Fæðingarorlof
Miðvikudaginn 05. desember 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Hæstv. forseti. Ég vil biðja flm. afsökunar á því að hafa ekki verið viðstaddur þessa umræðu alla. Auðvitað er umdeilanlegt hversu áríðandi störfum menn eru að gegna frá einum tíma til annars. Ég hafði að vísu rétt lokið við að mæla hér fyrir frv. í Ed. um heilbrigðisþjónustu þar sem gert er ráð fyrir því að koma á sérstöku samstarfsráði sjúkrahúsanna í Reykjavík. Megintilgangur þess samstarfsráðs skal vera sá að að reyna að ná fram meiri hagræðingu í verkaskiptingu og betra skipulagi í rekstri þessara mikilvægu stofnana, þriggja stærstu heilbrigðisstofnana í landinu, og auðvitað þá í þeim tilgangi að þær stofnanir geti betur gegnt sínu hlutverki og rækt það betur með vonandi minni tilkostnaði ef vel tekst til að hagræða í störfum þeirra og verkaskiptingin verður betur framkvæmd en hún þó er í dag. Reyndar hafa sumir talið að það mætti ganga enn lengra á því sviði og sameina þessi sjúkrahús öll undir eitt. Það væri kannski mesta hagræðingin í því en ég læt það liggja milli hluta hér í þessari umræðu enda það mál ekki á dagskrá hér en á eftir að koma hingað síðar.
    Þetta vildi ég hins vegar nefna vegna þess að það er auðvitað ákaflega auðvelt og væri kannski auðveldast af öllu fyrir heilbrrh. hverju sinni að flytja frv. um það að bæta við ýmsa þætti, bæði í heilbrigðisþjónustunni og í almannatryggingalöggjöfinni til þess að laga til fyrir ýmsum þegnum þessa þjóðfélags sem vissulega þurfa á því að halda. En það kostar mikla fjármuni. Þetta heilbrigðiskerfi okkar og almannatryggingakerfið er afar dýrt og það er lítið sem menn geta hreyft sig þar öðruvísi en að það hlaupi strax á milljónatugum eða hundruðum milljóna.
    Við stöndum frammi fyrir því núna og höfum verið í umræðu undanfarna daga við aðstandendur sjúkra einstaklinga, bæði líkamlega og andlega sjúkra sem þurfa á aðhlynningu að halda, við höfum verið í slíkum viðræðum í heilbrrn. að undanförnu og hvernig leysa megi mál ýmissa slíkra einstaklinga. Þar snýr maður sér ekki við fyrir minna en tugi milljóna króna. Það hefur verið rætt um heimili fyrir geðsjúka afbrotamenn, það hefur verið rætt um heimili fyrir geðsjúkt fólk sem er þó ekki afbrotafólk, a.m.k. ekki enn, það hefur verið rætt um heimili fyrir vegalaus börn. Fleira mætti upp telja. Þetta kostar allt saman stórar upphæðir.
    Hér eru til umræðu lagafrv. tvö sem bæði hafa mikla þýðingu fyrir fjölskyldur í landinu og börn. Ég get sannarlega tekið undir það sem segir hér í grg. og ég veit að hefur komið hér fram í framsöguræðu, þó ég hafi því miður ekki getað hlýtt á hana, að það eru mikilsverð mál sem hér er hreyft og væri vissulega þýðingarmikið ef þjóðfélagið sæi sér fært að verða við þeim óskum sem hér eru settar fram.
    Við höfum nú nýlega náð þeim mikilvæga áfanga að lengja fæðingarorlof og greiðslu fæðingarstyrks um einn mánuði á ári þrjú undanfarin ár, úr þremur mánuðum í sex, og tel ég að þar höfum við verið að

vinna mikilvægt verk. Um það náðist fullkomin samstaða þó að þar væri auðvitað mikill kostnaðarauki. Hér er lagt til að stíga nú enn stærri skref. Vissulega er líklegt að einhvern tíma treysti þjóðfélagið sér til þess að ná áföngum þeim sem hér eru tilgreindir, það hafa nágrannaþjóðir okkar verið að gera, a.m.k. sumar, en ég álít að við þurfum mjög að huga að forgangsröð í þessu sambandi. Við þurfum mjög að huga að því hvar við eigum að leggja áherslurnar, hvar er mikilvægast að lagfæra og bæta okkar tryggingakerfi.
