Sala á Þormóði ramma
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Kristinn Pétursson :
    Hæstv. forseti. Ég vil lýsa yfir ánægju minni með að hér skuli vera til umræðu að selja eitthvað af þeim ríkisfyrirtækjum sem ríkissjóður er eignaraðili að. Það er eitt af þeim brýnustu verkefnum sem ríkið þarf að sinna, að selja fleiri ríkisfyrirtæki. Ég tek undir það að rétt er að gæta þess að ekki sé rasað um ráð fram í sambandi við þá sölu. Mér finnst sjálfsagt að heimamenn eigi forgang í því að kaupa hlutabréf í þessu fyrirtæki. En það er ekki rétt sjónarmið að ef einhverjir aðrir kaupi þá sé það vont mál. Þá eru menn væntanlega með það í huga að menn séu að fara burt með kvótann. Hvers vegna í ósköpunum ætti einhver maður að vilja kaupa hlutabréf í fyrirtæki og fjárfesta á staðnum ef hann ætlar svo að fara burtu með kvótann? Það er svo mikil mótsögn í þessari hugsun að hún gengur ekki upp.
     Mér finnst þetta hið besta mál þó ég sé ekki sammála rekstri fjmrh. á ríkissjóði. Ég hef marglýst því hér yfir að ég er hundóánægður með frammistöðu hans þar. En nú er kannski möguleiki að hann geti látið gott af sér leiða þarna og komi þá alla vega einni ríkisfyrirtækjasölu í kring. Og hann skal fá plús hjá mér fyrir það ef hann getur komið því fyrir með sæmilegum hætti.