Öflun gagna um veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 10. desember 1990


     Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að svara efnislega því bréfi sem ég fékk í hendur fyrir tíu mínútum eða svo frá forsetum Alþingis. Ég vil vekja athygli hæstv. forseta á því að það er alveg á mörkum að almennar bréfaskriftir milli forseta og einstakra þingmanna rúmist innan umræðu um þingsköp þegar þingmaður er að inna forseta eftir því hvort hann hafi orðið við beiðni um að afla tiltekinna upplýsinga hjá hæstv. sjútvrh. Það er greinilegt af þessu bréfi samt, eins og það er lesið upp, að hæstv. ráðherra hefur ekkert gert í því máli, ekki neitt. Og það er jafnframt greinilegt að hæstv. ráðherra hyggst ekki gera neitt í málinu. Með því að gera ekkert í málinu telur hæstv. forseti að þeir þingmenn sjútvn. Ed. og Nd. Alþingis sem fóru fram á þessar upplýsingar hafi farið yfir þau takmörk sem þeim bar. Og ekki nóg með það, telur að beiðni þeirra hafi ekki verið á rökum reist. Það er mat hæstv. forseta að sjútvrh. eða framkvæmdarvaldið að þessu sinni, hafi haft stjórnskipulegan rétt til þess að halda á málinu eins og sjútvrh. hefur gert og að þeir fjölmörgu smábátaútgerðarmenn um allt land sem hafi leitað til alþingismanna um frekari upplýsingar og samanburð á þeirra úthlutun og annarra hafi leitað til rangs aðila. Þessir smábátaútgerðarmenn geta ekki vænst þess að alþingismenn fái að fylgjast með.
    Það er rangt hjá hæstv. forseta að sjútvrh. hafi ekki neitað um upplýsingar. Það kom skýrt fram í ræðu hans þegar málið var rætt utan dagskrár um daginn og ég ráðlegg hæstv. forseta að lesa þá umræðu.
    Ég vil í öðru lagi segja það, sem á að vera óþarfi, að það var efnt til þingskapaumræðu um þessi mál næstliðinn fimmtudag með löngum fyrirvara, með samþykki hæstv. forseta á þeim tíma, eins og hann hefur raunar sjálfur viðurkennt, ef ég man rétt úr forsetastóli hér í þessum ræðustól. Við höfðum komið okkur saman um það að umræðan gæti hafist kl. 12. Það er þess vegna rangt hjá hæstv. forseta að sú umræða hafi ekki verið ákveðin með fyrirvara. Það er líka rangt hjá hæstv. forseta að ég hafi ekki látið vita um það fyrir fram að ég mundi kveðja mér hljóðs í dag um þingsköp til að spyrja eftir því efni sem ég er nú að tala um. Það er auðvitað aukaatriði í þessu máli hvort forseti fer rétt með. En ég fól einum starfsmanni þingsins, hringdi í hann sérstaklega fyrir helgi og bað hann um að skýra forseta Sþ. frá því að ég mundi taka þetta mál upp í dag. Sá ágæti starfsmaður hefur jafnan, svo langt ég veit, verið trúr þeim verkum sem þingmenn hafa beðið hann um. Ég efast ekki um að hann hafi komið mínum skilaboðum til hæstv. forseta þannig að bæði nú og áður hefur hæstv. forseta verið kunnugt um mína beðni. Það er hins vegar rétt að ég var ekki búinn að binda það við fastákveðinn tíma í dag við forseta hvenær ég mundi taka til máls.
    Mér þykir leitt að hæstv. forseti skuli bregðast svo við, finnast ekkert athugavert við það að hæstv. sjútvrh. haldi upplýsingum fyrir nefndarmönnum í sjútvn.
    Ég fékk upphringingu nú um helgina. Það var

gamall maður sem hefur verið á sjónum 60 -- 70 ár á hverju einasta ári. Hann fékk sex tonn í úthlutun. Þetta er svona dæmi af því sem hefur verið að gerast og það er úthlutun af þessu tagi sem verið er að halda leyndri fyrir sjávarútvegsnefndarmönnum Alþingis.