Öflun gagna um veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 10. desember 1990


     Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Fyrir tíu dögum eða svo, á fimmtudegi í næstsíðustu viku, kvaddi ég mér hljóðs um þingsköp af þeirri ástæðu að hæstv. sjútvrh. hafði synjað sjútvn. Ed. um upplýsingar varðandi kvóta smábáta. Sú umræða fór fram þann fimmtudag þó svo að í ljós hafi komið að forseti hafi ekki greint varaforseta frá því að ég hafði beðið um orðið um þingsköp þá um morguninn. Í ræðu minni óskaði ég eftir því að hæstv. forseti beitti sér fyrir því að hæstv. sjútvrh. léti þingnefnd í té þær upplýsingar sem ég hef nú talað um.
    Ég vil minna á það, hæstv. forseti, að forseti Nd., hv. þm. Árni Gunnarsson, fulltrúi Alþb. í sjútvn. Ed., hv. þm. Skúli Alexandersson, og tveir þingmenn í sjútvn. Nd., hv. þm. Matthías Bjarnason og Kristinn Pétursson, tóku undir þessar óskir. Ég vil að það komi alveg skýrt fram að málið var tekið upp með þinglegum hætti í sameinuðu þingi þann fimmtudag sem hér um ræðir.
    Nú hef ég gert forseta Sþ. aðvart um að ég muni kveðja mér hljóðs í dag og inna forseta eftir því hvað hann hafi gert til þess að afla þeirra gagna sem ég hef beðið um frá hæstv. sjútvrh. Ég veit að vísu að formaður sjútvn. Ed. telur óþarft að nefndin fái þessar upplýsingar í hendur, enda flokksbróðir
hæstv. sjútvrh. Ég vil beina því til hæstv. forseta hvað hann hafi gert til þess að afla gagnanna. Þessi fyrirspurn var borin fram með þinglegum hætti og yfirgnæfandi fjöldi nefndarmanna í sjútvn. sem til máls tóku þeirrar skoðunar að þeir þyrftu á þessum upplýsingum að halda vegna starfa sinna sem alþingismenn.
    Ég vil einnig taka það fram, hæstv. forseti, að í mig hafa hringt fjölmargir útgerðarmenn smábáta og skýrt mér frá því hvaða veiðiheimildir ráðuneytið hefur ætlað þeim á næsta ári. Ég hef beðið um að fá skriflegar upplýsingar um það sendar úr ráðuneytinu hvernig standi á því að viðkomandi menn fái ekki frekari veiðikvóta en þar er rætt um. Og ég hef ítrekað beðið um að fá samanburð milli báta þannig að ég geti kynnt mér hvernig málin standi. Þar sem hæstv. ráðherra hefur gefið þann úrskurð að ég sem sjávarútvegsnefndarmaður hafi ekki heimildir til þess að fá þessi gögn í hendur, vil ég enn á ný ítreka, hæstv. forseti, og með þinglegum hætti hvort hæstv. forseti hafi orðið við beiðni minni eða hvort hæstv. forseti sé þeirrar skoðunar að ráðherra hafi stjórnskipulega heimild til þess að neita þingnefnd um þær upplýsingar sem ég hef nú ítrekað beðið um.
    Ég vil, til þess að forðast misskilning, taka fram að þegar ég tók málið hér upp á Alþingi á fimmtudegi í fyrri viku og bað hæstv. forseta að vera viðstaddan umræðuna með löngum fyrirvara, kl. 10.30 um morguninn, málið var ekki tekið fyrir fyrr en 20 mínútur yfir 12, var auðvitað kjarni málsins sá að forseta ber að hlutast til um það ef þingnefnd hefur ekki starfsskilyrði eftir þeim almennu reglum sem þingnefndum ber að starfa í ljósi þess að ríkisstjórn starfar í umboði Alþingis og Alþingi hefur ríkt eftirlitshlutverk

með ríkisstjórn á hverjum tíma.