Kostnaður við breytingar á Þjóðleikhúsi
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svör hans. Þau komu raunar ekki á óvart. Þeim sem til þekkja var gjörla ljóst að kostnaður við þessa framkvæmd mundi hlaupa fram úr öllum áætlunum og eru þó hvergi nærri öll kurl komin til grafar í þessu máli. Það er margt óséð og margt ógreitt. Það er hins vegar fáránlegt þegar hæstv. ráðherra tekur kostnaðaráætlun frá 26. júlí sl. og notar hana hér sem samanburð um það hversu lítið þetta hafi farið fram úr áætlun. Auðvitað átti að nota hina upphaflegu verkáætlun þegar ákvörðun var tekin um verkið. Á henni byggðist sú ákvörðun að ráðast í þetta. Það hefði næstum því eins mátt uppreikna nýja kostnaðaráætlun og miða hana við 30. okt. og segja að verkið hefði nákvæmlega ekkert farið fram úr áætlun. Þetta finnst mér ekki eðlilegur né réttur samanburður. Þetta hefur hlaupið úr öllum böndum. Þetta hefur verið illa undirbúin framkvæmd og það hefur verið rasshandarlag á öllu þessu verki frá upphafi til enda.
    Það var nauðsynlegt að gera lagfæringar á Þjóðleikhúsinu, um það var aldrei deilt. En það var ekki nauðsynlegt að rústa húsið að innan og byggja nýtt hús innan í skelinni. Hér er beinlínis verið að leika sér með peninga skattborgara og þessum hundruðum milljóna hefði betur verið á annan veg varið en að byggja nýtt Þjóðleikhús inni í því gamla.
    Mér er sagt að í gærkvöldi hafi verið viðtal við formann hinnar svokölluðu byggingarnefndar. Hún heitir byggingarnefnd af því að hún er að byggja nýtt Þjóðleikhús innan í gamla Þjóðleikhúsinu. Ég sá það því miður ekki því að ég var á fundi vestur í Ólafsvík en mér er sagt að þar hafi öll svör verið með miklum endemum --- nú sá ég þetta ekki sjálfur en miðað við aðstæður trúi ég því ákaflega vel --- og öll málsvörn verið svona heldur í lakara lagi, að ekki sé nú sterkar til orða tekið.
    Ég held að þessum milljónahundruðum hefði átt að verja á annan veg og þetta er enn eitt dæmið um óskiljanlegar og óskynsamlegar framkvæmdir á vegum hins opinberlega þar sem kostnaðaráætlanirnar upphaflegu sem ákvarðanir eru byggðar á eru eins og hverjar aðrar gamansögur sem menn síðan skemmta sér við að hafa í flimtingum og þegar upp er staðið er enginn ábyrgur en ríkissjóður og skattborgararnir verr staddir en áður.