Þjónusta Ríkisútvarpsins á Suðurlandi
Mánudaginn 10. desember 1990


     Flm. (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 77 flyt ég ásamt þremur öðrum hv. þm. Suðurl. eftirfarandi till. til þál.:
    ,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að hún hlutist til um að Ríkisútvarpið ráði til starfa fréttamann til að annast fréttaöflun og úrvinnslu á fréttatengdu útvarpsefni frá Suðurlandi fyrir báðar rásir Ríkisútvarpsins. Fréttamaðurinn liðsinni fréttariturum sjónvarps í héraðinu. Jafnframt verði komið á fót hljóðstofu á Selfossi og húsnæði tekið á leigu eða keypt til starfseminnar í því augnamiði að síðan verði þar rekið reglulegt svæðisútvarp á vegum Ríkisútvarpsins þegar efni leyfa og næg reynsla þykir á komin.``
    Í greinargerð með tillögunni segir, með leyfi forseta:
    ,,Sunnlendingum hefur nokkuð þótt þeir afskiptir í umfjöllun Ríkisútvarpsins um málefni líðandi stundar undanfarið eins og raunar fleiri landsmönnum utan höfuðborgarsvæðis sem hefur þótt sinn hlutur fyrir borð borinn þegar fréttamat stofnunarinnar er skoðað ofan í kjölinn. Á árunum 1985 til 1987 störfuðu í lausamennsku fyrir fréttastofu Ríkisútvarps ötulir fréttaritarar á Selfossi sem fluttu fréttir vítt og breitt úr héraði, og var það stefna þáverandi fréttastjóra, Margrétar Indriðadóttur, að fastráða fréttamann til starfa í héraðinu um leið og heimild fengist. Þróunin varð hins vegar sú að frá ársbyrjun 1988 og út það ár var enginn lausamaður starfandi á Selfossi vegna samdráttar og sparnaðar í rekstri Ríkisútvarpsins. Þá var aftur ráðinn fréttaritari en eins og áður aðeins í hlutastarf.
    Á Suðurlandsundirlendi og í Vestmannaeyjum eru samtals upp undir sex þúsund heimili sem eiga rétt á svipaðri þjónustu af hálfu Ríkisútvarpsins og Norðlendingar, Vestfirðingar og Austfirðingar njóta nú. Algengur misskilningur virðist vera að telja Suðurlandsundirlendið til Stór - Reykjavíkursvæðis.
    Staðreyndin er hins vegar sú að í fjarlægari plássum á jaðarsvæðum Suðurlands er byggð jafnfjarri því að finna fyrir nálægð höfuðborgarinnar og sveitabæir norður á Langanesi eða á Ströndum. Vissulega sækja Sunnlendingar ýmsa þjónustu til Reykjavíkur, eins og aðrir landsmenn.
    Á Suðurlandi er fjölbreytt og kröftugt mannlíf sem borið er uppi af undirstöðuatvinnuvegum íslensks samfélags. Þar ber daglega eitthvað til tíðinda sem vert er að gefinn sé gaumur af hálfu fjölmiðla. Þess vegna er Sunnlendingum mikið í mun að rödd þeirra fái að hljóma til jafns við aðra á öldum ljósvakans.
    Frá því eftir mitt ár 1986 og allt árið 1987 starfaði þaulvanur blaðamaður á Selfossi fyrir fréttastofu Ríkisútvarpsins og tók hann síðan saman skýrslu um störf sín fyrir menntmrn. Þar kemur fram að á árinu 1987 voru sendar út 245 fréttir af atburðum á Suðurlandi, 114 styttri fréttir og 131 fréttainnskot (viðtöl eða lesnir pistlar). Þetta gerir nærri fimm fréttir til jafnaðar í viku hverri.
    Fréttir sem tengdust Suðurlandi í heild, einkum ef um lengri fréttainnskot var að ræða, voru studdar

