Jarðalög
Miðvikudaginn 05. desember 1990


     Stefán Valgeirsson :
    Herra forseti. Þetta frv. er nú
gamall kunningi. Ég held að þær skoðanir og tillögur sem hér eru á blað settar hafi komið fram strax þegar jarðalögin voru sett og oft eftir það. En ég skildi hv. 1. flm. á þá leið að hann væri ókunnugur öllum þessum málum og þyrfti nú að fara í tíma til að skilja þetta og vita hvernig á því stendur að lögin eru með þeim hætti sem þau voru afgreidd og hvers vegna staðið hefur verið á móti svona breytingum.
    Víða á landinu er það á þann veg að ef jarðir fara í eyði eða eru teknar til annarra nytja en búrekstrar getur hrikt í allri byggðinni. Þess vegna er auðvitað nauðsynlegt að heimaaðilar, sveitarstjórnir og jarðanefndir, hafi eitthvað um þau mál að segja. Þegar menn eru að tala um frelsi og hampa frelsi í þessu sambandi, þá er það nú dálítið einkennileg kenning því ef þetta frv. væri samþykkt eins og það er mundi það þýða ófrelsi í ýmsum byggðum, þ.e. það gæti orðið þannig að menn yrðu að hætta búskap ef t.d. góðar jarðir væru teknar undir sumarbústaði eða fyrir hrossabændur sem hefðu það bara að sporti og væri ekki búið á þessum jörðum nema að litlu leyti. Það eru þannig byggðarlög, --- ég heyri að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir er að biðja um orðið. Ég man eftir því að við höfum átt orðaskipti um þessi mál áður. Ég ætla ekkert að draga undan að hún hefur ekki nægilega þekkingu á þessu máli en hún þekkir náttúrlega aftur annað, að menn hér í borginni t.d. eru að sækjast eftir þessum jörðum. Og það er málið. Ég ætla bara að lýsa algerri andstöðu minni við þetta frv. eins og ég hef gert oft áður af þeim ástæðum sem ég hef hér fram borið.