Fæðingarorlof
Miðvikudaginn 05. desember 1990


     Flm. (Sigrún Jónsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Aðeins örstutt. Ég vil þakka hv. 9. þm. Reykn. Rannveigu Guðmundsdóttur hennar orð og hæstv. heilbrrh. fyrir undirtektir við efni þessa máls. Þeirra stuðningur er mér mikils virði en ég hefði náttúrlega viljað heyra frá ráðherra að fæðingarorlofið mundi lengjast sem allra fyrst. Ég vil taka undir orð Rannveigar um að það þurfi sérstaklega að taka á réttindamálum foreldra í fæðingarorlofi, ég held að þar sé pottur brotinn.
    Ráðherra talar um kostnað og við vitum að það er mikill kostnaður samfara því að halda uppi öflugu almannatryggingakerfi. En þetta, eins og allt annað, er spurning um forgang. Ég held að ekki sé um svo mjög háar upphæðir að ræða í þessu máli að það væri ekki hægt að byrja á einhverju þrepi. Sumum konum sem ég hef kynnt þetta mál finnst ég fara allt of varlega í sakirnar og vera mjög hógvær þannig að ég held að ég hljóti að ítreka það að hér sé verið að vinna í áföngum og það hljóti að mega hnika einhverju til.
    Mér þykir miður ef ekki kemur fram frv. frá ríkisstjórninni um þetta mál, þó ég sé náttúrlega hér með mál sem ríkisstjórnin gæti bara samþykkt. En ég vil minna ráðherra undir lokin á það sem kom reyndar fram hjá mér áðan, en hann var þá ekki viðstaddur, að einmitt í ályktun eða samþykkt flokksþings Framsfl. stendur að stefnt verði að því að fæðingarorlof verði í áföngum lengt í eitt ár og það hlýtur að hvetja hann til dáða. ( Heilbrrh.: Það eru falleg fyrirheit.) Já, en við megum ekki bara segja hlutina. Við verðum líka að meina þá og reyna að standa við þá.
    Ég þakka undirtektir ykkar beggja aftur.