Jarðalög
Miðvikudaginn 05. desember 1990


     Friðjón Þórðarson :
    Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breyting á jarðalögum. Flm. eru tveir hv. þm. Sjálfstfl., 17. þm. Reykv. og 1. þm. Reykv.
    Það segir að frv. geri ráð fyrir því að gerðar verði tvær meginbreytingar á jarðalögum, annars vegar að úr lögunum falli brott að ekki megi selja eða ráðstafa á annan hátt fasteignaréttindum utan skipulagðra þéttbýlissvæða nema með samþykki sveitarstjórnar og jarðanefndar. Hins vegar að niður falli forkaupsréttur sveitarfélaga við sölu fasteignaréttinda.
    Ég vil geta þess strax að ég held ég megi fullyrða að um þetta frv. séu skiptar skoðanir í þingflokki Sjálfstfl. Er það ekki í frásögur færandi í sjálfu sér vegna þess að í þeim flokki gildir sú regla að þingmönnum er yfirleitt heimilt að viðra sín hugsjónamál og flytja þau í frumvarpsformi eða á annan veg. Þá taka þeir þá áhættu að sæta andmælum af hálfu sinna flokkssystkina. Og ég ætla að leyfa mér að andmæla þessu frv.
    Það er rétt að það er ekki æskilegt að gera allt of miklar takmarkanir á eignarréttinum. Hér vísa flm. í 67. gr. stjórnarskrárinnar sem allfræg er að sjálfsögðu og oft til hennar vitnað, en hún segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.``
    Þetta lætur nú allt saman kunnuglega í eyrum og er gott og blessað. En sannleikurinn er sá að frá fornu fari hefur þótt nauðsynlegt að gera ýmsar almennar takmarkanir á eignarréttinum og er það ekki sérstaklega í frásögur færandi. Í íslenskri löggjöf eru fjöldamargar almennar takmarkanir á eignarréttinum sem taldar eru meira og minna sjálfsagðar.
    Ég leyfi mér að fullyrða að ef þessar reglur hefðu ekki verið í jarðalögum þá væri öðruvísi um að litast víða nú í sveitum landsins. Það mikla reynslu hef ég af þessu. Á hinn bóginn er það svo að ákvæði af þessu tagi, svo sem forkaupsréttur og önnur slík, geta verið tvíeggjuð ef þeim er beitt í algjöru tillitsleysi hvernig sem á stendur og má svo raunar segja um mjög mörg lagaákvæði.
    Það er álit flm. að þeirra sögn að umrædd ákvæði um samþykki sveitarstjórnar og jarðanefndar svo og um forkaupsrétt sveitarfélaga dragi úr áhuga manna á því að leita eftir kaupum á fasteignum til sveita. Það má vera að svo sé. Það er einnig getið um það í grg. að á undanförnum árum hafi mjög aukist áhugi þéttbýlisbúa á því að koma upp aðstöðu til útivistar og orlofsdvalar til sveita. Þetta er bæði rétt og sjálfsagt. Ef við t.d. förum í smáferð um Vesturland þá er ekki að sjá, ef menn litast um, að það hafi verið lagður steinn í götu þeirra þéttbýlisbúa sem viljað hafa koma sér upp aðstöðu þar, þar sem stórar jarðir hafa verið lagðar undir sumarhús og annað eftir því. Ég segi fyrir mig að ég tel alveg sjálfsagt fyrir þá sem búa úti á landsbyggðinni að fagna því að fá borgarbúa til að setjast þar að með einhverju móti. Hitt er annað að

það er ekki sama með hvernig hugarfari menn koma úr þéttbýlisstöðum og vilja helga sér staði úti um sveitir landsins. Það er líka til í dæminu að braskarar af ýmsum toga kaupi upp jarðir, hirði ekkert um þær, hlaði á þær veðskuldum og hlaupi svo burt með allt á hælum sér. Um þetta þekkjum við dæmi. En því ber svo sannarlega að fagna ef þéttbýlisbúar flytjast að einhverju eða öllu leyti út í byggðir landsins og láta þar góð mál til sín taka.
    Í grg. er minnt á einn lið í stefnuyfirlýsingu og starfsáætlun ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar frá 8. júlí 1987 sem lýtur að endurskoðun jarðalaga. Þar segir að jarðalögin verði endurskoðuð í því augnamiði að auðvelda eigendaskipti á bújörðum. Það er alveg rétt að það hefur á undanförnum árum verið áhyggjuefni manna eftir því sem jarðir hafa vaxið í verði hvernig mætti auðvelda eigendaskipti að þeim. En ég hygg að þetta ákvæði sem þarna er tíundað lúti að því að ekki hefur verið ýkja auðvelt að útvega sér lánsfé til þess að kaupa jarðir. Þó að Stofnlánadeild landbúnaðarins hafi veitt lán í þessu skyni þá hafa þau yfirleitt verið allt of lág miðað við verð jarða sem búið er að framkvæma mikið á.
    Ég ætla nú ekki að fara að vera svo nákvæmur eins og hv. 17. þm. Reykv. sem hafði framsögu fyrir þessu máli að tíunda hverja einstaka grein og rekja hana sundur og saman ef svo má segja. Ég vildi bara vekja athygli á þessu máli, að hér skuli menn staldra við, athuga hvað hér er að gerast ef þessi ákvæði verða felld úr gildi. Það má vel vera að það þurfi að líta á þetta og e.t.v. haga þessu með einhverjum öðrum hætti. En það er útilokað að mínum dómi að nema þessi ákvæði úr lögum að öllu leyti.
    Þetta frv. fer að sjálfsögðu til landbn. Ég hélt að það þyrfti ekki miklar vangaveltur um það. Frv. af þessu tagi hafa yfirleitt farið til þeirrar nefndar og veit ég að svo verður að þessu sinni og vænti þess að um þetta frv. verði fjallað vel og vandlega.