Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans svar sem kannski af eðlilegum ástæðum er heldur óljóst á þessu stigi málsins. Ég vil eingöngu segja það að af hálfu fyrirspyrjanda hér stendur ekki til að taka þátt í neinu því sem kalla mætti ,,Hexenjagd`` eða nornaveiðar í þessu sambandi eða eftirgrennslan eftir einhverjum tilteknum einstaklingum. Mér finnst aðalatriðið vera það sem ég sagði hér í upphafi að mér finnst að það eigi að liggja fyrir og koma fram gagnvart íslenskum stjórnvöldum og íslenskum almenningi ef það hefur virkilega verið svo að hin illræmda leyniþjónusta þessa lögregluríkis hafi hlutast til um íslensk málefni.