heimildum sem sóttar voru vítt og breitt um héraðið. Sérstaklega átti það við ef um var að ræða fréttir af verkalýðs - og atvinnumálum eða málefnum landbúnaðar. Um það bil fjórðungur frétta tengdist fundahöldum eða ráðstefnum af einhverju tagi. Dreifing sendra frétta eftir málaflokkum og uppruna í héraði var`` --- eins og segir á síðu 4 í greinargerð, og ég tel óþarfa, virðulegi forseti, að lesa það hér upp.
    ,,Um fréttamat fréttastofu Ríkisútvarpsins segir í skýrslu þeirri sem hér er vitnað til:
    ,,Eftir að ég hóf þessa lausamennsku varð ég þess fljótlega áskynja að ef frá eru taldar starfsreglur Fréttastofunnar sem taka til hlutlægni frétta og vöndunar vinnubragða við öflun heimilda, varð að spila mestan part eftir eyranu hvað fréttamat áhrærði og áherslur í starfi. Þrátt fyrir góð orð um bætta þjónustu við fjórðunginn þótti mér stundum þungt fyrir þegar ég var að reyna að koma frá mér fréttum, einkum ef mikið var um að vera annars staðar. Auðvitað þarf að ritstýra útsendingum frétta og mál geta komið upp með skömmum fyrirvara sem ryðja í bili frá öðrum fréttum og léttvægari. Það er á hinn bóginn álitamál hvort einstakir meiri háttar viðburðir af innlendum toga eiga að fá svo mikið rúm að þeir kæfi að mestu annan fréttaflutning af landsmálum.``
    Það er vissulega ánægjuleg þróun að þjónusta Ríkisútvarpsins við landsbyggðina hefur á síðustu árum verið stóraukin. Þar má þó ekki vera um mismunun að ræða. Uppbygging þjónustu á einum stað má ekki verða til þess að þjónusta við annan verði í lágmarki. Ríkisútvarpið þarf að koma upp sambærilegri aðstöðu víðar á við það sem nú er á Akureyri, Egilsstöðum og á Ísafirði, meðal annars á Selfossi eða öðrum heppilegum stað á Suðurlandi. Einnig má benda hér á sérstöðu Vestmannaeyja. Miðað við þær upplýsingar, sem liggja fyrir í þeirri skýrslu sem unnin var fyrir Ríkisútvarpið um fréttaflutning af Suðurlandi 1987, og ef tekið er tekið mið af öðru útvarpsefni frá Suðurlandi er ljóst að þar er full þörf á að ráðinn verði starfsmaður á Suðurlandi, fréttamaður í fullt starf hjá Ríkisútvarpinu."
    Virðulegi forseti. Eins og ég tel mig hafa rökstutt í greinargerðinni er mikil þörf fyrir bætta þjónustu Ríkisútvarpsins á Suðurlandi. Vissulega höfum við á Suðurlandi fréttaritara, bæði útvarps og sjónvarps. En yfirleitt er um að ræða menn sem eru í öðrum störfum og sinna fréttamennskunni í hjáverkum. Þeir verða einnig að koma sér upp aðstöðu og tækjum sjálfir, í það minnsta þeir sem stunda fréttaöflun fyrir sjónvarpið. Þær kröfur eru líka gerðar til viðkomandi fréttamanna að þeir komi fréttum til Reykjavíkur fyrir ákveðinn tíma og þá að sjálfsögðu á meðan þær eru nýjar og ferskar. Það segir sig sjálft að fréttaritarar sem sinna fréttamennsku sem hlutastarfi með annarri vinnu hafa litla möguleika til að vera stöðugt vakandi yfir því sem er að gerast á líðandi stund. Möguleikar þeirra til að vera fréttamaður á staðnum, eins og sagt er, eru líka takmarkaðir vegna vinnu annars staðar. Krafa sem gerð er með tillögu þeirri sem ég mæli hér fyrir, að Ríkisútvarpið sé útvarp allra landsmanna

jafnt, er ekki ný og vissulega hefur verið reynt af hálfu Ríkisútvarpsins að mæta þeirri kröfu, t.d. með því að starfrækja svæðisútvarp á Vestfjörðum, Austfjörðum og Akureyri.
    Á því er enginn vafi að efnið frá svæðisútvarpsstöðvunum bætir dagskrá útvarpsins, sérstaklega fréttir og fréttatengdir þættir frá þessum svæðum. Fréttir unnar og fluttar af heimamönnum eru oft nær raunveruleikanum en þær fréttir sem unnar hafa verið af heimamönnum og síðan sendar til úrvinnslu til Reykjavíkur til starfsmanna Ríkisútvarps eða sjónvarps. Þær fréttir fara oft þannig að það sem er aðalatriði að mati heimamanna er klippt út. Það er líka ljóst að þar sem ráðnir eru fréttamenn í fullt starf verður öll vinnsla frétta og útvarpsefnis vandaðri en þar sem aðeins eru ráðnir fréttaritarar, oft án þess að fá nokkra þjálfun og leiðbeiningar allar í lágmarki.
    Tillagan er áskorun á ríkisstjórnina um að ráða til starfa fréttamann á Suðurlandi sem annist öflun og úrvinnslu á fréttum og fréttatengdu efni á Suðurlandi. Einnig skal hann liðsinna fréttariturum sjónvarpsins en starfsaðstaða þeirra á Suðurlandi hefur verið afar bágborin og hefur t.d. fréttaritari sjónvarpsins sem hefur aðsetur í Rangárvallasýslu orðið, eins og ég sagði áðan, að fjármagna tækjabúnað sinn sjálfur. Einnig er farið fram á í tillögunni að komið verði á fót hljóðstofu á Selfossi og húsnæði tekið á leigu eða keypt til þeirrar starfsemi í því augnamiði að síðan verði komið á fót reglulegu svæðisútvarpi þannig að Sunnlendingar hafi tækifæri til að koma á framfæri því sem þeir telja fréttnæmt á svæðinu ásamt öðru því útvarpsefni eða sjónvarpsefni sem til verður á Suðurlandi. Einnig má benda á sérstöðu Vestmannaeyja.
    Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og félmn.