Takmörkun á umsvifum erlendra sendiráða
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Það er vissulega mikilvægt að fram komi afstaða hæstv. utanrrh. og utanrrn. í svo mikilvægu máli. Hún birtist okkur hér skýr, engin ástæða til takmarkana. Verði það þarf að bíða eftir brotum á alþjóðasamningi. Ályktun Alþingis byggð á tillögu utanrmn. 1985 hvílir á því sjónarmiði að sendiráð hérlendis fari út yfir eðlileg mörk hvað stærð og umsvif snertir og starfsmannafjölda þar á meðal. Ég undrast það mjög að utanrrn. skuli á þeim tíma sem síðan er liðinn ekki hafa séð ástæðu til þess að knýja fram breytingar á þessu ástandi. Það eru hér starfandi 37 starfsmenn bæði hjá sovéska sendiráðinu og því bandaríska, skv. þeim upplýsingum sem utanrrh. bar hér fram. Finnst mönnum það vera jafnræði í samræmi við ákvæði Vínarsamningsins um diplómata þegar í íslensku sendiráðunum í Moskvu og Washington eru 4 -- 5 starfsmenn og fjöldi hinna erlendu starfsmanna hér og heildarstarfsmannafjöldi sendiráða risaveldanna er sjöfaldur til áttfaldur á við það sem gerist hjá sendiráðum Íslands í sömu ríkjum.
    Síðan er eðlilegt að vísa til óeðlilegra takmarkana sem hafa gilt um svigrúm íslenskra sendiráðsstarfsmanna til eðlilegra athafna í Sovétríkjunum, sem eru hömlur sem ekki gilda hér á Íslandi. Ég vísa einnig til þeirrar bandarísku kröfu sem liggur fyrir um vegabréfsáritanir fyrir Íslendinga sem ferðast til Bandaríkjanna á sama tíma og ekki heyrist krafa um slíkt hér. Ég tel að svona samskipti séu ekki samboðin Íslandi sem fullvalda ríki, að þola það að við séum beittir slíkum hömlum. Og ég hlýt að benda á það jafnframt að hafi verið talin þörf fyrir þennan mikla fjölda starfsmanna, t.d. í sovéska sendiráðinu, vegna viðskipta við Ísland þá hafa þau nú ekki þróast þannig upp á síðkastið að það virðist sérstök ástæða til að viðhalda þeim. Og ef eðlileg þróun væri í gangi í sambandi við samskipti Íslands og Bandaríkjanna með brottför bandarísks hers af Íslandi í ljósi þeirrar þróunar sem hefur verið að gerast í alþjóðamálum, þá ætti að vera hægurinn hjá fyrir Bandaríkin að fækka til muna í sínu sendiráði, án þess að það komi niður á eðlilegum samskiptum sem við auðvitað eigum að rækta við allar þjóðir.