Fæðingarorlof
Miðvikudaginn 05. desember 1990


     Flm. (Sigrún Jónsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. um fæðingarorlof á þskj. 207. Meðflm. mínir eru þær Kristín Einarsdóttir, Málmfríður Sigurðardóttir og Þórhildur Þorleifsdóttir.
    Segja má að hér sé um að ræða fylgifrv. vegna frv. um breytingu á lögum um almannatryggingar á þskj. 206 sem ég mælti fyrir áðan og leyfi ég mér að vísa í ræðu mína um það mál. En í grg. með því frv. sem ég mæli nú fyrir segir, með leyfi forseta:
    ,,Tilgangur þessa lagafrumvarps er að lengja fæðingarorlof eftir fæðingu úr sex mánuðum í níu og að tryggja öllum barnshafandi konum einn mánuð sem hvíldartíma fyrir fæðingu.
    Það er enginn vafi á því að bættar aðstæður ungbarnaforeldra skila sér margfalt til baka til þjóðfélagsins í formi betra mannlífs, betri heilsu og færri félagslegra vandamála.``
    Það hafa engar breytingar verið gerðar hingað til á þeim lögum sem hér er lagt til að verði breytt. Lögin fjalla um rétt útivinnandi foreldra til töku fæðingarorlofs. Ég mun í örstuttu máli rekja hvaða breytingar eru hér lagðar til en vísa að öðru leyti, eins og fyrr sagði, í fyrri ræðu mína vegna frv. á þskj. 206.
    Skv. 1. gr. frv. skal fæðingarorlof eftir fæðingu verða níu mánuðir. Í bráðabirgðaákvæði segir að orlofið skuli lengjast í áföngum, þ.e. nú þegar í sjö mánuði, frá 1. jan. 1992 í átta mánuði og 1. jan. 1993 í níu mánuði.
    Í 2. gr. er mælt fyrir um þá nýbreytni að barnshafandi kona eigi rétt á fæðingarorlofi mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag.
    Í 3. gr. er verið að samræma lengd fæðingarorlofs ættleiðandi foreldra, uppeldis- og fósturforeldra við lengd fæðingarorlofs annarra foreldra.
    Að lokum vil ég ítreka fyrri orð mín um að hér sé um brýnt hagsmunamál foreldra, barna og í raun samfélagsins alls að ræða.
    Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu óska ég þess að málinu verði vísað til 2. umr. og til heilbr.- og trn.