Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég lít nú svo á að þetta GATT - tilboð sé saklaust í sjálfu sér. Þetta er tilboð um lítils háttar skipulagsbreytingu. Nægir fyrirvarar fylgja þessu tilboði til þess að það eigi að vera hættulaust. Við verðum að treysta því að í ríkisstjórn sitji á hverjum tíma skynsamir og þjóðhollir menn sem ekki opni allt upp á gátt af óvitaskap eða fólsku.
    Það hefur orðið töluvert fjaðrafok út af túlkun hæstv. utanrrh. á þessu máli sem ég tel vera mistúlkun. Hann gerir allt of mikið úr þeirri skipulagsbreytingu sem hér er boðið upp á, miklu meira heldur en ... (Gripið fram í.) Það kemur aldrei til --- Miklu meira heldur en ástæða er til að gera. Alþfl. hefur barist fyrir innflutningi landbúnaðarvara um langan tíma og í einhverju hrifningarkasti hefur hæstv. ráðherra freistast til þess að gera mikið úr þeim árangri sem hann taldi sig hafa náð. Þetta er svona eins og annar Jón, sem kallaður var hinn sterki, sagði í því merkilegu ritverki eftir Jón Thoroddsen: ,,Sáuði hvernig ég tók hann.`` En meginmálið er það hvort eitthvað verður úr þessum GATT - viðræðum yfir höfuð, hvort einhver árangur verður af þeim viðræðum. Ég hef nú trú á því að það sé að renna út í sandinn.