Fjáraukalög 1990
Þriðjudaginn 04. desember 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil nú fyrst byrja á því að leiðrétta það sem kom fram hjá hv. 1. þm. Reykv. Hann virðist álíta að endurgreiðslukröfur frá iðnfyrirtækjunum á söluskatti samkvæmt því kerfi sem gilti fram til loka árs 1989 væru byggðar á bókhaldi fyrirtækjanna, eins og hann orðaði það. Það er ekki rétt. Það er þannig að endurgreiðslan er byggð á hlutföllum af sölu. Í hverri grein eru hlutföllin metin af Þjóðhagsstofnun. Það er ekki safnað saman tölum um raunverulegar söluskattsgreiðslur fyrirtækjanna. (Gripið fram í.) Ég svara þessu skýrt, virðulegur þingmaður. Það er ekki rétt sem hv. þm. hélt hér fram. Það breytir því hins vegar ekki að þessi tilhögun á sér langa hefð og er miklu snarari þáttur í rekstrarskilyrðum iðnaðarins en sjávarútvegsins og að því leyti hafði hv. 1. þm. Reykv. rétt fyrir sér. En réttlætingin fyrir því að ljúka málinu með því sem ég vil kalla eftir atvikum sanngjarnri lokagreiðslu eftir meira en áratugs endurgreiðslur á söluskattinum er það, sem ég tel ótvírætt, að fyrir mörg iðnfyrirtæki var breytingin þegar virðisaukaskatturinn leysti söluskattinn af hólmi jákvæð breyting og í sumum greinum skilaði hún þegar verulegum bótum í rekstrarskilyrðunum. Það eimir að vísu enn eftir af skattinum í fjármagnskostnaði nokkurra greina, eins og hæstv. utanrrh. vék hér að. En það er nú einfaldlega þannig, eins og ég er sannfærður um að hv. 1. þm. Reykv. skilur ef hann hugsar sig betur um, að það þarf að virða fjárhagslegar takmarkanir, líka þegar um æskileg málefni er að ræða. Það á við hér. Málinu er lokið með sanngjörnum hætti.