Fæðingarorlof
Miðvikudaginn 05. desember 1990


     Málmfríður Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 10. þm. Reykn. fyrir góða framsögu hér á mikilvægu máli. Stundum hefur verið talað um að það væri háttur presta að skamma söfnuðinn fyrir slælega mætingu í messu og þá væru það náttúrlega fyrst og fremst þeir sem mættu sem yrðu fyrir snuprunum. Ég kem hér í ræðustól eiginlega fyrst og fremst til þess að fært verði til bókar í Alþingistíðindum það sem ég segi. Það er mjög áberandi þegar málefni kvenna og barna eru til umræðu hér í þingsölum að þá eru fáir mættir og flestir viðstaddir tínast út. Það eru gjarnan eingöngu konur sem sitja eftir og þá jafnan ekki einu sinni allar þær konur sem eiga þó sæti í þingsölum. Við upphaf þessarar umræðu voru níu þingmenn í salnum alls og þar af tveir karlmenn. Nú hafa menn tínst út. Lengst af sátu sex undir umræðunni, þar af einn karlmaður, hæstv. forseti, sem ekki gat flúið úr sæti. Nú eru sjö, að ég hygg, og þar bættist við hæstv. heilbrrh. sem mætti hér í umræðuna þó seint væri. Ég geri ráð fyrir að hann hafi verið að sinna sínum skyldustörfum og ekki getað mætt fyrr. En þetta vil ég að komi fram þannig að allir megi lesa í Alþingistíðindum eftir á. Hér hefur verið hreyft mjög mikilsverðu máli. Máli um það hvernig er búið að börnum þessa lands í frumbernsku sem getur valdið miklu um það hvernig ævi þeirra ræðst og áhugi hv. þm. er ekki meiri en þetta. Þjóðfélagið endurspeglar í rauninni þessi viðhorf. Það hefur þó að vísu komið fram opinberlega að á Íslandi er staðið betur að ungbarnagæslu af hálfu þess opinbera en í mörgum öðrum löndum, hér er ungbarnadauði minni en víðast hvar. En þegar börnin eru komin af því sem kallað er ungbarnsskeið þá er annað uppi á teningnum. Þá tekur við sundurslitinn skóladagur, gæsluleysi, skortur á dagvistarrými. Allt þetta þarf að taka til gagngerðrar endurskoðunar og athugunar svo við getum boðið börnunum okkar og foreldrum þeirra upp á betra líf í þessu landi en núna er. Þetta er brýnt mál og þarf athugunar við.
    Ég hef ekki fleira um þetta að segja á þessu stigi því umræðan er ekki beinlínis um þau mál, en það verður komið að því seinna.