Öflun gagna um veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 10. desember 1990


     Forseti (Guðrún Helgadóttir) :
    Vegna athugasemda hv. 2. þm. Norðurl. e. fyrir um það bil viku síðan, sem fram var borin vegna umræðna sem hér fóru fram um þingsköp þennan umrædda dag, hafa forsetar þingsins að beiðni hv. þm. sjálfs í dag skrifað honum bréf þar sem m.a. er að þessum atriðum vikið. Forseti vill leyfa sér að lesa þetta bréf upp fyrir hv. þingheim svo fram komi þau atriði málsins sem máli skipta. Forseti vill þó vekja athygli á því að menn biðja ekki um orðið um þingsköp með neinum fyrirvara þannig að það er undir hælinn lagt að sjálfsögðu hvaða forseti situr á forsetastóli þegar beðið er um orðið um þingsköp. Svo var einnig nú t.d. En bréfið hljóðar svo:
    ,,Hv. 2. þm. Norðurl. e. Halldór Blöndal hefur komið að máli við forseta Sþ. og óskað eftir að hann svari því hvar þingmaðurinn hafi farið út fyrir mörk þingskapaumræðu á fundi Sþ. fimmtudaginn 29. nóv. er hann kvaddi sér hljóðs til að ræða um samskipti sjútvn. Ed. og sjútvrn., nánar tiltekið um afhendingu á lista yfir heildarúthlutun veiðileyfa til smábáta.
    Forseti hefur, ásamt forsetum Ed. og Nd., kynnt sér útskrift af umræðunum sem fram fóru þennan dag. Eftir þá athugun og sem svar við þessari beiðni vill forseti taka fram eftirfarandi:
    Upphaf ræðu þingmannsins og samtöl hans við forseta voru aðfinnsluverð því að sitjandi forseta, hæstv. öðrum varaforseta Sþ., var ekki sýndur sá sómi sem ber. Hún er fullgildur forseti meðan hún situr í forsetastól, eins og skýrt er tekið fram í 12. gr. þingskapa, og var í þessu dæmi fullfær um að hlýða á og bregðast við kvörtun þingmannsins.
    Í öðru lagi fór þingmaðurinn of langt í að skýra bakgrunn málsins, þ.e. útgáfu veiðileyfa til smábátaeigenda og hugleiðingar við rétt smábátaeigenda til að gera athugasemdir við leyfisúthlutnina. Honum bar að vera stuttorður og fjalla aðeins um kjarna málsins, afhendingu gagnanna, en fjalla ekki um málið efnislega í þingskapaumræðu. Loks fór þingmaðurinn út fyrir öll mörk þegar hann gerði að umtalsefni för sína og sitjandi forseta til Grímseyjar fyrir skömmu. Sú för verður með engu móti tengd þingsköpum Alþingis.
    Í umræðum utan dagskrár mánudaginn 3. des. sl. bar hv. 2. þm. Norðurl. e. enn fram kvörtun sína um að hann hefði ekki fengið í hendur bráðabirgðalista yfir heildarúthlutun veiðileyfa til smábáta, en í þetta sinn að viðstöddum hæstv. sjútvrh. Ráðherra gaf þá þær skýringar að hér væri um tilraunaúthlutun að ræða og í henni væru villur og þess vegna algerlega óeðlilegt að slík viðkvæm vinnugögn yrðu send þingmönnum á þessu stigi málsins. Jafnframt upplýsti ráðherra að þingmenn hefðu fengið upplýsingar um einstök atriði í úthlutuninni, jafnvel um heildarúthlutun til einstakra byggðarlaga, auk þess sem þeim væri heimilt að kynna sér hvað eina í listanum hjá starfsmönnum sjútvrn.
    Forseti getur ekki kveðið upp úr um hvort fyrirmæli ráðherra um meðferð þessara vinnugagna í ráðuneytinu eru réttmæt eða ekki, en telur þó mestu skipta

þá yfirlýsingu ráðherra að engum upplýsingum hafi verið haldið leyndum fyrir þingmönnum við vinnu í nefndinni. Forseti hefur ekkert vald til að skipa ráðherra fyrir um meðferð þessara gagna. Ráðherra einn ræður því hvernig með þau skuli fara en hann ber að sjálfsögðu ábyrgð á ákvörðun sinni gagnvart Alþingi. Forseti hyggst því ekkert aðhafast frekar í þessu máli.

Alþingi, 10. desember 1990.

Guðrún Helgadóttir, forseti Sþ.``