Fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Það er fullkomlega rangt hjá hv. þm. Pálma Jónssyni --- og er nú vont að hann er flúinn úr salnum --- að það sé einhver viðleitni til að svæfa þetta mál. Það er bara fullkomlega út í hött að standa hér í ræðustól og halda því fram og ekki vænlegt til þess að skapa hér breiða samstöðu um þetta mál. (Gripið fram í.) Það hefur ekki staðið á fjmrn. eða fulltrúum ríkisstjórnarinnar vikum saman að ræða þessi mál við fulltrúa fjvn., það hefur ekki staðið neitt á því. Við erum tilbúnir hvenær sem er í þær viðræður. Ég sit ekkert undir ómerkilegum aðdróttunum af þessu tagi. Hér er um viðamikið mál að ræða sem nauðsynlegt er að víðtæk samstaða skapist um. Þetta er flókið mál sem felur í sér nýjan praxís í meðferð okkar fjármála á fjölmörgum sviðum, praxís sem ég hef unnið markvisst að því að koma á og hef gert meira af því heldur en Sjálfstfl. sl. 30 ár á þeim síðustu tveimur árum sem liðin eru síðan við tókum að okkur forræði þessara mála.
    Það var hins vegar nauðsynlegt að láta þá kunnáttumenn, sem þessi mál þekkja vel og eiga samkvæmt gildandi lögum, væntanlega á að fara eftir þeim, að fjalla um þessi mál, fá tækifæri til þess að koma með álit sitt. Og þær ábendingar sem þeir hafa komið með eru mjög gagnlegar, verða til þess að styrkja það frv. sem hér verður lagt fram og gera hina nýju löggjöf raunhæfari grundvöll að traustari stjórn ríkisfjármála og koma í veg fyrir það að þeir óráðsíuseggir, t.d. úr Sjálfstfl., sem hér hafa farið með allt úr böndum á undanförnum árum geti gert það í framtíðinni. Þess vegna hafði ég satt að segja vonast til þess að fulltrúar Sjálfstfl. í fjvn. ynnu að þessu eins og menn með okkur, að koma þessum breytingum á í stað þess að koma með fullkomlega órökstuddar dylgjur um það að menn vildu svæfa þetta mál. Þvert á móti hef ég látið vinna að þessu máli á undanförnum mánuðum til þess að á þessu þingi væri hægt að ljúka því.