Almannatryggingar
Miðvikudaginn 05. desember 1990


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Það eru mikil vonbrigði að ekki skuli fleiri sitja hér og hlusta á þegar hv. þm. Sigrún Jónsdóttir gerir grein fyrir þessu frv. sem er þó svo mikilvægt fyrir land og þjóð. Ég vona þó að það endurspegli ekki viðhorf hv. þm. til frv. Ég kom hér til þess að vekja sérstaka athygli á því ákvæði frv. sem gerir ráð fyrir að allar konur hafi rétt til að fara í fæðingarorlof einum mánuði fyrir fæðingu, en það er nýmæli. Eins og fram kom í máli hv. 1. flm. er í gildandi lögum um almannatryggingar ákvæði sem gerir ráð fyrir að konum sé heimilt að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag. En ef ekki er um viðurkenndan sjúkdóm að ræða hefur það í för með sér að fæðingarorlof skerðist um mánuð eftir fæðingu. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því að allar konur hafi rétt til að taka fæðingarorlof einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag án þess að fæðingarorlof skerðist. Þetta tel ég mjög mikilvægt ákvæði og vildi sérstaklega vekja athygli á því hér.
    Ég vil benda á að í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir breytingu á greiðslu fæðingarorlofs en eins og hv. þm. eflaust vita hafa þingkonur Kvennalistans áður flutt frv. sem gerði ráð fyrir öðru fyrirkomulagi en nú gildir. Við teljum það fyrirkomulag sem er notað nú ekki það heppilegasta en við teljum að konur eigi að halda launum í fæðingarorlofi. Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu, virðulegur forseti. En ég vonast til þess, eins og ég sagði áðan, að fámenni þingmanna hér í þingsal endurspegli ekki viðhorf þeirra til þessa frv. eins og e.t.v. ætla mætti, ég vona að einhverjar aðrar skýringar séu á því.