Grænar símalínur
Mánudaginn 10. desember 1990


     Flm. (Jón Kristjánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir undirtektir við þetta mál. Ég vildi aðeins láta það koma fram að ég er honum sammála um að þessi till. á ekki að koma í veg fyrir það að menn nái því endanlega marki að jafna símkostnað landsmanna til fulls. Hins vegar er þetta tiltölulega auðveld og fljótvirk leið til að draga verulega úr þeim mismun sem er á þessum kostnaði nú þegar. Það er einnig alveg rétt að þessi kostnaður verður þeim mun minni eftir því sem mismunurinn á langlínusamtölunum er minni og sá mismunur hefur minnkað verulega á undanförnum árum. En eins og fram kom í minni framsöguræðu vona ég að þessi till. fái jákvæða meðferð hér á hv. Alþingi og afgreiðsla Alþingis á málinu verði til að flýta fyrir nauðsynlegu jafnrétti og réttlæti í þessum efnum.