Takmörkun á umsvifum erlendra sendiráða
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Að gefnu tilefni vil ég minna á eftirfarandi. Ályktun Alþingis sem hér hefur verið vitnað til var samþykkt árið 1985. Framkvæmd hennar hlýtur eðli málsins samkvæmt að hafa komið til kasta forvera minna sem setið hafa á stóli utanrrh. á þessum tíma en þeir eru fyrrv. hæstv. ráðherrar Geir Hallgrímsson, Matthías Á. Mathiesen og Steingrímur Hermannsson. Nú skal ég einfaldlega gera þá játningu að þetta mál hefur ekki komið til sérstakrar umfjöllunar í minni tíð sem utanrrh. þannig að ég hef út af fyrir sig ekki tekið sérstaka afstöðu til málsins.
    Nú kann vel að vera að hv. fyrirspyrjandi hafi nokkuð til síns máls þótt augljóst sé að ekki er hægt að gera jafnræðisreglu um starfsmannafjölda með samasemmerki að því er varðar annars vegar Sovétríkin, Bandaríkin og Ísland. Íslenskir starfsmenn í sendiráðinu í Moskvu eru tveir, ekki fimm þannig að munurinn er enn þá meiri. (Gripið fram í.) Ég er að tala um íslenska starfsmenn í samanburði við erlenda starfsmenn hjá sendiráðum hér þannig að út af fyrir sig verður það nú kannski ekki lagt til grundvallar. Annað er það að takmarkanir á starfsemi stjórnarerindreka eins og verið hafa við lýði og eru enn í Sovétríkjunum eru náttúrlega ekki til fyrirmyndar og ekki eitthvað sem við mundum taka upp. En hitt kann vel að vera að úr því að ekki hefur verið tekin sérstök afstaða til efnisákvæða þessarar þáltill. á þeim árum sem liðu næst eftir að hún var samþykkt þá sé ástæða til að skoða það að nýju. Vegna þess að ég segi einfaldlega að það hefur ekki komið til sérstakrar skoðunar á minni tíð.