Fjáraukalög 1990
Þriðjudaginn 04. desember 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Vegna ræðu sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson flutti áðan vil ég taka undir með honum að það er alveg rétt að það þarf að bæta mjög eftirlit með sjóðvélum og öðrum þeim tækjum sem notuð eru til að tryggja skil á virðisaukaskatti. Vandinn er sá að í gildandi lögum eru ekki heimildir til þess að grípa til aðgerða ef þessum reglum er ekki fylgt. Hins vegar er verið að smíða frv.
þar sem farið er fram á slíkar heimildir. Ég mun á ríkisstjórnarfundi n.k. föstudag leggja fram slíkt frv. Það á að tryggja að þeir aðilar sem eru skyldaðir samkvæmt núgildandi reglugerð að hafa sjóðvélar þurfi að gera það og hægt sé að grípa til viðhlítandi ráðstafana ef það er ekki gert. Þetta mál hefur verið í undirbúningi núna í nokkurn tíma í kjölfar á könnun sem framkvæmd var af skattrannsóknastjóraembættinu í sumar.
    Vegna tillögu frá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni vil ég beina þeim tilmælum til hans að þetta mál verði tekið til skoðunar við afgreiðslu fjárlaga. Styrkur til einstakra félagasamtaka er eðli málsins samkvæmt mál til þess að fjalla um við afgreiðslu fjárlaga. Þau gögn hafa ekki komið sem þyrftu að koma frá þessum samtökum til þess að geta tengt það afgreiðslu annarra hliðstæðra mála. Ég held að það væri vænlegra að gera það við afgreiðslu fjárlaga en gera það hér vegna þess að þeirri reglu hefur verið fylgt við fjáraukalögin að taka ekki inn í þau beiðnir frá einstökum samtökum sem samkvæmt venju eiga betur heima við afgreiðslu fjárlaga sem fara mun fram hér innan þriggja vikna. Ég vil þess vegna beina þeim tilmælum til hv. þm. Stefáns Valgeirssonar hvort hann getur ekki sæst á það að bæði fjvn. og viðkomandi ráðuneyti skoði þetta mál vandlega fram að afgreiðslu fjárlaga.