Landnýtingaráætlun
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegi forseti. 22. maí 1984 var samþykkt hér á Alþingi till. til þál. um gerð landnýtingaráætlunar fyrir Ísland. Í kjölfar samþykktarinnar var skipuð nefnd sem lauk störfum 21. maí 1986 og gaf hún út greinargóða og upplýsandi skýrslu þar sem settar eru fram ábendingar, ekki síst í því skyni að auðvelda pólitíska umræðu og nauðsynlega stefnumótun við gerð landnýtingaráætlunar. Það er ljóst að landnýtingar- og umhverfismál eru vaxandi hluti af allri áætlanagerð í þjóðfélaginu og koma inn á flesta þætti mannlífsins. Með hugtakinu landnýting er venjulega átt við ráðstöfun lands til ýmiss konar starfsemi og nytja, svo sem landbúnaðar, þéttbýlis, iðnaðar og útivistar.
    Með gerð landnýtingaráætlunar er nauðsynlegt að taka á hinum fjölmörgu þáttum sem snúa að nýtingu og vernd landsins bæði í byggð og óbyggðum. Landnýtingaráætlun tengist óhjákvæmilega langtímaáætlun í byggðamálum og þá ekki síst stefnunni í landbúnaðarmálum.
    Í mínum huga leikur enginn vafi á því að landið sjálft er ein dýrmætasta auðlindin sem við eigum. Það er því afar brýnt að við skipuleggjum nýtingu þessarar auðlindar með það í huga að taka aðeins vextina en láta höfuðstólinn ósnertan, rétt eins og við reynum að skipuleggja nýtingu þeirra auðlinda sem við eigum í hafinu.
    Á 111. löggjafarþingi bar Sigríður Hjartar, varaþingkona Framsfl., fram fsp. til hæstv. landbrh. um framkvæmd þeirrar tillögu sem ég minntist á áðan. Í svari hæstv. landbrh. kom fram að engum einum aðila í stjórnkerfinu er með lögum gert að halda þeim þráðum saman sem taka þarf tillit til við gerð slíkrar áætlunar. Síðan þeirri fsp. var svarað hafa aðstæður breyst á þann veg að stofnað hefur verið umhvrn. sem fara á með yfirstjórn allra umhverfismála í landinu. Mér sýnist því einboðið að þráðurinn verði tekinn upp og minni á að nú um áramótin mun Skipulag ríkisins færast undir umhvrn., en sú stofnun ætti auðvitað að verða leiðandi í þessu verki. Ég hef því með tilliti til þess leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 182 til hæstv. umhvrh. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Er þegar hafin vinna við gerð landnýtingaráætlunar á vegum umhvrn.? Ef svo er ekki, hefur umhvrh. í hyggju að láta vinna landnýtingaráætlun fyrir Ísland og hvenær mun sú vinna hefjast?``