Sala á Þormóði ramma
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Það er óskandi að Siglfirðingar hafi nóga peninga til þess að kaupa einir þetta fyrirtæki. En ég tel að það sé alls ekkert óhugsandi að þeir sem vildu fjárfesta í hlutabréfum í Þormóði ramma kynnu að vilja flytja til Siglufjarðar. Það væri einungis af því góða og bæjarfélaginu til styrktar ef svo færi. Það er líka hugsanlegt að útgerðar- eða fiskvinnslufyrirtæki sæju sér hag í því að eignast hlut í þessu fyrirtæki. Samvinna frystihúsa og útgerðarfélaga getur verið af hinu góða. Við skulum ekkert loka neinum dyrum í því sambandi, það getur verið öllum til hagsbóta.
    Ég vil líka minna á eitt, að við þurfum líka að gæta hagsmuna ríkisins. Við þurfum að gæta þess að þessi bréf séu seld á eðlilegu verði. Hér er um mikla og dýrmæta eign að ræða sem ríkið á. Það er náttúrlega ekki forsvaranlegt að gefa hana eða láta á einhverju smánarverði. En meginatriðið er það að í framtíðinni sé tryggður blómlegur rekstur á fyrirtækinu.