Jarðalög
Miðvikudaginn 05. desember 1990


     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á jarðalögum og eru flm. hv. 1. og 17. þm. Reykv. Mér finnst athyglisvert að það skuli vera þingmenn Reykjavíkur sem flytja þetta frv. í ljósi ýmissa mála sem upp hafa komið á síðustu árum varðandi jarðir í nágrenni Reykjavíkur.
    Mínar athugasemdir varðandi frv. lúta fyrst og fremst að forkaupsrétti sveitarfélaga við sölu fasteignaréttinda innan lögsögu sveitarfélagsins. Ætli nokkurt sveitarfélag þekki betur gildi þess að sá forkaupsréttur hefur verið í lögum en Kópavogur og þá bæjarfulltrúar þess sveitarfélags?
    Í greinargerð með frv. kemur fram að sú kvöð að afla þurfi samþykkis sveitarstjórnar og sérstakrar jarðanefndar fyrir sölu á jörð eða annarri sambærilegri ráðstöfun fasteignaréttinda sé óeðlileg hindrun í vegi fyrir því að menn fái neytt þess sjálfsagða réttar að ráðstafa eign sinni að vild. Þá kemur einnig fram að fyrrgreindir aðilar hafi ekki áþreifanlegri viðmiðun að fara eftir en hvort ráðstöfunin teljist andstæð hagsmunum sveitarfélagsins. Eins og fyrr segir eru mínar athugasemdir einmitt um þessa hagsmuni sveitarfélagsins.
    Verði þetta frv. að lögum tel ég að það geti valdið miklum vanda í þéttbýlum sveitarfélögum þar sem byggð nálgast lönd í einkaeign, lönd sem eru innan lögsagnarumdæmis sveitarfélagsins en liggja jafnframt vel að byggð nágrannasveitarfélags. Í Kópavogi hafa þær þrjár jarðir sem liggja að byggð og voru á sínum tíma framtíðarbyggingarlönd, ég segi á sínum tíma þar sem byggð er nú að hefjast á einni þeirra, allar á aðeins einum áratug tengst áformuðum kaupum annarra aðila en sveitarfélagsins á hverri þeirra um sig með þeim þrýstingi sem það olli á viðkomandi bæjaryfirvöld að fara í ótímabær jarðakaup. Það efast enginn um það sem þekkir til sveitarstjórnarmála hve þýðingarmikið það er fyrir sveitarfélag að hafa umráð yfir þeim löndum sem byggja á í framtíðinni. En færri hugsa út í hve erfitt það getur reynst að verða að leysa framtíðarbyggingarlönd til sveitarfélagsins oft áratugum áður en þau munu koma í byggð og fara að skila arði. Ég veit að fyrir stærsta sveitarfélagið eru mörg þau jarðaverð smápeningar sem eru þung byrði fyrir grannann.
    Virðulegi forseti. Leyfist mér í stuttu máli að rekja aðstæður þeirra þriggja jarðakaupamála sem ég áður nefndi. Fyrir einum áratug var jörðin Fífuhvammur boðin bæjaryfirvöldum í Kópavogi til kaups. Mikill ágreiningur var um málið í bæjarstjórn og deildar meiningar um kaupin þar sem jörðin Smárahvammur kæmi fyrr í byggð sökum legu sinnar og byggð í Fífuhvammi yrði naumast á dagskrá næstu 15 árin. Þá var því blákalt haldið fram af hagsmunaaðilum að jörðin yrði keypt til Reykjavíkur ef Kópavogur neytti ekki réttar síns. Þrátt fyrir að við slíka sölu héldi jörðin áfram að vera innan lögsögu Kópavogs óttuðust margir að seinna meir mundi það nást fram að hv. Alþingi mundi breyta lögsögumörkum sveitarfélaganna ef Kópavogur neitaði kaupum á þessum tíma og

jörðin yrði seld til Reykjavíkur. Við slíka sölu og ef byggt hefði verið á jörðinni á vegum Reykjavíkur hefðu efri svæði Kópavogs lokast af þar sem jörðin Fífuhvammur liggur milli Breiðholts og Vífilsstaða og hluti Seljahverfis reyndar byggt á skika jarðarinnar. Bæjaryfirvöld keyptu því jörðina og þar með var á þeim tíma bundið fast mikið fjármagn sem er engum arði farið að skila í dag.
    Flestir muna betur, enda nær í tíma, þegar Samband íslenskra samvinnufélaga gerði kaupsamning við eigendur jarðarinnar Smárahvamms sem einmitt er næsta byggingarsvæði Kópavogs og ég gat um áðan. Ef frv. það sem hér er til umræðu hefði verið lögfest þá hefði eingöngu verið um tilkynningarskyldu aðila að ræða varðandi þau kaup. En fyrir þær sakir að bærinn átti lögum samkvæmt forkaupsrétt komst hann inn í málið. Það er reyndar sérmál að þarna verðlagði þriðji aðili landið. Við viðræður kom í ljós að ekki var fyrirhugað að nýta landið á næstunni, ekki yrði um það að ræða að starfsemi Sambandsins yrði að neinu marki flutt í Kópavog og segir það okkur betur en annað hvernig sala á slíkri jörð gæti farið fram til þess eins að geyma hana og aftra því að byggð þróist eðlilega eða til að landverð yrði sprengt upp þar sem byggð þróaðist í kring og þrengdi að. Þó ég vari menn við að túlka orð mín svo að þannig hafi háttað í þessu máli bendi ég á þann möguleika kaupandans.
