Öflun gagna um veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 10. desember 1990


     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins skýra frá því, ef það hefði farið fram hjá einhverjum hv. þm. sem hefur komið fram áður í umræðum um þessi mál, að á fund sjávarútvegsnefnda mættu fulltrúar sjútvrn. ásamt þeim fulltrúum sem unnu að útreikningum á aflakvóta til umræddra smábáta. Það voru fulltrúi Fiskifélags Íslands, fulltrúi Félags smábátaeigenda og fulltrúi sjútvrn.
    Skýrt kom fram hjá þessum aðilum að þeir væru tilbúnir til þess að fara yfir öll þau gögn sem þeir hefðu undir höndum með sjávarútvegsnefndarmönnum og með hverjum og einum þingmanni, hvort sem það væri í herbergjum þingnefndanna eða uppi í sjútvrn. Þar var engu að leyna. Þeir voru tilbúnir að fara yfir öll þessi gögn með nefndarmönnum eða þingmönnum í herbergjum okkar, þar sem við höfum starfsaðstöðu, eða uppi í sjútvrn. Þetta eru staðreyndir málsins og þetta boð stendur enn. En merkilegt nokk, mér er ókunnugt um það að nokkur af sjávarútvegsnefndarmönnum eða þingmönnum almennt hafi leita til þessara manna til að fá einhverjar upplýsingar. Hér tala menn hins vegar endalaust um þessi mál.