Grænar símalínur
Mánudaginn 10. desember 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég tel eðlilegt að upplýsa lítillega við þessa umræðu það sem á döfinni hefur verið og gert hefur verið í þessum efnum að undanförnu á vegum Póst- og símamálastofnunar og samgrn. Þar hafa ,,grænar símalínur`` eða ,,græn símanúmer`` m.a. verið til skoðunar í tengslum við gjaldskrárbreytingar og aðgerðir á sl. tveim árum til að jafna símkostnað. Það liggur að vísu í hlutarins eðli að þeim mun meiri árangur sem næst í því efni að draga úr mun, sem verið hefur allt of mikill, milli langlínutaxta annars vegar og innanbæjarsímtala hins vegar þeim mun minna er í raun vægi slíkrar þjónustu eða í öllu falli er það þá minna sem munar þó svo ekki séu fyrir hendi ,,græn númer`` sem byggja á því, eins og kom fram í máli flm., að sá sem hringir borgar sama verð hvar sem er á landinu. Engu að síður er það mikið réttlætismál að þessi þjónusta sé fyrir hendi hvað varðar hinar stærri sameiginlegar stofnanir landsmanna þannig að mönnum sé ekki mismunað með tilliti til búsetu hvað snertir kostnað við að hafa samband við opinberar stofnanir, sameiginlegar stofnanir landsmanna.
    Þessi tækni er núna fyrir hendi. Það er fyrst og fremst spurning um framkvæmd eða útfærslu á því hvernig svona þjónustu verði við komið. Í því sambandi hefur Póst- og símamálastofnunin í samráði við samgrn. verið að gera ákveðnar tilraunir, fylgjast með þeim númerum sem þegar eru komin í notkun, m.a. til þess að geta síðan gefið upplýsingar um kostnað og lagt á það mat hvers megi vænta í sambandi við kostnað til að mynda opinberra stofnana, ráðuneyta, Alþingis og fleiri slíkra aðila. Ætla má að með því að fylgjast með notkun og reikna út hlutföll megi í kjölfar slíkra tilrauna meta það með nokkurri vissu hver slíkur kostnaður verður. Ég vænti þess að innan tíðar verði hægt af hálfu Póst- og símamálastofnunar að veita ákveðnar upplýsingar, a.m.k. ákveðnar vísbendingar, um það hvaða kostnaður gæti verið því samfara að taka upp slíka þjónustu.
    Ég tel rétt að láta það koma fram, til að gefa mönnum hugmynd um þá breytingu sem hefur orðið á gjaldskrá undanfarin tvö ár, að það hlutfall sem á miðju ári 1988 var á milli innanbæjar- og langlínutaxta ef talað var í þrjár mínútur, annars vegar innan sama svæðis og hins vegar á lengsta langlínutaxta, dagtaxta, var 1 á móti 8,2. Þ.e. það var 8,2 sinnum dýrara að hringja á lengsta taxta en innan bæjar þriggja mínútna símtal sem er gjarnan miðað við þegar slíkur samanburður er framkvæmdur. Þetta hlutfall er núna, eftir gjaldskrárbreytingar 1. nóv. sl., 1 á móti 3,8. Af þessu eina dæmi má sjá að þarna hefur náðst verulegur árangur og mikið miðað í rétta átt. En ég undirstrika að það breytir ekki nauðsyn þess að taka upp þjónustu af þessu tagi og bjóða hana fram þangað til menn ná því marki, sem ég tel auðvitað að eigi að vera hið eina endanlega takmark í þessum efnum, að gera allt landið að einu gjaldsvæði í símaþjónustu.
    Ég tel líka rétt að minna á að þessum málum hefur áður verið hreyft á Alþingi. Þannig var á 110. löggjafarþingi flutt þáltill. þar sem skorað var á ríkisvaldið að koma á í áföngum sama gjaldi fyrir símþjónustu á öllu landinu. Ég vil að sú skoðun mín komi hér fram við þessa umræðu að þó ég styðji efni tillögunnar og telji reyndar að þegar sé unnið að framkvæmd í þessa átt, tel ég að einungis beri að líta á slíkar ráðstafanir, svo nauðsynlegar sem þær eru, sem áfanga að því marki að gera allt landið að einu gjaldsvæði fyrir símþjónustu.