Sala á Þormóði ramma
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Guðmundur H. Garðarsson :
    Virðulegi forseti. Því miður er allt of stuttur tími til að fjalla um þetta mál þar sem hér gefst aðeins tækifæri til að ræða um það í tvær mínútur. En mér finnst það mjög athyglisvert og eftirtektarvert að hv. 4. þm. Norðurl. v. Ragnar Arnalds alþýðubandalagsmaður, og hæstv. fjmrh. hafa báðir talað hér mjög eindregið fyrir einkavæðingu í sambandi við Þormóð ramma hf. Mér finnst þetta mjög merkilegt þegar það er haft í huga að hv. þm. Jón Sæmundur Sigurjónsson, 5. þm. Norðurl. v. og alþýðuflokksmaður, skuli frekar draga úr þeirri stefnu.
    Þormóður rammi hefur verið og er ágætis fyrirtæki og hefur reynst Siglfirðingum mjög vel. Það sem hér er til umræðu er, samkvæmt því sem fjmrh. hefur sagt, að efla þetta fyrirtæki, opna það og gera það að svokölluðu almenningshlutafélagi. Þar með er hann jafnframt að tala fyrir því sjónarmiði sem kom fram hjá hv. þm. Páli Péturssyni og Pálma Jónssyni að það eigi ekki að binda það endilega við heimamenn að vera huthafar þó að sjálfsögðu hafi þeir forustuna og eru sterkustu eignaraðilar. Ég tel það mjög hættulegt fyrir íslenskan sjávarútveg hvar sem er á landinu í strjálbýlinu að ætla að einangra endurskipulagningu jafnþýðingarmikilla fyrirtækja eins og sjávarútvegsfyrirtæki eru við það eitt að heimamenn skuli þurfa að standa í slíkri endurskipulagningu.
    Ég vil að lokum, virðulegur forseti, taka undir þau sjónarmið sem komu fram hjá hæstv. fjmrh. að það er stigið skref í rétta átt með einkavæðingu Þormóðs ramma í þá veru sem hann lýsti í sinni ræðu.