Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Vegna þess að formið leyfir ekki að tala aftur af minni hálfu undir þessum dagskrárlið, þá vil ég bara leyfa mér að benda hæstv. fjmrh. á það að stefna Sjálfstfl. í þessu máli liggur fyrir frá landsfundi sem haldinn var fyrir rétt rúmu ári. Sú stefna er óbreytt og breytist ekki fyrr en ný stefna hefur verið mótuð, hvort sem það verður gert á næsta landsfundi eða síðar. Væntanlega verður stefnan þá haldin óbreytt þó aðstæður breytist nú ævinlega í okkar þjóðfélagi.
    En ég hlýt að benda á að það hefur áhrif að rofið er skarð í þann varnargarð sem við Íslendingar höfum viljað standa vörð um varðandi innflutning á búvörum. Þegar ríkisstjórn, sem nú situr í landinu, hefur rofið þennan varnargarð verður erfiðara fyrir aðra að fylla það skarð að nýju og halda vörnum gegn innflutningi á búvörum sem meiri hluti allra stjórnmálaflokka hefur viljað viðhalda til þessa að undanskildum Alþfl. Þetta liggur fyrir þannig að ég þarf ekki að svara því frekar. En hæstv. ráðherra ætti að taka umræðu eins og þessa undir venjulegum dagskrárlið þar sem menn hafa tíma til að taka til máls.