Sala á Þormóði ramma
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Varðandi þetta mál hef ég lýst mjög sambærilegum sjónarmiðum og fram komu í máli hv. 1. þm. Norðurl. v. Ég tel ekkert óeðlilegt við það að fram fari könnun á því hvort möguleikar séu á því að selja hlutabréf í þessu fyrirtæki sem er algjör burðarás í atvinnulífi Siglufjarðar. Ýmsir af þeim skilmálum eða forsendum sem þarna þurfa að liggja til grundvallar komu fram í máli hæstv. ráðherra svo sem að tryggja þarf með kvöð á slíkri sölu að kvótinn verði ekki seldur úr bænum og að það séu hömlur varðandi sölu skipanna, eins og fram kom í máli hv. 1. þm. Norðurl. v. Enn fremur þarf að vera frjáls aðgangur allra Siglfirðinga a.m.k. að kaupum á þeim hlutabréfum sem til sölu kunna að verða.
    Ég tel það einnig spurningu hvort ekki eigi að bjóða öðrum að gerast þarna aðilar að, öðrum en þeim sem búa á Siglufirði, því það kann að vera vinningur að því fyrir bæjarfélagið að fá nýtt fjármagn inn í þetta fyrirtæki, ekki síst ef því fylgir að eigendur fjármagnsins kynnu að vilja flytjast til Siglufjarðar. Ég vil því ekki loka fyrir þá leið sem er einnig eðlileg í viðskiptum eins og um þessi mál. En kvaðir sem fylgja sölunni mundu verða að tryggja hagsmuni bæjarins og bæjarbúa ef af slíku yrði.
    Það liggur einnig fyrir að það þarf að fara fram óháð mat á eignarstöðu þessa fyrirtækis og eignarstöðu þeirra fyrirtækja sem kynnu að vilja kaupa hlutabréf í Þormóði ramma ásamt því að liggja fyrir, eins og fram kom hjá hv. þm. Páli Péturssyni, níu mánaða uppgjör að lágmarki eða ársreikningur til þess að raunveruleg rekstrarafkoma bæði Þormóðs ramma og þeirra fyrirtækja sem þarna kynnu að eiga hlut að máli sé upplýst.
    Ég vil svo að síðustu, virðulegi forseti, vegna hins skamma ræðutíma, aðeins segja það að ég tel að það eigi að láta bæjarstjórn Siglufjarðar og þingmenn Norðurl. v. fylgjast með þessu máli skref fyrir skref og ekkert nýtt skref verði tekið í trássi við vilja þessara aðila.