Kostnaður við breytingar á Þjóðleikhúsi
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Satt að segja held ég að það væri fróðlegt að hafa um þessi mál ítarlega umræðu. Ég kann ekki við það þegar hv. fyrirspyrjandi með þessum hætti fer fram á þann hátt sem hann gerði hér áðan þar sem enginn kostur er á að fara yfir málið í heild. Þetta mál er allt opið. Alþingi hefur getað fylgst með þessu máli lið fyrir lið í smáatriðum allan tímann þannig að menn þurfa ekki að sakast við neinn annan en sjálfan sig ef menn skortir upplýsingar í þessu máli. Ég kannast ekki við það að í einu einasta tilviki hafi ríkisstjórnin eða Alþingi lokað fyrir það að það kæmu upplýsingar fram um þetta mál.
    Ég tel nauðsynlegt í tilefni af orðum hv. þm. að fara yfir þessa hluti alveg lið fyrir lið. Ég held að það eigi t.d. að kanna það mjög rækilega hver sé hönnunarkostnaður, hver sé stjórnunarkostnaður, hver sé nýting áætlunarkostnaðar í ríkisstofnunum og ríkisbyggingum í heild. Við skulum fara yfir það alveg lið fyrir lið, bæði í ár og undanfarin ár. Við skulum fara lið fyrir lið yfir stofnun sem heitir Húsameistari ríkisins. Við skulum fara lið fyrir lið yfir það hvernig hefur verið haldið á málum að því er varðar undirbúning að þessum framkvæmdum Þjóðleikhússins. Það er enginn að skjóta sér undan ábyrgð í þessu efni og það mun ég a.m.k. aldrei gera þó að ég hafi staðið menn að því hér í þessum stól á undanförnum árum og áratug að reyna að laumast undan ábyrgðinni þegar um erfiða hluti er að ræða, hluti sem er reynt að gera óvinsæla af því að það er auðvelt að gera þá tortryggilega vegna þess að þeir eru dýrir, fyrst og fremst vegna þess að þeir eru dýrir. Og frammi fyrir þessum áróðri hafa stjórnmálamenn yfirleitt hrokkið. Þeir hafa ekki verið tilbúnir til þess að leggja á sig þá vinnu sem fylgir því að fylgja eftir framkvæmdum af þeim toga sem hér er um að ræða sem kostar verulega fjármuni og niðurstaðan er sú að opinberar stofnanir, opinberar byggingar allt í kringum landið eru alls staðar að grotna niður.