    Þriðja dæmið sem ég óska eftir að nefna, virðulegi forseti, er kaupsamningur sem Reykjavíkurborg gerði við eigendur Vatnsenda á síðasta vetri og fjölmiðlar tengdu málefnum Stöðvar 2. Eru þau mál væntanlega öllum í fersku minni. Einnig þá kom fyrirvaralaust kaupsamningur inn á borð bæjaryfirvalda og bænum gert að neyta forkaupsréttar, ella færi jörðin til Reykjavíkur. Það mál var þó flóknara en svo þar sem um Vatnsenda, sem hefur gengið undir nafninu ,,Óðalsjörðin``, gildir erfðaskrá áþekk óðalslögum og því óheimilt að selja jörðina. Í þessu síðasta dæmi hékk það á spýtunni að heimilað yrði að Reykjavíkurborg tæki eignarnámi jörð í lögsögu Kópavogs og höguðu aðstæður því svo að það mál var látið niður falla milli aðila að sinni svo sem öllum mun í minni.
    Í öllum þessum tilfellum hefur fyrirliggjandi kaupsamningur eða áformuð sala orðið til þess að sveitarfélagið leysti til sín eða hélt í rétt sinn til fyrirhugaðra byggingarsvæða. Má segja að sá þrýstingur sem þannig myndast geti verið sveitarfélagi erfiður. Það hefur hins vegar verið tryggt að jörð yrði ekki seld til einkaaðila eða annars sveitarfélags nema viðkomandi sveitarfélagi væri boðið fyrst að ganga inn í kaupsamninginn.
    Yrði frv. þetta að lögum mundi staðan gerbreytast og slík sala gæti farið fram. Ég vil benda á að víða háttar svo til með skipulag í þéttbýlum sveitarfélögum að ákveðnir landskikar liggja jafnvel betur við nágrannasveitarfélagi en sveitarfélaginu sem skikinn er í. Þannig teygir sig dýrmætur skiki samkvæmt skipulagi Garðabæjar niður með Hafnarfjarðarvegi og inn í byggingarsvæði sem áformuð eru í suðurhluta Kópavogs. Þessi skiki tilheyrir landi í einkaeign. Þannig er það víðar á mörkum sveitarfélaga, mörkum sem oft á tíðum er búið að semja um í fullri sátt og samlyndi milli sveitarfélaga, þ.e. viðkomandi sveitarstjórna á þeim tíma. Sjá menn ekki fyrir sér hvernig sala á jörðum fram og til baka, óháð samþykki viðkomandi sveitarfélags, getur skapað mikinn vanda varðandi skipulagsmál og byggðaþróun? Er ég þá eingöngu að fjalla um þessi mál frá sjónarhóli þéttbýlissveitarfélaga.
    Við skulum líka athuga það að jörð og jörð er ekki það sama miðað við landsvæðið sem hún tilheyrir. Eigandi jarðar þar sem kynslóðir hafa unnið við uppbyggingu og ræktun fær aðeins brot af verði þeirrar jarðar sem er e.t.v. aðeins brúnir melar og nær engin ræktun en sem hefur hlotið verðgildi sitt sökum dugnaðar annarra, sökum þess að byggð hefur dafnað í nágrenninu eða þróast í átt til eða er komin að jarðarmörkum.
    Virðulegi forseti. Það má spyrja hvort það sé eðlilegt að þegar jörð er orðin dýrmæt vegna uppbyggingar sveitarfélagsins sem hún tilheyrir, að þá sé hægt að fara með hana á uppboðsmarkað milli sveitarfélaga, en frv. þetta býður upp á að það gerist. Enn mætti svo nefna hvort verðgildi jarða skuli metið eftir því hvort byggð er að þróast að henni eða að þeim og eigendur skattlagðir skv. því. Vísa ég þá til fasteignamatsins sem metur verðgildi jarða í nágrenni byggðar út frá byggðinni sem rís.
    Virðulegi forseti. Ég vara eindregið við því að afnema forkaupsrétt sveitarfélaga eins og frv. þetta kveður á um. Sum sveitarfélög eru fjársterkari en önnur. Sum sveitarfélög mundu sjá sér hag í því að nýta lönd í nágrannasveitarfélagi fyrr en viðkomandi sveitarfélag og þar með vera tilbúið að kaupa. Sum sveitarfélög hafa reynst minni sveitarfélögum ógnvaldur í þessum efnum og ég vara við að þeim séu gefnar svo frjálsar hendur sem frv. þetta boðar.