Fjáraukalög 1990
Þriðjudaginn 04. desember 1990


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
     Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Reykv. beindi til mín fyrirspurn vegna álagningar jöfnunargjalds og spurði hvort ég teldi áframhaldandi álagningu og innheimtu þessa gjalds til loka árs 1990 samrýmast skuldbindingum okkar samkvæmt fríverslunarsamningum EFTA-ríkjanna og fríverslunarsamningi við Evrópubandalagið. Svar mitt er þetta:
    Álagning jöfnunargjalds átti að vera tímabundin ráðstöfun og því var yfir lýst af okkar hálfu að það yrði lagt af þegar virðisaukaskattur kæmi til framkvæmda. Mitt sjónarmið hefur því verið það að beita mér af nokkurri hörku fyrir afnámi jöfnunargjalds. Það er rétt sem fram kom í máli hv. 1. þm. Reykv. að við afgreiðslu fjárlaga yfirstandandi árs var ráð fyrir því gert að jöfnunargjald yrði innheimt á fyrri hluta ársins en hins vegar var ekki flutt frv. um afnám þess heldur gjaldið innheimt áfram.
    Á þessu ári hafði náðst um það niðurstaða í ríkisstjórn að gjaldið skyldi aflagt í óbreyttu formi en í staðinn átti að kanna betur heimildir sem samræmdust fríverslunarsamningum um upptöku innflutningsgjalda með öðrum hætti.
    Samtök iðnaðarins, Félag ísl. iðnrekenda, hefur beitt sér mjög í þessu máli og hélt fram þeim rökum að samkeppnisóhagræði íslensks iðnaðar væri meira en áður hefði verið áætlað og hélt því fram að eðlilegt væri að taka tillit til þess og þar með að gefa iðnaðinum einhvern aðlögunartíma áður en gjaldið yrði lagt af. Þau gögn og þeir útreikningar sem Félag ísl. iðnrekenda lagði fram í þessu máli voru að sjálfsögðu vandlega skoðaðir. Niðurstaðan varð sú að Þjóðhagsstofnun var falið að leggja á það hlutlægt mat hvort þetta væru frambærileg rök sem stæðust gagnrýna skoðun samningsaðila okkar gagnvart fríverslunarsamningum. Niðurstaða Þjóðhagsstofnunar er sú að uppsöfnunaráhrifa söluskatts í rekstrarkostnaði iðnaðar gæti enn þrátt fyrir það að við höfum tekið upp virðisaukaskatt um sinn. Í fyrsta lagi vegna fasteigna sem til komu fyrir upptöku virðisaukaskatts. Í öðru lagi vegna viðhalds og endurbóta véla. Og í þriðja lagi vegna flutningatækja.
    Þjóðhagsstofnun hefur lagt mat á hversu mikil þessi áhrif eru og samkvæmt niðurstöðum hennar er áætlað að uppsafnaður söluskattur hafi numið 5,6% af framreiknuðu stofnverði rekstrarfjármuna í iðnaði miðað við árslok 1989. Það má líka geta þess að aðstöðugjald skekkir einnig samkeppnisstöðu iðnaðar þar sem m.a. er um að ræða gjald á rekstrarkostnað en slíkt þekkist ekki í samkeppnislöndum.
    Niðurstaðan varð sú að taka þessa útreikninga gilda og af því leiddi að ákveðið var að niðurfelling 5% jöfnunargjalds skyldi verða í áföngum. Þess vegna höfum við lagt til að gjaldið verði 4% frá næstu áramótum og 2% frá byrjun júlí og falli síðan niður í árslok 1991. Þetta mun jafngilda að mati Þjóðhagsstofnunar um 3% jöfnunargjaldi að meðaltali á árinu.
    Með því að gjaldið fellur síðan niður endanlega, að

loknum aðlögunartíma fyrir íslenskan iðnað samkvæmt þessum rökum, er það mín niðurstaða að skuldbindingum okkar gagnvart EFTA-ríkjum og EB verði fullnægt, enda leiki nú ekki nokkur vafi á því að gjaldið verði afnumið.