Ökukennsla
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Hv. 6. þm. Vesturl. beinir til mín fsp. á þskj. 187, raunar tvíþættri. Annars vegar um það hvað líði endurskoðun umferðarlaga og hins vegar reglugerðar nr. 787 frá 13. des. 1983, um ökukennslu o.fl.
    Varðandi fyrri liðinn er þetta að segja: Í lokamálsgrein ákvæðis til bráðabirgða í umferðarlögum nr. 50 frá 30. mars 1987, sem tóku gildi 1. mars 1988, er kveðið á um að lögin skuli endurskoða fyrir árslok 1991. Ákvæði þetta hefur væntanlega verið sett til að tryggja að þeir annmarkar sem á lögunum kunni að vera og í ljós koma við framkvæmd þeirra verði sniðnir af. Auk þess er það almennur sannleikur að umferðarlög þurfa að vera í sífelldri endurskoðun vegna þeirrar öru þróunar sem er á öllum sviðum er að umferð lýtur. Ég hef því ákveðið að skipa nefnd til þess að vinna að þessari heildarendurskoðun umferðarlaganna og er henni ætlað að skila áliti fyrir 1. okt. 1991.
    Um seinni liðinn, reglugerð um ökukennslu, próf ökumanna o.fl., nr. 787 frá 13. des. 1983, er þetta að segja: Hún varð að hluta úrelt við gildistöku umferðarlaganna nr. 50/1987. Reglugerðinni var með reglugerð nr. 116 frá 29. febr. 1988 breytt til samræmis við hin nýju umferðarlög. Aðeins var um að ræða minni háttar breytingar sem voru bráðnauðsynlegar í tilefni af gildistöku laganna svo og vegna tilkomu Bifreiðaskoðunar Íslands hf. En með bréfum dagsettum 4. okt. 1988 skipaði þáv. dómsmrh. fimm manna nefnd til að gera tillögur, eins og raunar kom fram í máli fyrirspyrjanda, um eftirfarandi atriði: fyrirkomulag skyndiskoðunar ökutækja, sérstakar skoðanir á ökutækjum að beiðni lögreglumanna, fyrirkomulag ökuprófa, fyrirkomulag ökukennslu, þar með hugsanlegan þátt framhaldsskóla í hinum bóklega hluta námsins, og fyrirkomulag meiraprófsnáms. Þessi nefnd skilaði af sér vorið 1989 og var sú skýrsla til skoðunar í ráðuneytinu er ég kom þangað. Nefndin skilaði ekki tillögum að nýrri reglugerð um ökukennslu, próf ökumanna o.fl., enda var henni ekki falið að gera það. Í inngangi að skýrslu nefndarinnar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Markmið nefndarinnar hefur verið að leita atriða og aðstæðna sem líkleg eru til að skila hæfari ökumönnum, skapa betri umferðarmenningu og fækka umferðarslysum. Vakin er athygli á því að umferðarlegt uppeldi er hluti af uppeldi almennt og í rauninni óaðskiljanlegur hluti þess. Þess vegna hefur málefnið verið skoðað í mjög víðu samhengi. Ljóst er að framkvæmd tillagna nefndarinnar hefur í för með sér nokkurn samfélagslegan kostnað. Það er þó álit nefndarmanna að sá kostnaður komi til með að skila sér til baka með fækkun umferðarslysa.``
    Þann 11. sept. sl. skipaði ég fimm manna nefnd til að endurskoða reglugerðina sem fyrirspurnin lýtur að, nr. 787 frá 13. des. 1983. Þessi nefnd hefur haldið marga fundi og er vel á veg komin með endurskoðun reglugerðarinnar. Í starfi sínu hefur hún haft hliðsjón af þeim tillögum sem fyrrgreint nefndarstarf skilaði.
    Ég vænti þess að nefndin ljúki störfum nú í þessum mánuði og að ný reglugerð um ökukennslu, próf ökumanna o.fl. geti tekið gildi um næstu áramót. Menntun ökukennara hér á landi hefur verið of lítil og ófullkomin. Erum við þar vafalítið á eftir hinum Norðurlöndunum. Námskeið fyrir ökukennara hafa ekki verið haldin um nokkurt skeið. Fjöldi ökukennara miðað við íbúafjölda er þó meiri hér en á hinum Norðurlöndunum. Í tillögum þeim sem fyrir liggja er lagt til að menntun ökukennara fari fram samkvæmt námsskrá og námsáætlun og að stefnt skuli að því að námið verði svipað og gerist hjá nágrannaþjóðum okkar.
    Ég vænti þess að ákvæði sem hníga í þá átt verði sett í væntanlega reglugerð og að nám fyrir ökukennara geti hafist snemma á næsta ári.