    Vonandi fæ ég heimild til þess áður en langt líður að leggja fyrir Alþingi nýtt frv. til almannatryggingalaga sem hefur í sér fólgnar verulegar réttarbætur á ýmsum sviðum. Þó er það unnið á þann hátt að reynt er að hagræða innan kerfisins þannig að við getum bætt þeim sem á þurfa að halda þjónustu ýmiss konar og veitt þeim aukinn stuðning af opinberri hálfu án þess að auka verulega heildarútgjöldin, þ.e. með því að færa þá fjármuni sem þar koma til uppbótar frá þeim aðilum sem við teljum að síður þurfi á slíkri opinberri samhjálp að halda. Ef við getum fundið fleiri slíka þætti þar sem mætti færa til fjármuni frá þeim sem síður þurfa á að halda til þeirra sem hafa brýna þörf fyrir aðstoð þá tel ég að það væri vel og að því hygg ég að íslenskir og reyndar meira en íslenskir stjórnmálamenn, stjórnmálamenn almennt, þurfi að huga. Það kom fram í framsögu minni áðan um málið sem ég greindi frá hér í upphafi máls míns, að það eru fleiri þjóðir en Íslendingar sem þessa stundina ræða um kostnað við heilbrigðisþjónustu og tryggingakerfi. Það hygg ég að eigi við um allan hinn vestræna heim. Við þurfum því sannarlega að huga að því hvert við stefnum og hvernig við bregðumst við.
    Þetta vildi ég láta koma hér fram, virðulegu forseti, vegna þess að það er svo auðvelt að koma fram með óskirnar og sjá hvar betur má gera en hitt vefst stundum fyrir mönnum að finna hvar eigi að taka fjármunina og ná samstöðu í þjóðfélaginu um það að auka til þess skattheimtuna ef ekki finnast leiðir til sparnaðar.
    Ég var spurður hér í umræðunni um hugmyndir heilbrrh. um að leggja fram frv. um fæðingarorlof sem nú liggur fyrir í heilbrrn. og er afrakstur af nefndarstarfi frá sl. vetri. Nefnd sem fjallaði um það mál lauk störfum í fyrravor eða síðla seinasta vetrar. Þar hygg ég að hafi verið unnið gott verk sem væri nauðsynlegt að kæmi hér fyrr en síðar til umfjöllunar í þinginu. En því miður er það svo með það frv. að um það var ekki fullkomin samstaða. Það er ljóst að opinberir starfsmenn telja að í frv. eða drögunum, eins og þau líta nú út, sé gengið á þann rétt sem þeir hafa þegar áunnið sér og um frv. eins og það lítur út núna frá nefndinni sé ekki og verði ekki samkomulag að óbreyttu. Þess vegna hefur það nú legið um sinn og er ekki komið inn til þingsins, er í athugun í ráðuneytinu. Það er hins vegar á málaskrá ríkisstjórnarinnar og er á lista yfir þau mál sem ég hef í huga að leggja fyrir Alþingi á þessum vetri. Vona ég að það geti orðið þó svo að það kunni að verða að gera á því einhverjar breytingar frá því sem nefndin gekk frá

því á sl. vori.
    Ég vil aðeins að lokum ítreka það að ég tek undir það sem hér kemur fram í grg. að hér er um mikilvægt mál að ræða sem vissulega er rétt að skoða vandlega. Ég vil í þeim skilningi lýsa stuðningi mínum við þá stefnu sem hér er sett fram en hafa þó þann fyrirvarann á að hér er um mikinn kostnaðarauka að ræða fyrir ríkissjóð og við höfum mörg viðfangsefni við að glíma sem sannarlega veitir ekki af fjármunum í til þess að vel megi vera. Heilbrrn. hefur nú á sinni könnu að reyna að leysa þau mál og ég hygg að a.m.k. eins og sakir standa í augnabliki þá séu nokkur af þeim málum, sem ég nefndi hér í upphafi, á forgangslista hjá núverandi heilbrrh. umfram það sem hér er lagt til.