Ökukennsla
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Umferðin verður þyngri og háskalegri með hverju ári og krefst allt of mikilla fórna. Allir þurfa að gæta sín í umferðinni, ungir sem gamlir, en reynslan sýnir að mesta hættan er bundin við fyrstu árin eftir að ökuréttindum er náð. Samkvæmt líkindareikningi eiga 20 -- 25 piltar af hverjum 500 á aldrinum 17 -- 18 ára á hættu að slasast lífshættulega í umferðinni, örkumlast eða jafnvel deyja. Á þessum aldri eiga 10 -- 12 stúlkur af hverjum 500 það sama á hættu. Fleiri tölur þarf ekki að nefna. Það hlýtur að vera afar brýnt að leita úrræða. Ég fullyrði að ungir ökumenn eru tæknilega ekki verr í stakk búnir til að aka bifreiðum en þeir sem eldri eru en það er mjög greinilegt, og sérstaklega hvað varðar piltana, að það vantar í varðandi mannlega þáttinn í þeirra þroska, ábyrgðartilfinningu og siðgæðisvitund. Það hlýtur alltaf að vera ökukennslan sem ræður miklu um aksturslag og ábyrgðartilfinningu unga fólksins alls. Almenningur hefur ekki verið nógu kröfuharður í þessum efnum og stjórnvöld hafa sofið á verðinum. Þeir sem helst hafa knúið á um úrbætur eru fyrst og fremst ökukennarar sjálfir sem hafa ítrekað krafist endurskoðunar og endurskipulagningar, bæði ökukennslu og ökunáms.
    Á 111. löggjafarþingi fluttu þingkonur Kvennalistans tvær tillögur sem tengjast ökunámi. Annars vegar um bætt ökunám og ökukennslu og hins vegar um aðfararnám til ökuprófs í 10. bekk grunnskóla. Auk þess höfum við með fyrirspurn reynt að knýja á um að komið verði á samræmdri ökuferilsskrá fyrir landið. Báðum tillögum þeim sem ég nefndi áðan var vísað til ríkisstjórnarinnar. Hinn 4. okt. 1988 skipaði þáv. dómsmrh. nefnd til að móta og gera tillögur, m.a. um fyrirkomulag ökuprófa og ökukennslu. Nefndin skilaði tillögum sínum sem m.a. fólu í sér að hið opinbera taki þátt í ökukennslu, allt ökunám fari fram í ökuskóla í minnst þrjá mánuði, sett verði upp æfingasvæði til að æfa akstur við mismunandi skilyrði og svo mætti lengi telja. Þar sem alllangt er síðan nefnd þessi skilaði tillögum sínum en ekki virðast breytingar í sjónmáli hef ég á þskj. 187 leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. dómsmrh. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Hvað líður endurskoðun umferðarlaga og reglugerðar nr. 787 frá 13. des. 1983 um ökukennslu, próf ökumanna o.fl. í framhaldi af tillögum nefndar dómsmrh. sem skipuð var 4. okt. 1988?``