu ríkissjóðs til iðnaðarins vegna uppsafnaðs söluskatts. Þegar líða tók á yfirstandandi ár kom í ljós að þessi upphæð dugði ekki, dugði reyndar engan veginn. Í áætlunum iðnrn. í mars á þessu ári kom í ljós að talið var að vöntunin væri 170 millj. kr. til iðnaðarins. Og það var einmitt þá sem hæstv. iðnrh. fór á ársfund iðnrekenda, flutti þar ræðu og sagði frá því að það vantaði 170 millj. kr. Hann orðaði það á þessa leið, með leyfi forseta, þetta var hinn 15. mars á þessu ári: ,,Frá upptöku virðisaukaskatts um síðustu áramót heyrir uppsöfnun söluskatts í aðfangakostnaði iðnfyrirtækja sögunni til. Í fjárlögum fyrir árið 1990 er því ekki gert ráð fyrir neinni fjárveitingu til endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti í iðnaði. Jafnframt hefur verið gert ráð fyrir því að 5% jöfnunargjald á innfluttar iðnaðarvörur verði fellt niður frá miðju þessu ári.`` --- Síðan bætti hæstv. ráðherra við: ,,Því er hins vegar ekki að neita að sú fjárhæð sem ákveðin var með fjáraukalögum á síðasta ári til að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt í iðnaði vegna framleiðslu á árinu 1989

hrekkur ekki til. Samkvæmt áætlununum gæti fjárvöntunin numið allt að 170 millj. kr.``
    Síðan hélt hæstv. ráðherra áfram, ræddi nokkuð um erfiðleikana sem við væri að etja í ríkisfjármálum en sagði síðan orðrétt í sinni ræðu, með leyfi forseta: ,,Það er í fullu samræmi við lögin um jöfnunargjaldið, sem enn eru í gildi og ákveða að hluta af tekjum af því skuli varið í þágu iðnaðarins,`` --- þ.e. að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt til iðnaðar, og bætti síðan við: ,,Ég hef undirbúið um þetta tillögu sem ég mun leggja fram í ríkisstjórn á morgun.`` --- ,,Á morgun`` var 16. mars á yfirstandandi ári.
    Þetta mál var síðan til umræðu oftar en einu sinni hér á hinu háa Alþingi á vorþinginu, einna mest þó þegar fjáraukalög voru afgreidd. Ég flutti þá samsvarandi brtt. og ég flyt nú í dag, nema þá gerði ég ráð fyrir því að jöfnunargjaldið yrði fellt niður eftir sjö mánuði.
    Hæstv. iðnrh. fór þá fram á það að þessar tillögur yrðu kallaðar aftur til þess að honum gæfist ráðrúm innan hæstv. ríkisstjórnar til að vinna þessu máli fylgi með þeim hætti að hægt væri að endurgreiða söluskattinn með eðlilegum aðferðum.
    Nú er ljóst, virðulegi forseti, eftir margra mánaða bið hjá iðnfyrirtækjunum að hæstv. ríkisstjórn hefur komist að þeirri niðurstöðu að aðeins eigi að greiða hluta af uppsöfnuðum söluskatti aftur til iðnfyrirtækja. Það á sem sagt að hætta við að greiða uppsafnaðan söluskatt vegna desembermánaðar á sl. ári. Og að því er manni skilst mun ástæðan fyrir þessari skerðingu vera sú að hæstv. ríkisstjórn hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki væru tök á því að endurgreiða þennan söluskatt vegna þess að þá yrði hún jafnframt að endurgreiða hann til sjávarútvegsins.
    Nú er ólíku saman að jafna, virðulegi forseti, vegna þess að endurgreiðsla uppsafnaðs söluskatts í iðnaði hefur ávallt verið tekin af jöfnunargjaldinu. Slíku gjaldi er ekki til að dreifa í sjávarútvegi.
    Jafnframt minni ég á að endurgreiðsla á uppsöfnuðum söluskatti í iðnaði hefur ávallt farið fram á grundvelli bókhalds fyrirtækjanna en ekki með þeirri pólitísku aðferð, sem ég leyfi mér að nefna svo, sem á við sjávarútveginn, sem er allt annars eðlis.
    Mér fannst, virðulegi forseti, nauðsynlegt hér við 3. umr. að fá spurningum svarað. Í fyrsta lagi vil ég beina máli mínu til hæstv. iðnrh. og spyrja hann að því hvort þessi niðurstaða hafi verið sú sem hann hafi óskað eftir í hæstv. ríkisstjórn. Hvort þetta séu efndir á því sem hann sagðist ætla að gera á ársfundi Félags ísl. iðnrekenda og hvort hann sé sáttur við þessa niðurstöðu. Jafnframt vil ég varpa þeirri fyrirspurn til hæstv. utanrrh., sem ég reyndar hef gert þrívegis, einu sinni á þskj. sem því miður var ekki hægt að svara vegna þess að þingi var slitið áður en til þess kom, og síðan tvívegis með bréfi til hæstv. ráðherra sem ég veit ekki hvort hefur ratað alla leið. Spurningin er ekki flókin, hún fjallar um það hvort hæstv. utanrrh. telji að hægt sé, vegna samninga sem við höfum gert við aðrar þjóðir, viðskiptaþjóðir okkar, að innheimta jöfnunargjaldið með þeim hætti sem við höfum gert út

þetta ár og nú, eins og ráðgert er, fram á hið næsta. Ég hef kynnt mér þau rök sem koma fram í frv. um jöfnunargjald sem liggur fyrir hv. þingdeild og verður til umræðu síðar í dag á deildarfundi sem haldinn verður að loknum þessum fundi hér. Það er ekki hægt að skjóta sér á bak við það sem þar stendur, það er annars eðlis og þarf auðvitað að rannsaka það hvort það er rétt. Sé rétt sem þar kemur fram, þá hefur alla tíð verið vanreiknað það óhagræði sem Íslendingar hafa orðið fyrir vegna mismunandi skatta og annarra reglna sem gilda hér heldur en eru í gildi meðal annarra viðskiptaþjóða þar sem fyrirtæki starfa sem eru í samkeppni við íslensk fyrirtæki.
    Ég taldi eðlilegt, virðulegi forseti, þótt ég viti að síðar gefist tækifæri til að ræða þetta mál miklu nánar, að um leið og við afgreiðum fjáraukalögin fái hæstv. ráðherrar tækifæri til þess að tjá sig, ekki síst vegna forsögu málsins, en um þetta mál var rætt verulega þegar síðast stóð yfir afgreiðsla um fjáraukalög á vorþinginu. Reyndar var nú ein aðalástæðan sem þá var vitnað til sú að heiti laganna þá væri með þeim hætti að það væri illmögulegt að troða þessu inn í þau lög. Það vildi svo til síðar í umræðunni að fram kom tillaga um að breyta heiti laganna þannig að út féll það sem var í fyrirsögninni, þ.e. að fjáraukalögin væru eingöngu vegna samninganna sem gerðir voru á sl. vori. Þetta var látið falla niður, m.a. vegna þess að fjáraukalögin tóku til fleiri atriða. Þetta er að sjálfsögðu annað mál en ég rifja þetta upp af því að þetta voru kannski viðamestu rökin fyrir því sem kom fram þá í þessu máli.